Fara í innihald

Níger

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lýðveldið Níger
République du Niger
Fáni Níger Skjaldarmerki Níger
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Fraternité, Travail, Progrès
(franska: Bræðralag, Vinna, Framfarir)
Þjóðsöngur:
La Nigérienne
Staðsetning Níger
Höfuðborg Níamey
Opinbert tungumál franska (opinbert), hásamál, kanúrí, gourmanchéma, sarma, tamajak
Stjórnarfar Lýðveldi, herforingjastjórn

Forseti Abdourahamane Tchiani
Forsætisráðherra Ali Lamine Zeine
Sjálfstæði
 • frá Frakklandi 3. ágúst 1960 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
21. sæti
1.267.000 km²
0,02
Mannfjöldi
 • Samtals (2023)
 • Þéttleiki byggðar
61. sæti
25.400.00
12,1/km²
VLF (KMJ) áætl. 2017
 • Samtals 21,742 millj. dala (141. sæti)
 • Á mann 1.159 dalir (183. sæti)
VÞL (2014) 0.348 (188. sæti)
Gjaldmiðill CFA-franki
Tímabelti UTC +1
Þjóðarlén .ne
Landsnúmer +227

Níger er landlukt land í Vestur-Afríku sunnan Sahara, með landamæriNígeríu í suðri, Malí í vestri, Alsír og Lýbíu í norðri og Tjad í austri. Landið dregur nafn sitt af Nígerfljóti sem rennur gegnum suðvesturhluta þess. Níger nær yfir nær 1.270.000 ferkílómetra og er því stærsta land Vestur-Afríku. Um 80% landsins eru í Saharaeyðimörkinni. Íbúafjöldi er um 25 milljónir (2023). Langflestir íbúar eru múslimar og búa í suðvesturhluta landsins þar sem höfuðborgin, Níamey, er staðsett.

Níger er þróunarland og var í neðsta sæti vísitölunnar um þróun lífsgæða árið 2012. Þeir landshlutar sem ekki eru í eyðimörkinni eiga á hættu að verða eyðimerkurmyndun að bráð. Níger er eitt af fátækustu löndum heims og efnahagur þess byggist að mestu á sjálfsþurftarbúskap, kvikfjárrækt og vinnslu á úrani sem stendur undir 72% af útflutningstekjum landsins. Landið stendur frammi fyrir miklum áskorunum vegna vanþróaðs landbúnaðar, offjölgunar, lágs menntunarstigs, skorts á innviðum, lélegrar heilbrigðisþjónustu og jarðvegseyðingar.

Sögulega séð hefur svæðið sem nú er Níger skipst milli ólíkra þjóðflokka. Frakkar hófu að leggja svæðið undir sig frá aldamótunum 1900 og Níger varð hluti af Frönsku Vestur-Afríku. Eftir að landið fékk sjálfstæði 1960 var það í sautján ár undir stjórn Hamani Diori. Miklir þurrkar og ásakanir um spillingu leiddu til þess að herforingjaráð undir stjórn Seyni Kountché steypti honum af stóli. Kountché ríkti síðan til dauðadags árið 1987. Síðan hefur landið lengst af verið undir herforingjastjórnum en árið 2011 voru haldnar lýðræðislegar kosningar. Lýðræðislegt stjórnarfar var við lýði til ársins 2023, en þá tóku herforingjar aftur völdin.

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Níger er landlukt land í Vestur-Afríku og liggur á mörkunum milli Saharaeyðimerkurinnar og Afríku sunnan Sahara. Það á landamæri að Nígeríu og Benín í suðri, Búrkína Fasó og Malí í vestri, Alsír og Líbýu í norðri og Tjad í austri.

Níger liggur milli 11° og 24° norður og 0° og 16° austur. Landið er 1.267.000 ferkílómetrar að stærð. Þar af eru um 300 ferkílómetrar vatn. Landið er því aðeins minna en tvöföld stærð Frakklands og 22. stærsta land heims.

Landamæri landsins eru 5.697 km að lengd og liggja að sjö löndum. Lengstu landamærin eru við Nígeríu í suðri (1.497 km), þau næstlengstu við Tjad í austri (1.175 km), síðan við Alsír í norðri (956 km) og Malí í vestri (821 km). Auk þess á Níger stutt landamæri í suðvestri að Búrkína Fasó (628 km), Benín (266 km) auk 354 km landamæra að Líbýu í norðaustri.

Lægsti punktur landsins er Nígerfljót í 200 metra hæð yfir sjávarmáli í suðvesturhlutanum. Hæsti punktur landsins er Mont Idoukal-n-Taghès í Aïr-fjöllum í miðju landsins.

Loftslag í Níger er heittemprað loftslag og eyðimerkurloftslag sem einkennist af miklum hita og þurrkum. Syðst ríkir hitabeltisloftslag við Nígerfljót. Landslag einkennist af eyðimerkursléttum og sandöldum, með hitabeltisgresju í suðri og hæðir í norðri.

Náttúra og dýralíf

[breyta | breyta frumkóða]

Í norðri er Níger eyðimörk eða hálfeyðimörk. Meðal spendýra sem lifa þar eru addaxantilópur, sverðantilópur, gasellur og hærusauðir í fjöllunum. Eitt af stærstu friðlöndum heims, Aïr og Ténéré-friðlandið, var stofnað í norðurhluta Níger til að vernda þessi sjaldgæfu dýr.

Í suðri er hitabeltisgresja ríkjandi landslag. Þar er W-þjóðgarðurinn við landamærin að Búrkína Fasó og Benín. Hann er hluti af einu mikilvægasta dýralífssvæði Afríku þar sem nú eru stærstu stofnar vesturafríkuljóna og saharablettatígra.

Önnur villt dýr eru meðal annars afríkufílar, villibufflar, roanantilópa, kobantilópa og vörtusvín. Síðasti sjálfbæri stofn vesturafríkugíraffa lifir í Níger.

Mörg vandamál steðja að umhverfinu í Níger. Ósjálfbær landbúnaður vegna offjölgunar skapar þrýsting á náttúrulegt umhverfi. Veiðiþjófnaður, kjarreldar og nýir flæðiakrar á flóðsléttum Nígerfljóts eru dæmi um umhverfisvandamál. Vatnsmagn í Nígerfljóti hefur minnkað út af stíflum í Malí, Gíneu og Níger sjálfu og hefur bein áhrif á umhverfið. Skortur á nægu starfsliði í þjóðgörðum og verndarsvæðum er annar þáttur sem nefndur er sem ástæða fyrir hnignandi dýralífi.

Stjórnsýsluskipting

[breyta | breyta frumkóða]

Níger skiptist í 7 héruð og eitt höfuðborgarsvæði. Héruðin skiptast í 36 umdæmi sem aftur skiptast í sveitarfélög af ýmsum toga. Árið 2006 voru sveitarfélögin 265 talsins, þar á meðal bæjarfélög í þéttbýli, sveitarfélög í dreifbýli og stjórnarsetur á mjög dreifbýlum svæðum og hersvæðum. Sveitarfélög skiptast stundum í þorp og byggðir en bæjarfélög í hverfi.

Helstu borgir Níger eru Níamey (með yfir 770 þúsund íbúa), Zinder (með yfir 190 þúsund íbúa), Maradi (með yfir 160 þúsund íbúa), Agadez (með tæplega 90 þúsund íbúa) og Tahoua (með um 80 þúsund íbúa).

Kort sem sýnir héruð Níger.

Héruðin eru:

Íþróttir

[breyta | breyta frumkóða]

Staðbundnar íþróttagreinar á borð við fjölbragðaglímu, hesta- og úlfaldakapphlaup njóta vinsælda í Níger, en knattspyrna er þó sú grein sem flestir fylgjast með. Knattspyrnulandslið Níger hefur aldrei farið nærri því að komast í úrslitakeppni stórmóts og landið á fáa atvinnumenn í Evrópu.

Níger sendi fyrst íþróttamenn til keppni á Ólympíuleikunum 1964 og hefur oftast tekið þátt upp frá því. Tveir íþróttamenn hafa komist á verðlaunapall. Issaka Daborg fékk bronsverðlaun í hnefaleikum í München 1972 og Abdoul Razak Issoufou hlautið silfrið í Ríó 2016 í tækvondó.


  Þessi Afríkugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.