Kartafla
Kartafla | ||||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Vísindaleg flokkun | ||||||||||||||||
| ||||||||||||||||
Tvínefni | ||||||||||||||||
Solanum tuberosum L. |
Kartafla (fræðiheiti: Solanum tuberosum) er fjölær jurt af náttskuggaætt sem er mikið ræktuð fyrir sterkjurík hnýði á neðanjarðarrenglum. Kartöflur eru í fjórða sæti yfir mest ræktuðu ferskvöru heims (á eftir hrísgrjónum, hveiti og maís).
Kartöflur eru upprunnar í Andesfjöllum, nánar tiltekið í suðurhluta Perú rétt norðan við Titikakavatn samkvæmt nýlegri rannsókn.[1] Frá Suður-Ameríku barst kartaflan til Evrópu með spænskum og portúgölskum landvinningamönnum á síðari hluta 16. aldar. Elstu heimildir um kartöflurækt í Gamla heiminum eru frá Kanaríeyjum árið 1567.[2] Kartaflan náði sér þó ekki á strik sem undirstöðufæða í Evrópu fyrr en um tvö hundruð árum síðar og þá sem svar við harðindum sem ollu uppskerubresti í hinni hefðbundnu kornrækt. Kartöfluræktin í Evrópu byggðist á fáum afbrigðum og var því veik fyrir sjúkdómum eins og kartöflumyglu sem olli uppskerubresti á mörgum stöðum í Evrópu á fimmta áratug 19. aldar. Kartöflurækt hófst á Írlandi árið 1589 að undirlagi sir Walter Raleigh.
Kartaflan er undirstöðuhráefni í evrópskri matargerð og Evrópubúar og Bandaríkjamenn eru enn mestu kartöfluneytendurnir en síðustu áratugi hefur kartöfluræktun farið ört vaxandi í Asíu. Kína er nú stærsti kartöfluframleiðandinn á heimsvísu með um fimmtung heimsframleiðslunnar.[3] Kartöflur eru í fimmta sæti yfir mest ræktuðu nytjaplöntur í heiminum.[4][5]
Árið 2008 var ár kartöflunnar, en á hverju ári tileinka Sameinuðu þjóðirnar árið einhverju málefni sem varðar heill mannkyns. Ástæðan fyrir valinu er sú að kartaflan er talin geta hjálpað til að ná einu af átta þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem er að fækka þeim um helming sem líða skort og hungur vegna fátæktar fyrir árið 2015.[6]
Orðsifjar
[breyta | breyta frumkóða]Heiti kartöflunnar á hinu forna tungumáli quechua, sem Inkarnir töluðu, er papa, og það orð er enn notað í Suður-Ameríku, Mexíkó og á Kanaríeyjum sbr. ljóðið „Oda a la papa“ („Óður til kartöflunnar“) eftir Pablo Neruda: „PAPA, / te llamas / papa / y no patata, / no naciste castellana: [...]“[7] („PAPA / heitir þú / papa / og ekki patata, / þú varst ekki frá Kastilíu...“). Enska orðið potato er komið úr spænsku patata sem fékk orðið frá orði taínoindíána á Haítí yfir hinar óskyldu sætu kartöflur batata.[8]
Íslenska orðið „kartafla“ er tökuorð frá danska orðinu kartoffel sem kemur frá þýsku; Kartoffel eða Tartuffel sem kemur af ítalska orðinu tartufolo (þaðan í fríúlísku: cartúfula og frönsku: cartoufle) af tartufo sem merkir „jarðsvepps“.[9]
Annað íslenskt orð yfir kartöflur, „jarðepli“, er hugsanlega komið úr hollensku, aardappel, sem tók það úr frönsku, pomme de terre. Finnska heitið peruna er dregið af gamla sænska heitinu jordpäron „jarðperur“.[10]
Lýsing
[breyta | breyta frumkóða]Kartöflugrös eru beinvaxin og ná 60-150 sm hæð. Þegar líður á haustið falla þau og gulna. Blöðin eru fjöðruð, með sjö til níu tenntum eða heilrendum laufum. Blómin eru lítil með fimm krónublöð og vaxa í klasa efst á stönglinum með gula fræfla. Liturinn er frá gulum að silfruðum. Einhver þyngsta kartafla sem vitað er um vó 11,3 kg og var grafinn upp í Líbanon.[11]
Eftir blómgun mynda sum kartöfluafbrigði lítil græn aldin sem líkjast grænum dvergtómötum. Í hverju aldini geta verið allt að 300 fræ sem hægt er að skilja frá aldininu með því að setja nokkur aldin í blandara á hægasta snúning með vatni þannig að aldinkjötið flýtur upp en fræin sökkva. Öll ný kartöfluafbrigði eru ræktuð upp af fræjum. Kartöflualdin innihalda mikið magn af eiturefninu sólaníni og eru því óæt.
Býflugur sjá um aðfrævun en sjálffrævun á sér líka stað. Hægt er að fjölga öllum kartöflum kynlaust með því að gróðursetja hnýði eða bita af hnýði með minnst tvö augu, eða með afskurði, sem er notaður í gróðurhúsaræktun til að fá heilbrigt útsæði. Sum kartöfluafbrigði mynda aldrei fræ (hafa ófullkomin blóm) og fjölga sér því aðeins með hnýðinu.
Hnýðin eru æti hluti plöntunnar og myndast á endanum á neðanjarðarrenglum. Hnýðið myndast við það að í endanum safnast ljóstillífuð kolvetni frá kartöflugrasinu þegar það hefur náð fullum vexti. Hnýðin eru því forðabúr plöntunnar. Ljósskortur, hiti og raki í moldinni hefur allt áhrif á hnýðismyndunina. Þegar daga styttir, hiti lækkar og raki eykst hefur það þau áhrif að renglarnir framleiða meira sýtókínín, jurtahormón sem örvar frumuskiptingu. Þegar hnýðið hefur myndast verður það aðalvaxtarvefur plöntunnar og allur annar vöxtur minnkar. Hnýðin eru hulin þunnu hýði en undir því eru korklag, sáldvefur, viðarvefur og mergur. Allir þessi vefir tengjast „augunum“ sem spírurnar vaxa út úr og liggja í dvala meðan hnýðið þroskast en geta síðar myndað nýtt gras.[12]
Uppruni og saga
[breyta | breyta frumkóða]Náttúrufræðingar eru almennt sammála um að kartaflan sé upprunnin í Andesfjöllum, allt frá Kólumbíu til norðurhluta Argentínu. Langmesta líffræðilega fjölbreytni, bæði villtra og ræktaðra afbrigða, er að finna þar sem nú er Perú. Kartöflur sem eru ræktaðar þar eru ekki allar af sömu tegund. Algengasta tegundin er Solanum tuberosum spp. andigena sem er fjórlitna með 48 litninga. Síðan eru fjórar tegundir tvílitninga (með 24 litninga) sem heita Solanum stenotomum, Solanum phureja, Solanum goniocalyx og Solanum ajanhuiri, tvær tegundir þrílitninga Solanum chaucha og Solanum juzepczukii, og loks einn ræktaður fimmlitningur Solanum curtilobum.[13] Talið er að fólk hafi tekið að rækta kartöflur við Titikakavatn fyrir átta til sex þúsund árum síðan.[14]
Kartöfluyrki frá Andesfjöllum hafa aðlagast stuttum dögum og afbrigði frá Chile hafa aðlagast löngum dögum. Nægar vísbendingar eru um að kartaflan sem barst til Evrópu á 16. öld hafi verið frá Andesfjöllum en hún hefur síðan aðlagast löngum dögum á um tveimur öldum. Til þess að aðgreina þessar tvær aðlaganir hafa grasafræðingar skilgreint tvær undirtegundir, spp. andigena sem er hin upprunalega tegund í Andesfjöllum, aðlöguð að stuttum dögum, og spp. tuberosum, sem er evrópska kartaflan sem aðlagast hefur löngum dögum. Aðlögun að löngum dögum hefur líka átt sér stað í yrkjum sem flust hafa sunnar í Suður-Ameríku eftir landvinninga Evrópumanna þar.
Erfðafræðileg gögn benda til þess að kartaflan hafi numið land á Indlandi um svipað leyti og í Evrópu og komið þangað með Portúgölum. Á einangruðum stöðum í Himalajafjöllum eru enn ræktuð kartöfluyrki sem líkjast mjög Andesfjallakartöflunni spp. andigena.
Kartöfluræktun í Evrópu
[breyta | breyta frumkóða]Þegar spænskir og portúgalskir landvinningamenn komu til Suður-Ameríku var kartöflurækt þar langt á veg komin og kartöfluyrkin sem fólk ræktaði orðin gerólík villtu afbrigðunum vegna aldalangra kynbóta. Kartaflan var uppistaða í mataræði íbúa fjallanna og aðaltrúarhátíðir Inkanna voru á sama tíma og kartöflum var sáð eða þær teknar upp. Í Perú vaxa kartöflur í allt að fjögur þúsund metra hæð en maís vex aðeins þar sem frostlaust er.
Evrópubúarnir fluttu með sér kartöflur í fyrstu til að tryggja nægar vistir fyrir heimferðina. Þeir komust fljótt að því að neysla á kartöflum dró úr hættu á skyrbjúg. Í Evrópu var kartöflunni fyrst tekið líkt og öðru nýmæli frá Ameríku og hún gróðursett í jurtagörðum aðalsmanna sem skrautjurt. Fyrstu tilraunir til að borða blöð eða aldin kartöflunnar leiddu til eitrunar og magaverkja og urðu til þess að skapa fordóma gagnvart henni. Jafnvel var talið að hún ylli ýmsum sjúkdómum eins og t.d. holdsveiki.[15] Einnig urðu menn varir við að vegna hinna löngu sumardaga gaf kartaflan ekki af sér sömu uppskeru og í Andesfjöllum.
Landnám kartöflunnar í Evrópu
[breyta | breyta frumkóða]Hefð er fyrir því að eigna annað hvort Francis Drake eða Walter Raleigh heiðurinn af því að hafa flutt kartöfluna til Evrópu á 16. öld, en þótt þeir hafi hugsanlega flutt einhverjar plöntur með sér þá eru það líklegast Spánverjar sem hafa fyrstir manna flutt plöntuna til álfunnar. Elsta skipulega kartöfluræktunin í Evrópu var á Tenerífe á Kanaríeyjum sem var viðkomustaður spænskra og portúgalskra skipa á leiðinni til og frá Suður-Ameríku. Þaðan er til farmskrá frá 1567 sem nefnir heimaræktaðar kartöflur fluttar út til Antwerpen í Niðurlöndum. Útbreiðsla kartaflna um Evrópu virðist hafa fylgt tveimur meginleiðum. Ein leiðin lá til Englands, Írlands og Hollands og önnur til Portúgals, Spánar, Ítalíu og Frakklands. Samtímaheimildir eru þó af skornum skammti og kartöflum er þar oft ruglað saman við sætar kartöflur og kassava.
Víst er að tilraunir með kartöfluræktun höfðu átt sér stað í mjög mörgum Evrópulöndum um aldamótin 1600. Samkvæmt írskri arfsögn bárust kartöflur fyrst þangað með skipum Flotans ósigrandi sem strönduðu við eyjuna. Kartöfluræktun á Írlandi hófst þegar á 17. öld. Kostir kartöfluræktunar voru ýmsir miðað við hina hefðbundnu kornrækt: hægt er að fá meiri forða úr minna ræktarlandi og kartöflur þarfnast ekki sérstakrar úrvinnslu fyrir matreiðslu líkt og korn (mölun). Kartöflur henta jafn vel fyrir sj��lfsþurftarbúskap og félagsbúskap. Kartöfluræktin skapaði grundvöll fyrir smájarðeignir sem síðan var reynt að uppræta á 19. og 20. öld.
Fyrstu kartöflurnar í Þýskalandi og Sviss voru ræktaðar sem skrautjurtir í matjurtagörðum sem urðu fyrst útbreiddir eftir Þrjátíu ára stríðið 1648. Þar voru kartöflur kallaðar „hollenskar trufflur“. Friðrik mikli (1712-1786) átti mikinn þátt í útbreiðslu kartöfluræktar í Prússlandi. Þýsk þjóðsaga segir að hann hafi sett vörð um kartöflugarða sína að degi til gagngert til þess að hvetja fólk til að stela úr þeim að nóttu, því það sem svo vel var varið hlaut að vera verðmætt.
Kartaflan verður undirstöðufæða
[breyta | breyta frumkóða]Skipuleg kartöfluræktun í stórum stíl hófst 1684 í Lancashire, 1716 í Saxlandi, 1728 í Skotlandi, 1738 í Prússlandi og 1783 í Frakklandi. Skipuleg kartöflurækt í evrópsku nýlendunum í Norður-Ameríku hófst 1719 í New Hampshire. Meginástæður þess að kartaflan varð undirstöðufæða um alla Evrópu var tíður uppskerubrestur í kornræktinni á síðari hluta 18. aldar en löngu eftir þann tíma voru kartöflur fyrst og fremst ræktaðar sem dýrafóður á mörgum stöðum eða sem matur fyrir fanga. Friðrik mikli sendi Rússum kartöflur til að létta á hungursneyðinni 1774 en rússnesku bændurnir neituðu að snerta þær þar til þeir voru neyddir til þess með tilskipun Katrínar miklu. Kartöflurækt varð ekki útbreidd í Rússlandi fyrr en um miðja 19. öld þegar Nikulás 1. hóf að ganga eftir því að tilskipun Katrínar væri virt.
Seint á 18. öld tók almenningur á Norðurlöndum og Bretlandseyjum að borða meira grænmeti almennt, en fram að því hafði fæðan fyrst og fremst verið samsett úr brauðmeti, kjöti og mjólkurvörum. Um sama leyti (af ýmsum ástæðum) varð gríðarleg fólksfjölgun á þessum stöðum samfara iðnbyltingunni. Talið er að íbúafjöldi Írlands hafi tvöfaldast milli 1780 og 1841. Kartaflan og aðrir garðávextir urðu lífsnauðsynleg til að fæða þennan aukna fólksfjölda.
Eitt af því sem átti þátt í auknum vinsældum kartöflunnar á 18. öld var sá möguleiki að brugga úr þeim brennivín. Fyrstur til að minnast á þetta í riti var þýski gullgerðarmaðurinn Johann Joachim Becher í ritinu Närrische Weisheit und weise Narrheit árið 1680.[16] Í Svíþjóð sýndi Eva Ekeblad fram á þennan möguleika með tilraunum 1748 og benti einnig á önnur not kartöflunnar, eins og t.d. til að framleiða andlitspúður.[17] Smám saman tók kartaflan því við af korni sem undirstaða fyrir bruggun á sterku áfengi á Norðurlöndunum og hefðbundin ákavíti eru nú brugguð úr kartöflum.
Kartöflumyglan
[breyta | breyta frumkóða]Um miðja 19. öld olli kartöflumygla víðtækum uppskerubresti í kartöfluræktun um alla Evrópu. Kartöflumyglan barst með klippurum sem sigldu frá Ameríku til Evrópu. Á þeim stöðum þar sem kartaflan var aðaluppistaða fæðunnar, eins og á Írlandi, olli uppskerubresturinn almennri hungursneyð. Á Írlandi er talið að íbúafjöldinn hafi minnkað um 20-25% milli 1845 og 1852 bæði vegna hungurdauða og stóraukinna fólksflutninga til Ameríku.
Kartöflugarðar
[breyta | breyta frumkóða]Um og uppúr Síðari heimsstyrjöldinni urðu matjurtagarðar algengir í þéttbýli þar sem fólk gat leigt lítinn skika fyrir garðrækt til eigin nota. Slík garðrækt hefur verið vinsæl allt fram á síðustu ár 20. aldar. Mikil hækkun lóðaverðs í nágrenni helstu þéttbýlisstaða ryður þó slíkri ræktun ört úr vegi auk þess sem lækkandi hlutur matvælakaupa í útgjöldum heimila gerir efnahagslega hagkvæmni nánast að engu.
Kartöfluræktun var lengst af á 20. öld mest í Evrópu, Bandaríkjunum og Kanada þar sem kartöflur eru mikilvægur þáttur í matarmenningu, en þótt neysla kartaflna á mann sé enn mest á þessum stöðum, er Kína nú orðinn stærsti kartöfluframleiðandi heims. Rússland er í öðru sæti.
Saga kartöfluræktar á Íslandi
[breyta | breyta frumkóða]Vitað er að Vísi-Gísli skrifaði syni sínum í Kaupmannahöfn árið 1670 og bað hann um að senda sér kartöflur, ásamt öðrum plöntum, en ólíklegt er að honum hafi orðið að ósk sinni þar sem ekki var farið að rækta kartöflur að ráði í Danmörku fyrr en franskir húgenottar settust að í Fredericia árið 1719 og hófu ræktun þar.[18] Fyrstu kartöflurnar voru borðaðar við dönsku hirðina árið 1770.[19]
Fyrstu kartöflurnar á Íslandi
[breyta | breyta frumkóða]Fyrstur til að rækta kartöflur á Íslandi svo vitað sé var Svíinn Friedrich Wilhelm Hastfer (1722-1768) sem kallaður var Hastfer hrútabarón. Fyrsta uppskera íslenskra kartaflna leit dagsljósið á Bessastöðum sumarið 1758. Hugsanlegt er að fjármaður Hastfers frá búi Alströmers í Alingsås í Svíþjóð hafi sent þær til landsins með hrútunum sem hann sendi þá um vorið. Alströmer hafði einmitt átt upphafið að kartöflurækt í Svíþjóð með því að flytja inn sérþjálfaða vefnaðarverkamenn frá Frakklandi, en þeir fluttu með sér kartöfluræktina.[20]
Lítið er annars vitað um ræktun Hastfers og hann minnist ekki á hana sjálfur í bréfum sínum. Sama ár skrifaði Björn Halldórsson í Sauðlauksdal til Danmerkur og pantaði þaðan kartöflur (sem hafa þá sennilega enn verið lítt þekktar þar í landi). Útsæðið barst honum ekki með skipi fyrr en í ágúst 1759 en með því að setja þær í ker með mold tókst honum að fá smælki undan þeim í október. Ný sending barst honum síðan 4. júní árið eftir. Þessar fyrstu kartöflur sem Björn fékk sendar voru rauðar og hnöttóttar og hafa því hugsanlega verið yrkið sem nú er kallað rauðar íslenskar. Samkvæmt rannsóknum Norræna genabankans eru rauðar íslenskar óaðgreinanlegar frá gammel röd svensk og teljast því sama afbrigðið. Hugsanlegt er því að rauðar íslenskar séu fyrsta kartöfluyrkið sem ræktað var á Íslandi.[21]
Haustið 1760 tókst Birni því að fá góða uppskeru af kartöflum. Sama ár hóf Guðlaugur Þorgeirsson prófastur á Görðum á Álftanesi kartöfluræktun og 1762 segist Eggert Ólafsson hafa séð stórar kartöflur hjá honum. Um sama leyti hóf Jón Bjarnason, prestur á Skarðströnd, kartöflurækt sem og Davíð Hansson Scheving sýslumaður í Haga á Barðaströnd.[18]
Garðyrkja breiðist út
[breyta | breyta frumkóða]Þrátt fyrir þessar tilraunir var framanaf fremur lítill áhugi á neyslu kartaflna meðal almennings á Íslandi líkt og í Evrópu. Um 1770 varð uppskerubrestur í Evrópu til þess að kartöflurækt breiddist hratt út. 1772 var gefið út ritið Stutt aagrip um Jardeplanna Nytsemd og Ræktan eftir Jacob Kofoed Trojel með styrk frá Konunglega danska landbúnaðarfélaginu en því var dreift ókeypis til Norðmanna, Dana og Íslendinga.[22] Bæði Lauritz Andreas Thodal og Hans Christoph Diederich Victor von Levetzow, stiftamtmenn, hvöttu til garðræktar og kartöfluræktar sérstaklega og landbúnaðarfélagið veitti verðlaun fyrir árangur í kartöflurækt.[23]
Kartöflurækt og önnur garðyrkja varð þó ekki algeng á Íslandi fyrr en í upphafi 19. aldar og áttu Napóleonsstyrjaldirnar 1807-1814 og stopular siglingar til landsins á þeim tíma mikinn þátt í því. Árið 1807 kom skip frá Ameríku með kartöfluútsæði fyrir Hans Wilhelm Lever kaupmann sem það ár hóf kartöflurækt í hlíðunum hjá Akureyri en þaðan breiddist síðan ræktunin út um Norðurland og Vesturland. Hugsanlega hafa þær kartöflur verið þær sem nú eru kallaðar gular íslenskar.[24]
Sem dæmi um hve kartöfluræktin var lengi að festa sig í sessi á Íslandi má nefna að í Vestmannaeyjum hóf Anne Johanne Ericsen, veitingakona í húsinu Frydendal á Heimaey, fyrst manna þar kartöflurækt 1851 með útsæði sem henni hafði borist með dönsku skipi. Hún hlaut bágt fyrir þetta hjá bændum eyjarinnar sem kunnu því illa að landið væri brotið undir þessa ræktun.[25]
Ný yrki á 20. öld
[breyta | breyta frumkóða]Fyrstu gullaugakartöflurnar bárust til Íslands árið 1931 frá Norður-Noregi og voru ræktaðar á Sámsstöðum í Fljótshlíð af Klemenz Kristjánssyni tilraunastjóra. 1936 til 1942 vann Ólafur Jónsson ráðunautur að því að velja úr íslenskum rauðum til að jafna stærð og þyngd og voru þær kallaðar Ólafsrauðar.[26] Áhugi á garðrækt fór vaxandi meðal almennings á 6. áratugnum og voru um 1800 garðlönd í leigu í Reykjavík árið 1951[27] (samanborið við um 140 árið 2004) og árið 1954 var stofnað garðleigjendafélag.[28] Á þeim árum var oft rætt um nauðsyn þess að Íslendingar væru sjálfum sér nógir um kartöflur. Tilfinnanlegur skortur var á góðum kartöflugeymslum og fjárfestu sveitarfélög eða félög framleiðenda í gerð þeirra í héraði. 1946 flutti Jóhannes G. Helgason sjö sprengjuskýli hersins úr Hvalfirði og setti niður í Ártúnsholt sem kartöflugeymslur.[29] Þessar geymslur fullnægðu geymsluþörf reykvískra kartöflubænda meðan þær stóðu til boða, en 1961 komust þær í eigu Grænmetisverslunar ríkisins og hættu að geyma fyrir einstaklinga þannig að geymsluskorturinn komst aftur á dagskrá.
25. ágúst 1976 var Félag kartöflubænda á Suðurlandi stofnað vegna óánægju með geymslumálin og verðlagsmálin sem voru á ábyrgð Grænmetisverslunar landbúnaðarins. Félag kartöflubænda við Eyjafjörð var stofnað í ágúst 1980 og félögin tvö mynduðu síðan Landssamband kartöflubænda 1. maí 1981.
Þau íslensku kartöfluyrki sem eru varðveitt í Norræna genabankanum eru þrjú; rauðar íslenskar, gular íslenskar og bláar íslenskar.[30]
Ræktun
[breyta | breyta frumkóða]Kartöflur eru yfirleitt ekki ræktaðar af fræjum heldur spírum (líka nefnt álar eða frjónálar) sem vaxa úr augum í gömlum kartöflum (útsæði). Framleiðsla á útsæði fer þannig fram að hluti uppskeru síðasta árs er geymt í kaldri geymslu yfir veturinn. Þegar líður á vorið og hitinn helst lengur en nokkra daga í senn taka kartöflurnar að spíra (ála). Heimaræktun fer yfirleitt þannig fram að settar eru heilar eða hlutaðar kartöflur með minnst tvö augu í mold.
Tíu helstu framleiðslulönd árið 2020 (magn í milljónum tonna):[31] | |||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1. Kína | 78,18 | 6. Þýskaland | 11,72 | ||||||
2. Indland | 51,30 | 7. Bangladess | 9,61 | ||||||
3. Úkraína | 20,83 | 8. Frakkland | 8,69 | ||||||
4. Rússland | 19,61 | 9. Pólland | 7,85 | ||||||
5. Bandaríkin | 18,79 | 10. Holland | 7,02 |
Landsframleiðsla á Íslandi árið 2020 var 7.379 tonn og hefur farið minnkandi síðustu ár. Á síðustu fjörutíu árum hefur hún mest orðið 19.459 tonn árið 1984.[32]
Jarðvegur og jarðvinnsla
[breyta | breyta frumkóða]Almennt séð krefst ræktun kartaflna skjóls, hagstæðrar veðráttu og frjós jarðvegar. Kartöflur þrífast best í moldarbornum sandjarðvegi vegna þess að hann hlýnar snemma að vori og heldur jarðvegshitanum vel. Kartöflur sem vaxa í sandjarðvegi eru alla jafna þurrefnisríkari en kartöflur sem vaxa t.d. í moldar-, leir-, mela- og mýrajarðvegi. Sandjarðvegur hefur einnig þann kost að hann er snemma hægt að vinna og er hann léttur í allri jarðvinnslu. Kartöflum í slíkum jarðvegi er þó hættara við þurrki, stöngulveiki og myglu. Hentugt sýrustig fyrir kartöflur telst vera pH 5,5-6 og því hefur reynst erfitt að rækta kartöflur í skeljasandi.[33]
Jarðvinnsla fyrir kartöflurækt felst í því að búa til gljúpt jarðbeð en þær vaxa best í loftríkum jarðvegi. Jarðveginum er snúið við, ýmist með plóg eða minni verkfærum, s.s. gaffli. Næst er akurinn herfaður, með léttu fjaðraherfi eða diskaherfi. Sumir kjósa að nota hreykiplóg í stað annarra plóga. Þá er jarðvegurinn tilbúinn til áburðargjafar og útsetningar.[34]
Áburður og næringarþarfir
[breyta | breyta frumkóða]Eins og aðrar jurtir þarf kartaflan meginnæringarefni plantna til að vaxa: köfnunarefni, fosfór og kalí. Áburðarmagn og tegund áburðar ræðst af jarðvegstegund sem kartöflurnar eru ræktaðar í og yrki. Af þeim efnum sem kartaflan tekur upp úr jarðveginum er kalí þeirra mest en minnst af fosfór. Bæði nýtist tilbúinn áburður sem og búfjáráburður við kartöflurækt en einnig hafa önnur tilfallandi efni s.s. þari verið notuð.[35]
Kartöfluyrki
[breyta | breyta frumkóða]Yrki (ræktunarafbrigði) kartaflna skipta þúsundum. Í einum dal í Andesfjöllum er hægt að finna hundrað ólík afbrigði og hvert býli þar ræktar að jafnaði tíu afbrigði.[36] Fjölbreytnin er langmest í Andesfjöllunum þar sem yrkin eru af átta eða níu ólíkum tegundum, en þau yrki sem notuð eru annars staðar eru öll af undirtegundinni tuberosum. Talið er að flest afbrigðin hafi orðið til með blöndun ræktaðs afbrigðis við eitthvað af þeim tvö hundruð villtu afbrigðum sem vitað er um.[37] Munurinn á ræktuðum og villtum kartöflum er mikill og stafar af áhrifum valræktunar á þær fyrrnefndu.
Gæði afbrigðanna er metið eftir vaxtarhraða, magni uppskeru, stærð kartaflnanna og þurrefnisinnihaldi sem getur verið mismunandi eftir ræktunarskilyrðum. Frá því skipulegar tilraunir með kartöfluræktun hófust á Íslandi um aldamótin 1900 hafa verið prófuð um 700 yrki.[38] Aðeins fjögur yrki voru í stofnrækt á Íslandi árið 2005: Gullauga, Helga, Premiere og Rauðar íslenskar.[39]
Hægt er að búa til ný yrki með því að rækta kartöflur upp af fræjum sem sérstaklega eru framleidd í þeim tilgangi. Undan hverju grasi koma þá margvíslegar kartöflur og hægt að velja úr þær bestu og rækta áfram með hefðbundnum hætti.
Nokkur algeng yrki
[breyta | breyta frumkóða]Heiti[40] | Ísl. heiti | Land | Blóm | Litur | Lögun | Þroski | Áferð | Mygluþol | Frostþol |
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Bintje | Ávöl | Snemma | Þétt | ||||||
Bláar íslenskar | Hnöttótt | ||||||||
Doré | Ávöl | Snemma | Mjölmikil | ||||||
Gular íslenskar | Hnöttótt | Snemma | Mjölmikil | ||||||
Gullauge | Gullauga | Hnöttótt | Mjölmikil | ||||||
Kerr's Pink | Eyvindur | Hnöttótt | Seint | Mjölmikil | |||||
Premiere | Ávöl | Snemma | Mjölmikil | ||||||
Rauðar íslenskar | Hnöttótt | Mjölmikil |
Skaðvaldar
[breyta | breyta frumkóða]Skaðvaldar í kartöflurækt eru margvíslegir. Kulda- og frostskemmdir, mýs, skordýr (t.d. kartöflubjalla), sniglar (t.d. Deroceras reticulatum), sveppir, bakteríur og veirur geta gert usla í ræktuninni og í kartöflugeymslum. Þá er ótalið það illgresi sem dregur úr vexti kartaflanna.
Frægasti kartöflusjúkdómurinn er líklega kartöflumygla sem olli víðtækum uppskerubresti og hungursneyð í Evrópu um miðja 19. öld. Kartöflumygla kemur enn upp en helsta ráðið við henni er að gæta þess nota aðeins útsæði frá viðurkenndum framleiðanda og halda sig við mygluþolin afbrigði. Til eru ýmis efni til að fyrirbyggja kartöflumyglu áður en sáð er og eins til að vinna á henni eftir að smit er farið af stað. Myglan er harðgerð og getur borist langa leið með vindi. Hún verður því auðveldlega að landlægum faraldri.
Dæmi um nokkra skaðvalda í kartöfluræktun:[41][42]
Ormar
[breyta | breyta frumkóða]Kartöfluhnúðormur (Globodera pallida og Globodera rostochiensis)
Sniglar
[breyta | breyta frumkóða]Skordýr
[breyta | breyta frumkóða]Aldinbori (Melolontha melolontha) · Aphis fabae - lús · Ferskjublaðlús (Myzus persicae) · Gróðurhúsakartöflublaðlús (Aulacorthum solani) · Kartöflubjalla (Leptinotarsa decemlineata) · Kartöflublaðlús (Macrosiphum euphorbiae) · Kálygla (Agrotis segetum) · Lygus pabulinus - títa · Psylliodes affinis - bjalla.
Sveppir
[breyta | breyta frumkóða]Blettaveiki (Alternaria solani) · Blöðrukláði (Polyscytalum pustulans) · Fusarium-rotnun (Fusarium) · Hnúðbikarsveppur (Sclerotinia sclerotiorum) · Kartöflumygla (Phytophthora infestans) · Kranssveppur (Verticillium albo-atrum) · Phoma-rotnun (Phoma exigua) · Rótarflókasveppur (Rhizoctonia solani) · Silfurkláði (Helminthosporium solani) · Vörtukláði (Spongospora subterranea)
Bakteríur
[breyta | breyta frumkóða]Flatkláði (Streptomyces scabies) · Hringrot (Clavibacter michiganensis spp. sepedonicus) · Stöngulsýki (Erwinia carotovorum var. atrosepticum)
Næring og neysla
[breyta | breyta frumkóða]Kartöflur eru þekktastar fyrir að innihalda mikið magn sykra (um 26 grömm í meðalstórri kartöflu), mest í formi sterkju. Lítill hluti þessarar sterkju er hvataþolinn og kemur því ómeltur í skeifugörnina. Talið er að þessi sterkja hafi svipuð efnisfræðileg áhrif og trefjar. Magn þessarar sterkju er mjög háð eldunaraðferð. Með því að sjóða og kæla síðan kartöflur eykst magnið umtalsvert, eða nánast um helming.[43]
Kartöflur innihalda mörg mikilvæg vítamín og steinefni. Ein meðalstór kartafla (150g) með hýði inniheldur 27 mg af C-vítamíni, eða 45% af RDS, 620 mg af Kalíni (18% af RDS), 0,2 mg af B6-vítamíni (10% af RDS) og snefil af þíamíni, ríbóflavíni, fólínsýru, níasíni, magnesíumi, fosfór, járni og sinki. Auk þess inniheldur kartafla með hýði tvö grömm af trefjum, sem er svipað og margar tegundir heilhveitibrauðs. Að auki innihalda kartöflur plöntuefni eins og karótenóíð og fjölfenól. Sú hugmynd að öll bætiefni kartöflunnar séu í hýðinu er nútímaþjóðsaga því þótt hýðið innihaldi um helming af trefjum kartöflunnar þá er meira en helming allra bætiefna að finna inni í kartöflunni sjálfri, sem og öll næringarefni. Eldunaraðferðin getur haft mikil áhrif á bætiefnainnihald kartöflunnar.
Kartöflur eru stundum sagðar hafa háan blóðsykurvísi og eru því ekki á matseðli fólks sem reynir að fylgja mataræði með lágum blóðsykurvísi. Mælingar hafa þó sýnt að blóðsykurvísir kartaflna er mjög breytilegur eftir afbrigði, uppruna og matreiðslu.[44]
Matreiðsla
[breyta | breyta frumkóða]Kartöflur eru mikilvægur þáttur í matarmenningu í Evrópu og Ameríku og flest lönd í þessum heimshlutum eiga sér vinsæla rétti þar sem steiktar kartöflur, kartöflumús eða soðnar kartöflur eru meðlæti. Sjaldgæft er að þær séu borðaðar einar og sér. Kartöflur eru framreiddar á ýmsan hátt, heitar og kaldar, afhýddar eða með hýði, heilar eða í bitum. Nauðsynlegt er að sjóða þær, steikja eða baka fyrst til að brjóta sterkjuna niður.
Með útbreiðslu skyndibitamenningar frá Norður-Ameríku hafa kartöfluflögur og franskar kartöflur orðið þekktar um allan heim.
Kartöfluréttir
[breyta | breyta frumkóða]Nokkrir þekktir kartöfluréttir eru til dæmis bakaðar kartöflur, bátakartöflur, brúnaðar kartöflur, dillkartöflur, franskar kartöflur, kartöflupasta, kartöflubaka, kartöflubrauð, kartöfluflögur, kartöflugratín, kartöflumús, kartöflurösti, kartöflusalat, kartöflustrá, patatas bravas, rósmarínkartöflur.
Önnur not
[breyta | breyta frumkóða]Mjölvinn í kartöflum hefur líka verið notaður sem vatnsleysanlegt lím og sem bindiefni í málningu og þykkingarefni í unnin matvæli (sbr. dextrín). Þekktasta dæmi um þykkingarefni úr kartöflum er kartöflumjöl.
Hráar kartöflur eru oft skornar út sem skreytingar eða stimplar.
Í ýmsum löndum er hefð fyrir því að brugga áfengi úr kartöflusterkju og átti sú aðferð þátt í að auka hylli kartöflunnar. Á Norðurlöndum tíðkaðist þessi hefð einkum vegna þess að innflutningur á kornbrennivíni var bannaður.[45] Bæði vodka og ákavíti eru venjulega brugguð úr kartöflum þótt til séu tegundir sem eru bruggaðar úr korni. Íslenskt brennivín er einmitt kartöflubrugg sem var upphaflega bruggað úr rúgi.
Kartöflur sem fóður
[breyta | breyta frumkóða]Í þeim löndum þar sem skilyrði til kartöfluræktar eru góð nýtast þær sem fóður fyrir búfé, sérstaklega fyrir kýr, svín og stundum hænsni. Þær eru ýmist hráar eða súrsaðar og gjarnan gefnar sem hluti af heilfóðri, þ.e. blandað saman við aðrar tegundir fóðurs til að mynda eina heilstæða fóðurblöndu.[46] Þær geymast vel í útistæðum eða votheysgeymslum.[47]
Eiturefni í kartöflum
[breyta | breyta frumkóða]Kartöflugrös og aldin sem koma stundum efst á stöngulinn innihalda hættulega mikið magn af eiturefninu sólaníni, sem finnst í öllum jurtum af náttskuggaætt, en magn þess í kartöflunum sjálfum er svo lítið að það er skaðlaust. Ef kartöflur fá á sig beint sólarljós (sem sést m.a. á því að þær grænka að hluta) getur það örvað myndun sólaníns í hýðinu. Því er ráðlegast að henda dökkgrænum kartöflum og gæta þess að afhýða kartöflur sem fengið hafa á sig ljósgræna slikju.[48]
Kartöflur framleiða glýkóalkalóíð eins og sólanín og alfakakónín til að verjast sníkjudýrum og sveppum. Efnin hafa áhrif á bragð kartöflunnar og gera það beiskt. Magn sólaníns í venjulegum kartöflum er oftast innan við 0,2mg/g og þau afbrigði sem eru ræktuð til manneldis eru reglulega mæld með tilliti til þessa. Dæmi eru um að nýtt afbrigði (Lenape) sem sett var á markað í Bandaríkjunum á sjöunda áratugnum hafi verið tekið af markaði vegna þess að það innihélt hættulega mikið af sólaníni. Ef afbrigðið inniheldur náttúrulega mikið af eitrinu hefur afhýðing lítið að segja. Ef kartöflur eru geymdar lengi, mygla eða fá á sig beint sólarljós getur magnið aukist margfalt, einkum við hýðið þar sem 30-80% sólanínsins verður til.[49]
Steiking við 170 °C hita eða meira brýtur eiturefnin í kartöflunni niður en suða hefur engin áhrif á þau. Öruggasta ráðið er því að afhýða vandlega grænleitar kartöflur og gæta þess að borða ekki gömul og mygluð eintök. Örfá þekkt tilfelli sólaníneitrunar af völdum kartaflna hafa komið upp í heiminum frá því sögur hófust og stöfuðu flest af neyslu á ónýtum kartöflum eða kartöflugrasaseyði. Dæmi voru um eitrun vegna neyslu Lenape-kartöflurnar og haustið 1978 kom upp alvarlegt eitrunartilfelli meðal breskra skóladrengja sem höfðu borðað kartöflur sem geymdar höfðu verið allt sumarfríið og voru því ársgamlar.[50]
Tengt efni
[breyta | breyta frumkóða]- Bintje-kartafla (Solanum tuberosum Bintje)
- Hausakartafla, hásahnýði (Solenostemon rotundifolius, Coleus rotundifolius)
- Kínakartafla, jamrótarhnýði, mjölrót (Dioscorea batatas, Dioscorea polystachya)
- Möndlukartafla (Solanum tuberosum)
- Premier-kartafla (Solanum tuberosum)
- Sætukartafla, sætuhnúður, sæt kartafla (Ipomoea batatas')
- Listi yfir kartöflusjúkdóma og skemmdir
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Origin of the potato centered in Peru...“. International Potato Center. Sótt 1. janúar 2008.
- ↑ Domingo Ríos; og fleiri (31. maí 2007). „What Is the Origin of the European Potato? Evidence from Canary Island Landraces“ (pdf). Crop Science, vol. 47. Sótt 2. janúar 2008.
- ↑ „Potato World: Consumption and Production“. International Year of the Potato 2008. Sótt 2. janúar 2008.
- ↑ „List of most valuable crops and livestock products“, Wikipedia (enska), 25. mars 2021, sótt 8. febrúar 2022
- ↑ „The Top 5 Crops Produced in the World“. top5ofanything.com. Sótt 8. febrúar 2022.
- ↑ „IYP Concept“. International Year of the Potato 2008. Sótt 2. janúar 2008.
- ↑ Pablo Neruda (1955). „Oda a la papa“. Nuevas Odas elementales. Sótt 9. janúar 2008.
- ↑ „Potato“. Enska útgáfa Wiktionary. Sótt 9. janúar 2008.
- ↑ Ásgeir Blöndal Magnússon (3. prentun mars 2008). Íslensk orðsifjabók. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. ISBN 978-9979-654-01-8. á blaðsíðu 449 undir „kartafla“.
- ↑ „Potato“. Enska útgáfa Wikipediu. Sótt 2. janúar 2008.
- ↑ „Lebanese finds 'heaviest' potato“. BBC. Sótt 3. janúar 2008.
- ↑ Fyrirmynd greinarinnar var „Solanum_tuberosum#Morfologia“ á ítölsku útgáfu Wikipedia. Sótt Solanum tuberosum 3. janúar.
- ↑ „Potato“. Enska útgáfa Wikipediu. Sótt 9. janúar 2008.
- ↑ Luis G. Lumbreras. Christine Graves (ritstjóri). „An age-old task“. CIP Publications: The Potato, Treasure of the Andes - From Agriculture to Culture. Sótt 9. janúar 2008.
- ↑ John A. Mazis. „Potato“. The University of Minnesota. Sótt 1. febrúar 2008.
- ↑ Klaus Henseler (2007). „„In den Alpen"“. Der Einfluß der Kartoffel auf das preußische Bildungswesen oder eine kurtzweilige Geschichte unserer Knolle in vier Furchen und etlichen Kapiteln. Sótt 28. janúar 2008.
- ↑ Nina Ringbom (2007). „Grevinna och uppfinnare - Första kvinnan som blev invald i Vetenskapsakademien (1748)“. Historiesajten. Sótt 28. janúar 2008.
- ↑ 18,0 18,1 E.Pá., "Kartöflur hafa verið ræktaðar á Íslandi í 225 ár", Morgunblaðið, 26. febrúar, 1984, s. 38-39.
- ↑ Sigurgeir Ólafsson, "Fyrstu jarðeplin á Íslandi", Morgunblaðið, 15. október, 2000, s. 26-27.
- ↑ Ibid.
- ↑ Ibid.
- ↑ Gísli Kristjánsson, Ingólfur Davíðsson, Klemenz Kr. Kristjánsson. 1947. Kartaflan. Búnaðarfélag Íslands, Reykjavík (15).
- ↑ E.Pá., Op.cit.
- ↑ Sigurgeir Ólafsson, Op.cit.
- ↑ Þorsteinn Víglundsson (1980). „Danskir brautryðjendur í Vestmannaeyjum“. Blik (á Heimaslóð). Sótt 2. janúar 2008.
- ↑ E.Pá, Op.cit.
- ↑ „Vaxandi áhugi Reykvíkinga fyrir garðrækt með aukinni þekkingu“. Morgunblaðið, 12. maí 1951. bls. 2.
- ↑ „Uppskera í leigugörðum almennt tíföld“. Morgunblaðið, 24. september 1954. bls. 16.
- ↑ „Jarðávaxtageymsla reistar við Elliðaár“. Morgunblaðið, 25. maí, 1946. Sótt 1. febrúar 2008.
- ↑ Sigurgeir Ólafsson, Op.cit.
- ↑ „FAOSTAT“. Sótt 9. febrúar 2022.
- ↑ Hagstofa Íslands (2020). „Uppskera og afurðir frá 1977“. Sótt 9. febrúar 2022.
- ↑ Gísli Kristjánsson, Ingólfur Davíðsson, Klemenz Kr. Kristjánsson. Kartaflan. Búnaðarfélag Íslands. (bls. 45-52)
- ↑ Ibid.
- ↑ Ibid. (bls. 52-57)
- ↑ „World Potato Atlas: Peru“. International Potato Center. Sótt 2. janúar 2008.
- ↑ David M. Spooner; og fleiri (2006). „Origins, Evolution and Group Classification of Cultivated Potatos“ (pdf). Darwin's Harvest... Columbia University Press. bls. 296. Sótt 2. janúar 2008.
- ↑ Sigurgeir Ólafsson. „Kartafla er ekki bara kartafla“. Vefur Landbúnaðarháskóla Íslands. Sótt 1. janúar 2008.
- ↑ Þórdís Anna Kristjánsdóttir, ritstjóri (2005). „Nytjaplöntur á Íslandi 2005“ (pdf). Bændasamtökin. Sótt 29. janúar 2008.
- ↑ Þetta eru nokkur kartöfluyrki sem eru algeng í ræktun á Íslandi eða hefðbundin yrki frá Íslandi. Upplýsingar um yrkin eru unnin upp úr The European Cultivated Potato Database.
- ↑ „Sjúkdómar og meindýr - Kartöflur“. Vefur Matvælastofnunar. Sótt 3. janúar 2008.
- ↑ „Solanum tuberosum“. Ítalska útgáfa Wikipediu. Sótt 3. janúar 2008.
- ↑ Englyst, HN og Cummings, JH, „Digestion of polysaccharides of potato in the small intestine of man.“, The American Journal of Clinical Nutrition, vol. 45(2), febrúar 1987, s. 423-31 (útdráttur á PubMed).
- ↑ Fernandes, G. et al, „Glycemic index of potatoes commonly consumed in North America.“, Journal of the American Dietetic Association, vol. 105(4), apríl 2005, s. 557-62 (útdráttur á PubMed).
- ↑ Gísli Kristjánsson, Ingólfur Davíðsson, Klemenz Kr. Kristjánsson. Op. cit. (bls. 38-39).
- ↑ Sveinn Guðmundsson (1996). Hraustar kýr. Sveinn Guðmundsson. ISBN 9979-60-238-4.
- ↑ Gísli Kristjánsson, Ingólfur Davíðsson, Klemenz Kr. Kristjánsson. Op. cit. (bls. 35-38)
- ↑ Sigurgeir Ólafsson (1992). „Sólanín og grænar kartöflur“. Morgunblaðið, 20. október. bls. 40. Sótt 2. janúar 2008.
- ↑ J. Lachman; og fleiri (2001). „Potato glycoalcaloids and their significance in plant protection and human nutrition“ (pdf). Series Rostlinná Výroba, 47 (4). bls. 181-191..
- ↑ McMillan M, Thompson JC., „An outbreak of suspected solanine poisoning in schoolboys: Examinations of criteria of solanine poisoning.“, The Quarterly journal of medicine, vol. 48, April, 1979, s. 227-43 (útdráttur á PubMed).
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- „Út af hverju eru íslenskar kartöflur rauðar?“. Vísindavefurinn.
- „Við hvaða hita sjóða kartöflur?“. Vísindavefurinn.
- „Hvort er betra að geyma kartöflur í ísskáp eða við herbergishita?“. Vísindavefurinn.
- Fyrstu jarðeplin á Íslandi; grein í Lesbók Morgunblaðsins 2000
- Farinn að taka upp nýjar kartöflur; frétt í Morgunblaðinu 1964
- Sólanín og grænar kartöflur; grein í Morgunblaðinu 1992
- Jarðeplasýkin; grein í Eimreiðinni 1896
- Vörtupest í kartöflum; grein í Ísafold 1925
Erlendir tenglar
- International Potato Center - Centro Internacional de la Papa - Alþjóðlega kartöflumiðstöðin í Perú.
- International Year of the Potato - Vefur Matvælastofnunar SÞ tileinkaður ári kartöflunnar.
- Kartöfluyrki í Norræna genabankanum.
- The European Cultivated Potato Database - Gagnagrunnur með upplýsingum um yfir 4.000 yrki.