Fara í innihald

Noregur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Konungsríkið Noregur
Kongeriket Norge (norskt bókmál)
Kongeriket Noreg (nýnorska)
Fáni Noregs Skjaldarmerki Noregs
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Ja, vi elsker dette landet
Staðsetning Noregs
Höfuðborg Osló
Opinbert tungumál norska, samíska í nokkrum sjálfstjórnarumdæmum
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Konungur Haraldur 5.
Forsætisráðherra Jonas Gahr Støre
Sjálfstæði
 • stofnun 872 
 • Kalmarsambandið 1397 
 • stjórnarskrá 17. maí 1814 
 • sambandsslit við Svíþjóð 7. júní 1905 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
67. sæti
385.207[1] km²
6
Mannfjöldi
 • Samtals (2024)
 • Þéttleiki byggðar
120. sæti
5.550.203[2]
14,4/km²
VLF (KMJ) áætl. 2020
 • Samtals 350 millj. dala (49. sæti)
 • Á mann 64.856 dalir (6. sæti)
VÞL (2022) 0.966[3] (2. sæti)
Gjaldmiðill Norsk króna (kr) (NOK)
Tímabelti UTC+1 (UTC+2 á sumrin)
Ekið er hægri megin
Þjóðarlén .no
Landsnúmer +47

Noregur (norska: Norge) er land sem nær yfir vestur- og norðurhluta Skandinavíu í Norður-Evrópu. Noregur fer líka með stjórn fjarlægu eyjanna Jan Mayen og Svalbarða. Auk þess er Bouvet-eyja í Suður-Atlantshafi norsk hjálenda. Noregur gerir tilkall til tveggja landsvæða á Suðurskautslandinu: Eyju Péturs 1. og Matthildarlands. Noregur á landamæri að Svíþjóð, Finnlandi og Rússlandi, og er eitt Norðurlandanna. Sunnan við Noreg skilur Skagerrak landið frá Danmörku. Noregur á mjög langa strandlengju að Atlantshafi og Barentshafi.

Í Noregi búa 5,5 milljónir (2024). Höfuðborg landsins er Ósló. Haraldur 5. af Lukkuborgarætt er konungur Noregs og Jonas Gahr Støre hefur gegnt embætti forsætisrá��herra frá 2021. Noregur er einingarríki með þingbundna konungsstjórn þar sem ríkisvaldið skiptist milli dómsvalds, norska stórþingsins og ríkisstjórnar Noregs, samkvæmt stjórnarskrá Noregs frá 1814. Norska konungsríkið var stofnað 872 þegar mörg smákonungsdæmi runnu saman. Frá 1537 til 1814 var Noregur hluti af Danaveldi og frá 1814 til 1905 var landið í konungssambandi við Svíþjóð. Noregur var hlutlaus í fyrri heimsstyrjöld, en í síðari heimsstyrjöld hernámu Þjóðverjar landið til stríðsloka.

Staðbundin stjórnvöld í Noregi eru á tveimur stjórnsýslustigum: fylki og sveitarfélög. Samar njóta sjálfsákvörðunarréttar og áhrifa á stjórn hefðbundinna landsvæða sinna í gegnum Samaþingið og Finnmerkurlögin. Noregur á í nánu samstarfi við Evrópusambandið og Bandaríkin og er hluti af Evrópska efnahagssvæðinu. Noregur er stofnaðili að Sameinuðu þjóðunum, NATO, Evrópuráðinu, Alþjóðaviðskiptastofnuninni og OECD. Noregur er hluti af Schengen-svæðinu. Norska er norrænt mál sem líkist dönsku og sænsku.

Noregur býr við norrænt velferðarkerfi sem byggist á jafnaðarhugsjónum. Norska ríkið á stóra eignarhluti í lykilgeirum eins og olíu- og gasvinnslu, námum, timburframleiðslu, útgerð og ferskvatnsframleiðslu. Um fjórðungur af vergri landsframleiðslu landsins kemur úr olíuiðnaðinum. Miðað við höfðatölu er Noregur stærsti framleiðandi olíu og jarðgass utan Mið-Austurlanda. Tekjur á mann eru þær fjórðu hæstu í heimi miðað við lista Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Heimsbankans. Norski olíusjóðurinn er stærsti þjóðarsjóður heims, metinn á 1,3 billjón dali.

Heitið Noregur kemur fyrir í heimildum frá miðöldum sem bæði „Noregur“ og „Norvegur“ og er talið merkja „norðurvegur“.[4] Í Frásögn Óttars háleygska frá um 880 kemur nafnið fyrir (á engilsaxnesku) sem Norðweg og „norðmanna land“ sem heiti á ströndinni frá Ögðum til Hálogalands. Norðmenn gætu þá hafa verið íbúar norðan fjallanna, „Austmenn“ austan þeirra og „Danir“ í Víkinni. Norðurvegur væri aftur í andstöðu við Austurveg (austan Eystrasalts), Vesturveg (til Bretlands) og „Suðurveg“ til Þýskalands. Aðrar orðmyndir frá miðöldum eru Nortuagia (Durham Liber Vitae), Nuruiak (Jalangurssteinarnir) og nuriki (rúnasteinn frá Noregi). Seinna var heitið túlkað sem samsetning úr Nor- og rige („ríki“, sbr. „Svíaríki“). Hugsanlega hefur þágufallsmyndin Norege haft þar áhrif. Núverandi ritháttur á norsku er frá 17. öld og gæti verið samdráttur á danska orðinu Norrige.[5]

Á nýnorsku heitir landið Noreg, en var áður Norig.[6] Á norðursamísku heitir það Vuodna („fjörður“), Nöörje á suðursamísku og Norja á kvensku.

Í fornsögunni „Hvernig Noregur byggðist“ í Flateyjarbók segir frá börnum Þorra sem eru sögð vera synirnir Nórr, Górr og dóttirin Gói. Þar segir að Nórr hafi lagt undir sig löndin vestan við Kjölinn og Noregur dregið nafn sitt af honum. Talið er að nafn sagnkonungsins sé dregið af landinu fremur en öfugt, en til er tilgáta um að nafnið sé dregið af norska orðinu nor, „sund“ eða „vík“.[7][4]

Bergristur frá Norður-Noregi.

‍‍‍Fólk hefur búið í Noregi í yfir 12.000 ár. Fyrstu íbúar Noregs fluttu þangað frá Þýskalandi í suðri eða úr norðaustri frá Norður-Finnlandi og Rússlandi meðan íshellan frá síðustu ísöld lá enn yfir hluta svæðisins. Til er umdeild tilgáta um fólksflutninga úr suðri, frá þeim tíma þegar Doggerland var enn þurrlendi.[8] Á þeim tíma var loftslag í Suður-Noregi svipað því sem það er í Norður-Noregi í dag. Helstu veiðidýr voru útselur, elgur og villisvín, en meðal mannvistarleifa hafa fundist bein úr geirfugli, hundi og fleiri dýrum.[9] Elstu bergristur frá þessum tíma eru flestar við ár og sýna stór veiðidýr. Eftir því sem leið á fornsteinöld hlýnaði loftslagið og skógur þakti landið.[10] Undir lokin barst landbúnaður til Noregs, með kvikfjárrækt og kornrækt sem tíðkaðist allt norður til Lofoten, við upphaf nýsteinaldar um 4000 f.o.t.

Frá nýsteinöld eru ummerki um fasta bústaði, notkun á leirkerum, aukna notkun á tinnusteini og stærri veiðimannabýli í Norður-Noregi. Hugsanlega hefur samfélagið skipst í ættarsamfélög sem héldu saman á stóru svæði. Elstu ummerki um þróað sveitasamfélag í Noregi eru frá um 2400 f.o.t. Um 2000 f.o.t. tóku Norðmenn að reisa stór langhús og um sama leyti varð notkun málmhluta algengari. Yngri bergristur sýna báta gerða úr viðarborðum. Elstu ummerki um járnvinnslu eru frá um 400 f.o.t. Heimildir eru fyrir verslun við Rómverja á fyrstu öldum eftir að okkar tímatal hefst. Á sama tíma má sjá merki um aukna lagskiptingu í mismunandi tegundum bústaða. Þegar Vestrómverska keisaradæmið leystist upp 475 tók þjóðflutningatímabilið við. Frá 6. öld eru ummerki um loftslagsbreytingar (Fimbulvetur) sem hafa verið tengdar við eldvirkni á norðurhveli.[11] Á 8. öld þróuðust súðbyrt skip knúin áfram með seglum[12] og ný og betri aðferð við járnvinnslu.[13] Rúnaristur sýna hvernig fornnorræna þróaðist úr frumnorrænu.[14]

Víkingaöld

[breyta | breyta frumkóða]
Ásubergsskipið er langskip sem fannst í haugi frá 9. öld í Noregi.

Á 8. öld hófust víkingaferðir norrænna manna til Bretlandseyja og strandsvæða á evrópska meginlandinu, allt suður til Miðjarðarhafs. Grundvöllur slíkra ránsferða voru haffær víkingaskip þar sem tækni við smíði súðbyrðinga var notuð til að gera miklu stærri skip en áður þekktust á Norðurlöndum. Þessi skip, langskip og knerrir, voru líka notuð til landkönnunar í Norður-Atlantshafi þar sem fólk frá Bretlandseyjum og Noregi nam ný lönd, Færeyjar, Ísland og Grænland. Samkvæmt íslenskum miðaldaritum sem rituð voru nokkrum öldum síðar var ein orsökin tilraunir Haraldar hárfagra til að skapa stærra konungsríki í Noregi.[15] Landnám Íslands var þannig tengt við sigur Haraldar í Hafursfjarðarorrustu árið 872. Á þessum tíma aðhylltust Norðurlandabúar norræna trú, en með auknum viðskiptum við konungsríkin í Evrópu komust þeir í kynni við kristni sem með tímanum vann á.[16]

Um miðja 9. öld stofnuðu norrænir víkingar nýlendur á Bretlandseyjum í Danalögum, Dublin, Suðureyjum og Norðureyjum. Til að verja sig gegn víkingum samdi Karl einfaldi Frakkakonungur við víkingaforingjann Göngu-Hrólf um hertogadæmi í Normandí árið 911. Í Noregi var kaupstaðurinn Kaupangur stofnaður í Vestfold um 800, og síðar uxu verslunarstaðir á Ögvaldsnesi og Hlöðum norðar í landinu.[17] Í norðri áttu norrænir menn í viðskiptum við Sama og Kveni á Hálogalandi og Finnmörku.[18] Samfélag víkingaaldar var höfðingjaræði þar sem höfðingjar og stórbændur réðu ráðum sínum, sögðu upp lög og dæmdu á þingum og bundust konungum með trúnaðareiðum.[19][20] Elsta þingið sem heimildir eru um í Noregi er Gulaþing sem var stofnað um 900. Frostaþing í Þrándheimi var stofnað skömmu síðar. Þrælahald var að öllum líkindum útbreitt, þótt deilt sé um hversu stór hluti íbúa hafi verið ófrjáls á þessum tíma.[21]

Þegar Haraldur blátönn tók kristni eftir miðja 10. öld krafðist hann þess að undirkonungar sínir í Noregi, Hákon Sigurðarson Hlaðajarl og Haraldur grenski, létu skírast. Á þessum tíma var Víkin í Noregi oft hluti af ríki Danakonunga, en í Þrándheimi ríktu ýmist norskir konungar eða jarlar Danakonunga.[22] Ólafur Tryggvason tók við konungdómi 995 og vann ötullega að útbreiðslu kristni í Noregi. Ólafur digri, víkingaforingi sem hafði látið skírast í Frakklandi, gekk enn lengra og vildi neyða íbúa til að taka upp nýjan sið. Hann lést í Stiklastaðaorrustu gegn sonum Hákonar Hlaðajarls árið 1030, en var brátt tekinn í dýrlingatölu.[23]

Eftir lát Ólafs digra varð Noregur hluti af Norðursjávarveldi Knúts ríka, ásamt Danmörku og Englandi. Eftir lát Knúts tók Magnús góði, sonur Ólafs, við völdum og Ólafur varð smám saman dýrlingur. Haraldur harðráði tók við eftir lát hans 1047 og herjaði á Danmörku og England þar sem hann lét lífið í orrustunni um Stafnfurðubryggju 1066. Sonur hans, Ólafur kyrri, var friðsamari, en sonur Ólafs, Magnús berfættur, var drepinn þegar hann herjaði á Írlandi. Á miðöldum voru Suðureyjar og Norðureyjar (Orkneyjar og Hjaltlandseyjar) í Skotlandi ýmist undir yfirráðum eða nátengd Noregskonungum.

Stafkirkjan í Reinli var reist á síðari hluta 13. aldar.

Fyrstu biskupsdæmin í Noregi voru stofnuð á 3. áratug 12. aldar og erkibiskupsdæmi var stofnað í Niðarósi (Þrændalögum) árið 1150. Árið 1130 lést Sigurður Jórsalafari sem markaði upphafið að norska innanlandsófriðnum sem stóð til 1240.[24] Kirkjan varð að valdastofnun sem stóð oft í átökum við konungsvaldið. Í ófriðnum voru fylgismenn kirkjunnar nefndir baglar en fylgismenn konungs nefndir birkibeinar. Sverrir Sigurðsson reyndi að koma kirkjunni undir sitt vald, en var þá bannfærður. Flokkarnir komu sér fyrst saman um konungsefni þegar Hákon gamli var kjörinn konungur 1217. Hákon lét samþykkja lög um ríkiserfðir árið 1260 sem gerðu Noreg að erfðaríki, ólíkt Danmörku og Svíþjóð þar sem þá ríktu kjörkonungar. Sonur hans var Magnús lagabætir sem samdi Landslög Noregs og gerði jafnframt Járnsíðu handa Íslendingum sem gengu Noregskonungum á hönd með Gamla sáttmála. Á hátindi sínum um 1260 náði norska konungsríkið yfir Grænland, Ísland, Færeyjar, skosku eyjarnar, Dublin á Írlandi og Finnmörku, allt austur að Hvítahafi, auk þess sem í dag eru Bohuslän, Jämtland og Härjedalen í Svíþjóð.[25] Árið 1266 gengu Suðureyjar til Skotakonungs eftir friðarsamninginn í Perth.[26]

Akurshús sem Hákon háleggur lét reisa á 14. öld.

Hákon háleggur tók við völdum árið 1299. Hann reisti nokkur virki í suðurhluta Noregs, eins og Akurshús, og flutti miðstöð konungsvaldsins í meira mæli þangað, frá Þrándheimi. Árið 1319 var samið um að hinn þriggja ára gamli krónprins, Magnús Eiríksson smek, tæki við konungdómi bæði í Noregi og Svíþjóð. Árið 1349 gekk Svarti dauði og aðrar plágur yfir Noreg og urðu til þess að fólki fækkaði um helming.[27] Á 14. öld varð Björgvin helsta verslunarhöfn Noregs en henni stjórnuðu Hansakaupmenn.[28] Árið 1397 gekk Noregur í ríkjasamband með Svíþjóð og Danmörku í Kalmarsambandinu eftir að Ólafur 4. Hákonarson varð krónprins í öllum ríkjunum gegnum erfðir og móðir hans, Margrét Valdimarsdóttir mikla, tók við völdum. Eftir miðja 15. öld gengu Orkneyjar og Hjaltlandseyjar til konunga Skotlands sem heimanmundur.[29]

Kalmarsambandið einkenndist af tilraunum konungs til að styrkja miðstjórnarvaldið með mismiklum árangri. Noregi var á þessum tíma skipt í um 50 lén þar sem þau mikilvægustu voru í kringum virkin í Bohus, Akershus, Tunsberghus og Bergenhus. Lénin voru að mestu í höndum innlendra stórmenna. Miðstöð valdsins færðist til Danmerkur og um miðja 15. öld hófust uppreisnir í Svíþjóð. Eftir lát Kristófers 1. var Karl Knútsson Bonde kjörinn konungur í Svíþjóð og Noregi, en varð að láta Kristján 1. fá Noreg eftir aðeins eitt ár. Við það tækifæri var undirritað samkomulag um konungssamband Noregs og Danmerkur. Á sama tíma gengu lénin í Noregi í arf til fólks sem hélt sig mest í Danmörku. Þegar Kristján krónprins Danmerkur fékk Noreg sem varakonungsdæmi árið 1506 hófst hann handa við að veikja norska háaðalinn enn frekar.[30] Árið 1523 gekk Svíþjóð úr sambandinu og eftir varð ríkjasamband Danmerkur og Noregs.

Hluti af Danaveldi

[breyta | breyta frumkóða]

Þótt Danmörk væri ráðandi aðili í Kalmarsambandinu höfðu löndin þrjú eigin ríkisráð sem stjórnuðu í samráði við konung. Eftir að Svíþjóð gekk úr sambandinu gerði Kristján 3. samkomulag við danska aðalinn um að leggja norska ríkisráðið niður. Árið 1537 urðu siðaskiptin í Noregi. Síðasti kaþólski erkibiskupinn, Olav Engelbrektsson, flúði land og aðrir kaþólskir biskupar voru settir af.[31] Noregi var skipt í 20 lén sem konungur veitti gegn föstu gjaldi. Norðmenn urðu oft illa úti í stríðum Dana og Svía, eins og norræna sjö ára stríðinu 1563-1570. Norski herinn var formlega stofnaður árið 1628.[32] Skattheimta jókst og þegnskylduvinna var lögð á bændur, en fólki fjölgaði líka á sama tíma. Eftir ósigur í Torstensonófriðnum 1645 gengu norsku héruðin Jämtland og Härjedalen til Svíþjóðar.

Innsigli og undirskriftir norskra „borgara og almúga“ á einveldislögunum frá 1661.

Einveldi var sett á laggirnar með erfðahyllingu í Noregi árið 1661. Eftir það var lénunum breytt í ömt og amtmenn urðu embættismenn með föst laun. Fógetar sáu um innheimtu skatta fyrir rentukammerið í Kaupmannahöfn. Námavinnsla hófst í stórum stíl á 17. öld og þar á meðal voru silfurnámur í Kongsberg og koparnámur í Røros. Vatnsknúnar sögunarmyllur voru fyrst teknar í notkun á 16. öld. Timburútflutningur til Skotlands varð mikilvægur hluti af efnahagslífi Noregs.[33] Kaupstaðirnir Fredrikstad, Tønsberg, Skien, Stavanger, Christiania, Kristiansand, Bergen og Trondheim fengu einkarétt á verslun hver í sínu héraði.

Eftir að Friðrik krónprins tók völdin í Danmörku 1784 varð aukið frjálsræði í versluninni. Tromsø, Hammerfest og Vardø fengu kaupstaðarréttindi, og verndartollar og einkaleyfi voru afnumin. Konunglega norska vísindafélagið var stofnað í Þrándheimi 1760 og Norska félagið var stofnað í Kaupmannahöfn árið 1772.

Danmörk reyndi að halda sér utan við Napóleonsstyrjaldirnar, en 1807 neyddi Napóleon Dani til að taka þátt í hafnbanni á Breta. Þann 2. september gerðu Bretar stórskotaliðsárás á Kaupmannahöfn og í kjölfarið lýsti Friðrik 6. Bretum stríði á hendur. Stríðið stöðvaði timburflutningana frá Noregi til Bretlands en 1809 fengu norsk skip leyfi til siglinga. Svíþjóð féllst á að ganga í bandalagið gegn Napóleon, með því að láta Rússum Finnland eftir í skiptum fyrir Noreg. Þegar Napóleon tapaði stríðinu var Danmörk neydd til að gefa Svíþjóð Noreg eftir í friðarsamningum í Kíl, í skiptum fyrir Sænsku Pommern á meginlandi Evrópu.[34]

Konungssamband við Svíþjóð

[breyta | breyta frumkóða]
Stjórnlagaþingið í Eidsvoll, eftir Oscar Wergeland.

Mikil óánægja var í Noregi með friðarsamkomulagið. Norðmenn fengu danska prinsinn Kristján Friðrik til að samþykkja að gerast konungur Noregs og kusu til stjórnlagaþings á Eidsvoll í febrúar. Þingið samdi drög að stjórnarskrá Noregs í apríl. Í maí sneri sænski herinn aftur heim frá meginlandinu og stríð Noregs og Svíþjóðar hófst. Stríðið stóð stutt og Kristján Friðrik sagði af sér í ágúst. Í nóvember samþykkti norska stórþingið konungssamband við Svíþjóð með því að kjósa Karl 13. sem konung Noregs (sem Karl 2.). Mestu skipti að Norðmenn fengu að halda stjórnarskránni og eigin stofnunum. Komið var á norskri ríkisstjórn, seðlabanka og sjálfstæðu dómsvaldi. Háskólinn í Ósló var stofnaður 1811. Embættismenn réðu mestu í hinu nýja ríki, og ekki var hægt að reka þá úr stöðum sínum. Tímabilið frá 1814 til 1884 er kallað „embættismannaríkið“.[35] Konur fengu aukin réttindi á þessum tíma, en kosningaréttur var takmarkaður við yfirstéttina.

Eftir stofnun sjálfstæðs ríkis fór norsk þjóðernisrómantík vaxandi. Meðal helstu leiðtoga rómantísku stefnunnar voru rithöfundarnir Henrik Wergeland, Bjørnstjerne Bjørnson, Peter Christen Asbjørnsen og Jørgen Moe; myndlistarmennirnir Hans Gude og Adolph Tidemand; og tónskáldið Edvard Grieg.[36][37] Nokkrar deilur urðu um hvernig opinber norska ætti að vera, en bókmál var í grunninn danskt ritmál með nokkrum breytingum. Á 5. áratug 19. aldar rannsakaði málfræðingurinn Ivar Aasen norskar mállýskur og gaf út málfræði og orðabók fyrir það sem hann nefndi landsmaal („sveitamál“), sem seinna varð nýnorska.[38]

Um miðja 19. öld stofnaði Marcus Thrane fyrstu verkalýðshreyfinguna í Noregi sem var barin niður 1851.[39] Stórbændur voru leiðandi í að krefjast aukins frjálsræðis í viðskiptum og atvinnulífi. Landbúnaðarháskólinn í Ási var stofnaður 1854. Þar lærðu nokkrir Íslendingar búfræði á 19. öld.[40] Árið 1860 voru ný lög um alþýðuskóla samþykkt. Iðnvæðing hófst upp úr 1840 en eftir 1860 fluttist fólk í stórum stíl til Norður-Ameríku. Um 400.000 Norðmenn fluttust til Ameríku frá 1865 til 1900. Sjóflutningar fóru vaxandi eftir að Bretar felldu ensku sjóferðalögin úr gildi árið 1849. Árið 1880 voru Norðmenn meðal stærstu aðila í sjóflutningum í heiminum.[41]

Andstaða við embættismannaveldið á stórþinginu fór vaxandi, og eftir 1870 var gerð krafa um þingræði þar sem ríkisstjórn er studd af meirihluta á þinginu. Stjórnmálaflokkurinn Venstre var stofnaður 1884 og myndaði ríkisstjórn í júní sama ár. Skömmu síðar stofnuðu embættismenn og borgarar flokkinn Høyre. Á sama tíma börðust Norðmenn fyrir jafnræði í konungssambandinu við Svíþjóð, en sænski konungurinn beitti oft neitunarvaldi gegn lögum sem stefndu í þá átt. Fyrstu verkalýðsfélögin voru stofnuð á 9. áratugnum.

Deilurnar um stöðu Noregs í ríkjasambandinu fóru vaxandi og um 1890 kom konsúlsmálið upp.[42] Norska þingið vildi sjálft fá að skipa ræðismenn fyrir Noreg, en fram að því hafði sænska ríkisstjórnin farið með utanríkismál beggja landa. Svíar neituðu þessu og hótuðu stríði. Svíar afnámu einhliða lög um forgang norskra fyrirtækja á sænskum markaði árið 1897 og lögðu fram tillögur sem nefndar voru lýðríkispunktarnir um forræði Svía í utanríkismálum 1904.[43] Norðmenn höfnuðu tillögunum alfarið. Árið 1905 samþykkti stórþingið lög um norska ræðismenn. Þegar konungur neitaði að undirrita lögin samþykkti stórþingið þann 7. júní 1905 einhliða upplausn konungssambandsins þar sem konungurinn gæti ekki lengur talist konungur Noregs. Í kjölfarið fylgdi þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem 99,95% samþykktu upplausn sambandsins.

Sambandsslit og herseta

[breyta | breyta frumkóða]
Ljósmynd frá krýningu Hákons 7. og Matthildar drottningar 1906.

Eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna hófust samningaviðræður um sambandsslit. Þann 26. október afsalaði Óskar 2. sér öllu tilkalli til konungdæmis í Noregi. Í nóvember var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um að bjóða Karli af Danmörku krúnuna sem var samþykkt með 78% atkvæða. Karl var krýndur sem Hákon 7. Noregskonungur í Niðarósdómkirkju 22. júní 1906. Venstre var stærsti flokkurinn á norska stórþinginu, en í kosningunum 1912 fékk Norski verkamannaflokkurinn 26,5% atkvæða og varð næststærsti flokkurinn. Árið 1913 fengu norskar konur óskilyrtan kosningarétt, um leið og vinnuhjú, og urðu næstfyrstar í Evrópu til að ná þeim áfanga á eftir Finnlandi.[44] Þegar fyrri heimsstyrjöldin hófst lýsti Noregur yfir hlutleysi, en 1916 hófust fiskflutningar til Bretlands. Þá hóf Þýskaland kafbátahernað gegn norskum skipum þar sem 2000 týndu lífinu.[45] Árið 1919 var tekin upp hlutfallskosning í kjördæmum í stað einmenningskjördæma. Síðan þá hefur verið fjölflokkakerfi í Noregi.

Frá því um 1880-1920 fóru norskir landkönnuðir að kanna heimskautasvæðin. Meðal þeirra mikilvirkustu voru Fridtjof Nansen, Roald Amundsen og Otto Sverdrup. Amundsen komst fyrstur manna á Suðurpólinn árið 1911.[46] Norskir skinnaveiðimenn sóttu í selveiði til Svalbarða, Austur-Grænlands og Suður-Íshafsins. Árið 1920 var Svalbarðasamningurinn gerður sem kvað á um stjórn Norðmanna á Svalbarða. Árið 1927 kom norska rannsóknarskipið Norvegia til Bouvet-eyju í Suður-Íshafi og gerði tilkall til eyjarinnar fyrir hönd Noregs.[47] Árið 1931 gerðu norskir skinnaveiðimenn sams konar tilkall til yfirráða í kringum Myggbukta á Austur-Grænlandi (Land Eiríks rauða) en Alþjóðadómstóllinn í Hag úrskurðaði 1933 að allt Grænland tilheyrði Danmörku.[48]

Í byrjun 20. aldar urðu skipaflutningar og vatnsorka æ mikilvægari. Járnbrautir voru lagðar milli helstu þéttbýlisstaða. Efnahagurinn sveiflaðist og upp spruttu verkalýðshreyfingar. Eftir stríðið gengu nokkrar fjármálakreppur yfir Noreg og nauðungaruppboð og gjaldþrot ollu miklum vanda á landsbyggðinni. Atvinnuleysi var mikið, löngu áður en kreppan mikla hófst 1929. Áfengisbann var samþykkt 1919 og stóð til 1927.[49] Kreppan gerði illt verra í norsku efnahagslífi og varð til þess að fasistaflokkurinn Nasjonal Samling var stofnaður 1933 með Vidkun Quisling sem formann. Verkamannaflokkurinn tók hins vegar upp lýðræðisstefnu og hafnaði byltingu. Fyrsta stjórn Verkamannaflokksins tók við völdum 1935 með því að gera kreppubandalag við Bændaflokkinn.[50]

Leppstjórnin tekur við völdum. Terboven er þriðji frá hægri og Quisling þriðji frá vinstri.

Þjóðverjar gerðu innrás í Noreg 9. apríl 1940, og hernámu allt landið eftir tveggja mánaða bardaga við norskar og breskar hersveitir. Ríkisstjórnin og konungsfjöldskyldan flúðu til London. Yfirmaður hernámsstjórnarinnar var Josef Terboven, en 1942 var mynduð leppstjórn undir Vidkun Quisling. Um 4500 Norðmenn gerðust sjálfboðaliðar í SS-sveitum Þjóðverja.[51] Um 25.000 meðlimir norska hersins flúðu og tóku þátt í útlagaherdeild Norðmanna sem barðist með bandamönnum,[52] líkt og norski kaupskipaflotinn (Nortraship).[53] Útlagaherdeildin hertók Finnmörku skömmu eftir áramótin 1945. Norska andspyrnuhreyfingin stóð fyrir skemmdarverkum, sérstaklega þegar leið að lokum stríðsins og tafði fyrir kjarnorkuáætlun Þriðja ríkisins með því að eyðileggja þungvatnsbirgðir í Vemork.[54][55] Þýska hernámsliðið gafst upp fyrir bandamönnum 8. maí 1945, þremur dögum eftir uppgjöfina í Danmörku. Þúsundir Norðmanna voru dæmdir fyrir samstarf við hernámsstjórnina eftir stríðið og um 40 voru teknir af lífi, þar á meðal Vidkun Quisling.[56]

Eftirstríðsárin

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir hersetuna í síðari heimsstyrjöld urðu Norðmenn í meira mæli afhuga hlutleysi. Landið var auk þess í nánum tengslum við Bretland og Bandaríkin sem höfðu stutt útlagastjórn og andspyrnuhreyfingar Norðmanna á stríðsárunum. Noregur gerðist því stofnmeðlimur NATO árið 1949, en leyfði þó ekki erlendar herstöðvar eða kjarnavopn í landinu til að styggja ekki Sovétmenn.[57] Norski verkamannaflokkurinn hafði hreinan meirihluta á þingi óslitið frá 1945 til 1957 og hefur langoftast farið með forystu í stjórn landsins síðan.

Stjórnir verkamannaflokksins komu á norrænu velferðarkerfi og blönduðu hagkerfi í anda kenninga John Maynard Keynes.[58] Lengi eftir stríð glímdi Noregur við gjaldeyris- og vöruskort og notaði skömmtun sem hagstjórnartæki allt til 1960.[59] Noregur fékk Marshall-aðstoð 1947 og gekk í Efnahags- og framfarastofnunina árið eftir. Landið gekk í fríverslunarbandalagið EFTA árið 1960 og varð hluti af EES árið 1994. Norska ríkisstjórnin sótti þrisvar um aðild að Evrópusambandinu (1962, 1967 og 1992), en í síðustu tvö skiptin náðist ekki meirihluti fyrir því í þjóðaratkvæðagreiðslum. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni 1972 kusu 53% á móti Evrópusambandsaðild, þrátt fyrir að hreinn meirihluti væri fyrir aðild á norska þinginu.[60]

Ekofisk-olíuvinnslusvæðið árið 2010.

Olía var uppgötvuð í Norðursjó árið 1969. Olíuvinnsla hófst á vinnslusvæðinu Ekofisk árið 1971 og árið 1973 var norska ríkisolíufyrirtækið Statoil (nú Equinor) stofnað. Olíuvinnslan tók þó ekki að skila tekjum fyrr en á 9. áratugnum vegna hinna miklu fjárfestinga sem hún útheimti. Undir lok 20. aldar var Noregur einn af mestu olíuútflutningsaðilum heims. Equinor er stærsta olíufyrirtækið og á norska ríkið 2/3 hluta í því.

Undir lok 8. áratugarins glímdi norska ríkið við margar áskoranir, háa verðbólgu og staðnað efnahagslíf. Hægristjórn Kåre Willoch tókst á við þetta með niðurskurði, einkavæðingu og afnámi regluverks. Vinstristjórn Gro Harlem Brundtland tók við 1986 og hélt efnahagsumbótum áfram, jók iðnvæðingu og hækkaði skatta.[61] Undir lok 20. aldar var Noregur orðið skuldlaust ríki með stóran þjóðarsjóð. Síðan þá hefur verið deilt um að hve miklu leyti skuli spara tekjur ríkisins af olíuvinnslunni.

Árið 2011 gerði norski hryðjuverkamaðurinn Anders Behring Breivik sprengjuárás í Ósló og skotárás á Útey þar sem 77 létu lífið, mest ungmenni. Á þeim tíma var verkamannaflokkurinn við völd undir stjórn Jens Stoltenberg. Árið 2017 tók hægristjórn Ernu Solberg við völdum. Ríkisstjórn Noregs er nú undir forystu Jonasar Gahr Støre frá verkamannaflokknum.

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Strönd Noregs er mjög vogskorin og með ótal fjörðum sem ísaldarjökullinn mótaði. Sognfjörður er stærsti fjörðurinn og inn af honum ganga margir smáfirðir. Einnig eru margar eyjar undan ströndum Noregs. Eyjaklasinn Lófótur er rómaður fyrir náttúrufegurð. Jan Mayen og Svalbarði heyra undir Noreg. Skandinavíufjöll liggja frá norðri til suðurs í gegnum landið. Í fjalllendinu Jötunheimum eru jöklar; stærsti jökull fastalands Noregs, Jostedalsjökull, er þar og einnig hæsta fjallið, Galdhöpiggen (2469 m.). Mun stærri jöklar eru á Svalbarða (Austfonnajökull). Hornindalsvatnet er dýpsta vatn Evrópu.

Einstakir firðir, Geirangursfjörður og Nærøyfjörður, hafa verið settir á heimsminjalista UNESCO.

38% landins eru skógi vaxin. Af trjátegundum má helst nefna rauðgreni, skógarfuru, gráelri, ilmbjörk, hengibjörk, ilmreyni og eini. Sunnarlega má finna beyki og ask.

Heiðar í yfir 1000 metra hæð eru algengar í Noregi. Með þeim þekktari er Hardangervidda.

Dýralíf er fjölbreytt. Til dæmis finnast 90 tegundir spendýra, 250 tegundir staðfugla, 2800 tegundir háplantna, 45 tegundir ferskvatnsfiska, 150 tegundir sjávarfiska og 16.000 tegundir skordýra.

Í dag telja líffræðingar að aðeins 80-100 úlfar finnist í norsku óbyggðunum og er jarfastofninn litlu stærri. Uppi á heiðunum finnast læmingjar en þeir ganga í gegnum miklar stofnsveiflur með reglulegu millibili, þannig að stofninn nær hámarki reglulega á 11-12 ára fresti.

Á hálendisheiðinni Hardangervidda og í aðliggjandi fjöllum finnst síðasti villti stofn hreindýra í Evrópu. Hann telur nú um 15 þúsund dýr. Elg hefur fjölgað mjög í Noregi á undanförnum 50 árum og er stofninn geysistór þrátt fyrir að 40-50 þúsund dýr séu felld á ári. Bjórnum hefur einnig farnast vel í skjóli friðunar en eftir seinni heimsstyrjöld var heildarstofn hans í gjörvallri Evrópu aðeins rúmlega 500 dýr. Nú hefur hann, bæði í Noregi og víðar, numið gömul vatnasvæði að nýju.

Samkvæmt Alþjóðlegu náttúruverndasamtökunum teljast þrjár tegundir landspendýra vera í hættu á að hverfa úr norskri náttúru. Þetta eru skógarbjörn, úlfur og fjallarefur en þeim síðastnefnda hefur fækkað mjög í Noregi á síðustu öld, sennilega vegna hlýnunar. Við hlýnun sækir rauðrefurinn mun norðar og melrakkinn hefur ekki roð við honum í harðri samkeppni.

Flestar fuglategundir sem teljast til fuglafánu Noregs eru farfuglar. Harðgerðar tegundir eins og hrafn og rjúpa eru dæmi um tegundir sem þreyja þorrann í kaldri vetrartíðinni. Sumar fuglategundir fara langt suður á bóginn á veturna meðan aðrar leita aðeins niður á ströndina.

Fuglalífið í Noregi er afar fjölbreytt enda eru þar gjöful hafsvæði sem næra milljónir sjófugla, skógar sem hýsa milljónir fugla og heiðalönd sem eru heimkynni rjúpu og annarra tegunda. Í kjarrlendi eru akurhænur áberandi og í skógunum má sjá spætur, þiður og orra auk fjölda tegunda ugla og smærri ránfugla sem veiða þessa fugla auk urmuls smárra spendýra sem lifa í skógunum.

Í fuglafánu Noregs er fjöldi tegunda vatna- og votlendisfugla, svo sem andfuglar og rellur, auk þess sem svartfuglar eru algengir meðfram ströndinni. Haförninn er áberandi fugl sem lifir við hina löngu strandlengju Noregs. Langstærsti hluti heimsstofns hafarnarins lifir í Noregi eða á milli 3.500 og 4.000 fuglar en heimsstofninn er vel innan við 5.000 fuglar.[62]

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnsýslueiningar

[breyta | breyta frumkóða]

Noregur er einingarríki sem er skipt í 15 fylki. Hvert fylki er með kjörið fylkisráð sem kjósa sér fylkisstjóra. Að auki er ríkisstjóri (statsforvalteren) fulltrúi konungs og ríkisstjórnar í hverju fylki. Fylki Noregs eru 15 og 357 sveitarfélög. Yfir hverju sveitarfélagi er kosin sveitarstjórn undir forystu sveitarstjóra/bæjarstjóra. Höfuðborgin Ósló er bæði fylki og sveitarfélag. Að auki heyra Svalbarði og Jan Mayen undir stjórn Noregs samkvæmt skilyrðum sérstakra alþjóðasamninga, en hvorugt svæðið er hluti af sveitarfélagi eða fylki.

Í Noregi eru 108 byggðir með stöðu bæjar eða borgar (by). Sögulega veitti konungur bæjum kaupstaðarréttindi, en það breyttist seint á 20. öld. Í dag njóta bæir engra sérstakra réttinda og sveitarfélög geta skilgreint byggð sem bæ. Oftast er einn bær í hverju sveitarfélagi, en til eru undantekningar, eins og sveitarfélagið Larvik sem nær yfir bæina Larvik og Stavern.[63]

Löng hefð er fyrir því að skipta Noregi í fimm héruð eða landshluta: Norður-Noreg, Þrændalög, Vestur-Noreg, Austur-Noreg og Suður-Noreg. Þessi héruð hafa ekkert stjórnsýslulegt hlutverk.

Fylkin eru þessi:[64]

Fylki Noregs árið 2024.
# Fylki 2024 Höfuðstaður Hérað
3 Ósló - Oslo Ósló - Oslo Austur-Noregur
11 Ryggjafylki - Rogaland Stafangur - Stavanger Vestur-Noregur
15 Mæri og Raumsdalur - Møre og Romsdal Molde - Molde Vestur-Noregur
18 Norðurland - Nordland Boðøy eða Boðvin - Bodø Norður-Noregur
31 Austfold - Østfold Sarpsborg - Sarpsborg Austur-Noregur
32 Akurshús - Akershus Ósló - Oslo Austur-Noregur
33 Biskupsruð - Buskerud Dröfn - Drammen Austur-Noregur
34 Innland - Innlandet Hamar - Hamar Austur-Noregur
39 Vestfold - Vestfold Tønsberg - Tønsberg Austur-Noregur
40 Þelamörk - Telemark Skiða - Skien Austur-Noregur
42 Agðir - Agder Kristiansand - Kristiansand Suður-Noregur
46 Vesturland - Vestland Björgvin - Bergen Vestur-Noregur
50 tlo Þrændalög - Trøndelag Steinker - Steinkjer Þrændalög
55 Tromsfylki - Troms Tromsø - Tromsø Norður-Noregur
56 Finnmörk - Finnmark Vadsø - Vadsø Norður-Noregur

Efnahagslíf

[breyta | breyta frumkóða]
Hlutfallslegt virði útflutningsvara frá Noregi árið 2019.

Í Noregi er verg landsframleiðsla á mann sú önnur hæsta í Evrópu á eftir Lúxemborg og sú sjötta hæsta kaupmáttarjöfnuð. Noregur er í dag annað auðugasta land heims að nafnvirði og á stærsta varasjóð í heimi miðað við höfðatölu.[65] Samkvæmt CIA World Factbook lánar Noregur meira en landið skuldar.[66] Noregur var í efsta sæti vísitölu um þróun lífsgæða sex ár í röð (2001-2006) og náði því svo aftur árið 2009.[3] Lífskjör í Noregi eru með því besta sem gerist í heiminum. Tímaritið Foreign Policy setti Noreg í síðasta sæti lista yfir brostin ríki árin 2009 og 2023, þannig að landið var metið best virkandi og stöðugasta land heims. Í betra líf-vísitölu OECD var Noregur í 4. sæti og í þriðja sæti yfir teygni tekna milli kynslóða.[67][68]

Kort yfir landhelgi sem Noregur gerir tilkall til.

Norska hagkerfið er dæmigert blandað hagkerfi; auðugt kapítalískt velferðarríki með blöndu af frjálsum markaði og eignarhaldi ríkisins í lykilgeirum, undir áhrifum frá frjálslyndum stjórnum 19. aldar og stjórnum Verkamannaflokksins eftir síðari heimsstyrjöld. Aðgangur að heilbrigðiskerfi Noregs er gjaldfrjáls (fyrir utan 2000 króna árgjald fyrir alla yfir 16 ára aldri) og foreldrar fá 46 vikna foreldraorlof.[69] Ríkið hefur miklar tekjur af sölu náttúruauðlinda, þar á meðal frá olíuframleiðslu. Atvinnuleysi í Noregi er 4,8% og atvinnuþátttaka er 68%.[70] Fólk á vinnumarkaði er ýmist í vinnu eða í leit að vinnu.[71] 9,5% fólks á aldrinum 18-66 ára eru á örorkubótum[72] og 30% vinna hjá ríkinu, sem er hæsta hlutfall meðal OECD-ríkja.[73] Framleiðni á vinnustund er með því mesta sem gerist í heiminum.[74][75]

Jafnaðarhyggja einkennir norskt samfélag, þannig að launamunur á þeim hæst og lægst launuðu er miklu minni en í flestum öðrum vestrænum ríkjum.[76] Þetta endurspeglast í lágum Gini-stuðli Noregs.

Ríkið á stóra eignarhluti í lykilgeirum í iðnaði, eins og í olíuiðnaðinum (Equinor), vatnsaflsvirkjunum (Statkraft), álframleiðslu (Norsk Hydro), stærsta norska bankanum (DNB ASA) og fjarskiptafyritæki (Telenor). Í gegnum þessi stórfyrirtæki fer ríkið með um 30% af skráðum hlutabréfum í kauphöllinni í Osló. Ef óskráð fyrirtæki eru talin með er hlutur ríkisins jafnvel enn hærri (aðallega vegna eignarhalds á olíuleyfum). Noregur er áberandi í skipaflutningum og á sjötta stærsta kaupskipastól heims, með 1412 skip í norskri eigu.

Aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu (grænir) taka þátt í innri markaði Evrópusambandsins og eru innan Schengen-svæðisins.

Norðmenn höfnuðu ESB-aðild í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum 1972 og 1994. Noregur hefur aðgang að innri markaði Evrópusambandsins, ásamt Íslandi og Liechtenstein, í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Samningurinn kveður á um innleiðingu Evrópusambandslöggjafar í norsk lög.[77] Samningurinn nær ekki að öllu leyti yfir suma geira, eins og landbúnað, olíu og fisk. Noregur á líka aðild að Schengen-samkomulaginu og fleiri samningum Evrópusambandsríkja.

Noregur á mikið af náttúruauðlindum, eins og olíu- og gaslindir, vatnsafl, fiskimið, skóga og jarðefni. Á 7. áratug 20. aldar uppgötvuðust stórar olíu- og jarðgaslindir undan ströndum Noregs sem leiddu til mikils vaxtar í efnahagslífinu. Að hluta hefur Noregur náð að skapa bestu lífskjör heims með því að nýta þessar ríkulegu auðlindir miðað við smæð þjóðarinnar. Árið 2011 komu 28% af tekjum norska ríkisins úr olíuiðnaðinum.[78] Eftirlaunasjóður norska ríkisins var stofnaður árið 1990 til að halda utan um tekjur ríkisins af olíuvinnslunni. Árið 2011 var þessi sjóður orðinn stærsti ríkisfjárfestingasjóður heims.[79]

Tungumál Norðmanna er norska (sem hefur tvenns konar opinbert ritmál, bókmál og nýnorsku), ásamt samískum tungumálum. Norskt talmál einkennist af miklum mállýskumun. Að nota mállýsku í venjulegu talmáli er jafn algengt hjá þeim sem rita bókmál eins og þeim sem nota nýnorsku sem ritmál.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Arealstatistics for Norway 2019“. Kartverket, mapping directory for Norway. 2019. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. júní 2019. Sótt 23. mars 2019.
  2. „Population, 2024-01-01“ (enska). Statistics Norway. 21. febrúar 2024. Sótt 25. febrúar 2024.
  3. 3,0 3,1 „2022 Human Development Index Ranking“ (enska). United Nations Development Programme. 13. mars 2023. Sótt 16. mars 2024.
  4. 4,0 4,1 Heide, Eldar (2017). „Noregr tyder nok vegen mot nord, likevel“. Namn og nemne. 33: 13–37.
  5. Sandøy, Helge, 1997: "Norvegr eller Noríki?". I Arnold Dalen (red.): Gransking av norsk mål i hundre år etter Ivar Aasen. Rapport frå faghistorisk seminar i Trondheim 3. og 4. oktober 1996. Skrifter. Det kongelige norske viderskabers selskab 3, 1997. Trondheim: Tapir. 91-104.
  6. „Noreg“. Språkrådet (norskt bókmál). Sótt 30. janúar 2021.
  7. „Nórr“. Málið.is. Sótt 2.9.2023.
  8. Glørstad, H., Gundersen, J., & Kvalø, F. (2017). „The northern coasts of Doggerland and the colonisation of Norway at the end of the Ice Age“. Under the sea: archaeology and palaeolandscapes of the continental shelf. bls. 285–303.
  9. Syversbråten, L. T. (2023). Searching for human-dog contexts in 4 Mesolithic cave and rockshelters in the West-Norwegian landscape (MA thesis). The University of Bergen).
  10. „Steinalderen på Vestlandet“. Den lengst historien. Universitetsmuseet i Bergen. Sótt 3.9.2024.
  11. Gundersen, I. M. (2019). „The Fimbulwinter theory and the 6th century crisis in the light of Norwegian archaeology: Towards a human-environmental approach“. Primitive tider. 21: 101–119.
  12. Wickler, S. (2019). „Early boats in Scandinavia: new evidence from Early Iron Age bog finds in Arctic Norway“. Journal of Maritime Archaeology. 14 (2): 183–204. doi:10.1007/s11457-019-09232-1.
  13. Barndon, R., & Olsen, A. B. (2018). „En grav med smedverktøy fra tidlig vikingtid på Nordheim i Sogndal. En analyse av gravgods, handlingsrekker og symbolikk“. Viking. 81: 63–88.
  14. Thöny, L. C. (2017). „On the Chronology of Final Devoicing and the Change of z> R in Proto-Norse“. Futhark. International journal of runic studies. 7: 47–62. doi:10.7892/boris.99352.
  15. Jakobsson, S. (2016). „The early kings of Norway, the issue of agnatic succession, and the Settlement of Iceland“. Viator. 47 (3): 171–188. doi:10.1484/J.VIATOR.5.112357.
  16. Mikkelsen, E. (2002). „Handel—misjon—religionsmøter. Impulser fra buddhisme, islam og kristendom i Norden 500–1000 e. Kr“. Viking. 65: 91–136.
  17. Sørheim, H. (2015). Nordic Middle Ages-Artefacts, Landscapes and Society. Essays in Honour of Ingvild Øye on her 70th Birthday. UBAS-University of Bergen Archaeological Series.
  18. Koskela Vasaru, M. (2012). „Bjarmaland and interaction in the North of Europe from the Viking Age until the Early Middle Ages“. Journal of Northern Studies. 6 (2): 37–58. doi:10.36368/jns.v6i2.719.
  19. Riisøy, A. I. (2019). „Ting og konfliktløsning i vikingtidas Norge“. Collegium Medievale. 32 (2).
  20. Unn Pedersen og Jón Viðar Sigurðsson (25.11.2015). „Høvdingenes tid“. Norgeshistorie – Fra steinalderen til i dag. Fortalt av fagfolk. Universitetet i Oslo.
  21. Skre, D. (2001). „The social context of settlement in Norway in the first millennium AD“. Norwegian archaeological review. 34 (1): 1–12. doi:10.1080/00293650116757.
  22. Østvik, C. (2021). Danskekongen og Viken ca. 950-1016: en studie av maktbildet i Viken og danskekongens rolle (MA thesis). Universitetet i Sørøst-Norge.
  23. Bagge, S. (2015). „Olav den Hellige som norsk konge (1015–28)“. Historisk tidsskrift. 94 (4): 555–587.
  24. Sawyer, B. (2003). „The 'Civil Wars' Revisited“. Historisk tidsskrift. 82 (1): 43–73.
  25. Imsen, Steinar (11. júní 2010). The Norwegian Domination and the Norse World, C.1100-c.1400. Tapir Academic Press. ISBN 9788251925631. Afrit af uppruna á 18. apríl 2023. Sótt 21. júní 2022 – gegnum Google Books.
  26. Lustig, R. I. (1979). „The Treaty of Perth: a re-examination“. The Scottish Historical Review. 58 (165): 35–57.
  27. Brøgger sr., Jan (2002). Epidemier: En natur- og kulturhistorie. Oslo: N.W. Damm & Søn. ISBN 82-496-0076-2.
  28. Burkhardt, M. (2010). „The German Hanse and Bergen – new perspectives on an old subject“. Scandinavian Economic History Review. 58 (1): 60–79. doi:10.1080/03585520903561201.
  29. Grohse, I. P. (2020). „THE LOST CAUSE: Kings, the Council, and the Question of Orkney and Shetland, 1468–1536“. Scandinavian Journal of History. 45 (3): 286–308.
  30. Krystyna Szelągowska. Instytut Badań nad Dziedzictwem Kulturowym Europy. {{cite book}}: |title= vantar (hjálp); Texti "We, Norwegians: The National Identity of Norwegian Elites in Early Modern Times (16th-18th Century)" hunsaður (hjálp)
  31. Grell, O. P. (2005). „The Reformation in Norway: A political and religious takeover“. Aspekte der Reformation im Ostseeraum. bls. 121–144.
  32. Eyjólfur Guðmundsson (1978). „350 ár frá stofnun norska hersins“. Morgunblaðið. 65 (148): 24.
  33. Newland, K. (2011). „The acquisition and use of Norwegian timber in seventeenth-century Scotland“. Vernacular Architecture. 42 (1): 67–83. doi:10.1179/174962911X13159065475545.
  34. Berg, R. (2014). „Denmark, Norway and Sweden in 1814: a geopolitical and contemporary perspective“. Scandinavian Journal of History. 39 (3): 265–286. doi:10.1080/03468755.2013.876929.
  35. Clemmensen, N. (1994). „Bondevenner og bondevenner-to alen af et stykke? En komparativ undersøgelse af de danske og norske bondevenneorganisationer“. Fortid og Nutid. bls. 134–157.
  36. Grimley, D. M. (2006). Grieg: Music, landscape and Norwegian identity. Boydell Press.
  37. Thurid Vold. „nasjonalromantikken“. Store norske leksikon. Sótt 12.9.2024.
  38. Tove Bull (28. ágúst 2024). „Ivar Aasen“. Store norske leksikon.
  39. Tønnesson, K. (1988). „Popular protest and organization: The Thrane movement in pre‐industrial Norway, 1849–55“. Scandinavian Journal of History. 13 (2–3): 121–139.
  40. Árni G. Eylands (1961). „Íslendingar í Noregi“. Morgunblaðið. 48 (118): 22.
  41. Merok, E., & Ekberg, E. (2009). „Norwegian Shipping in the Port of Liverpool, 1855–1895: Niche Specialization and Anglo-Norwegian Networks“. International Journal of Maritime History. 21 (2): 221–239.
  42. Olaf Peter Monrad (1908). „Sjálfstæðisbarátta Noregs árið 1905: Stutt yfirlit“. Skírnir. 82: 26–42.
  43. Hjortland, T. C. (2024). A Nationalist Diaspora?: The 1905 “Consul Affair” between Norway and Sweden. A Comparative Study of Norwegian-American and Norwegian Perspectives in the Press (PDF) (MA thesis). Universitetet i Oslo.
  44. Larsen, E., Manns, U., & Östman, A. C. (2022). „Gender-equality pioneering, or how three Nordic states celebrated 100 years of women's suffrage“. Scandinavian journal of history. 47 (5): 624–647. doi:10.1080/03468755.2021.2023035.
  45. Vogt, Per (1938). Jerntid og jobbetid. En skildring av Norge under verdenskrigen. Oslo: Johan Grundt Tanum. bls. 146-148.
  46. Orheim, O. (1989). „A hundred years of Norwegian exploration of the polar regions“. Norsk Geografisk Tidsskrift - Norwegian Journal of Geography. 43 (3): 123–127. doi:10.1080/00291958908552229.
  47. Holtedahl, O. (1931). „Antarctic Research by the Norvegia Expeditions and Others“. The Geographical Journal. 78 (5): 401–413.
  48. Permanent Court of International Justice, Judgement No. 20; April 5th 1933 (1933). „Legal Status of Eastern Greenland; Denmark v. Norway“ (PDF) (enska). Publications of the Permanent Court of International Justice Series A./B. No. 53; Collection of Judgments, Orders and Advisory Opinions. A.W. Sijthoff’s Publishing Company, Leyden (gefið út 5. september 1933). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 6. desember 2020.
  49. Johansen, P. O. (2013). „The Norwegian Alcohol Prohibition; A Failure“. Journal of Scandinavian Studies in Criminology and Crime Prevention. 14: 46–63.
  50. Knut Dørum, Knut Are Tvedt (14. desember 2022). „Kriseforliket“. Store norske leksikon.
  51. Sigurd Sørlie (9. apríl 2016). „De norske frontkjemperne“. Norgeshistorie - Fra steinalderen til i dag. Fortalt av fagfolk. Universitetet i Oslo.
  52. Clodfelter, Micheal (2017). Warfare and Armed Conflicts: A Statistical Encyclopedia of Casualty and Other Figures, 1492-2015, 4th ed. Jefferson, NC: McFarland. bls. 437. ISBN 9780786474707.
  53. Guri Hjeltnes (9. apríl 2016). „Nortraships hemmelige fond“. Norgeshistorie – Fra steinalderen til i dag. Fortalt av fagfolk. Universitetet i Oslo.
  54. Dahl, Per F (1999). Heavy water and the wartime race for nuclear energy. Bristol: Institute of Physics Publishing. bls. 103–108. ISBN 07-5030-6335. Sótt 12. júlí 2009.
  55. Gallagher, Thomas (2002). Assault In Norway: Sabotaging the Nazi Nuclear Program. Guilford, Connecticut: The Lyons Press. ISBN 1-58574-750-5. Sótt 12. júlí 2009.
  56. Fjørtoft, Kjell (1930–2010) (1997). Oppgjøret som ikke tok slutt. Oslo: Gyldendal. ISBN 8205244936.
  57. Even Lange (25.11.2015). „NATO-medlemskap og blokkpolitikk“. Norgeshistorie – Fra steinalderen til i dag. Fortalt av fagfolk. Universitetet i Oslo.
  58. Even Lange (25.11.2015). „Frihandel og samarbeid“. Norgeshistorie – Fra steinalderen til i dag. Fortalt av fagfolk. Universitetet i Oslo.
  59. Even Lange (25.11.2015). „Høyere levestandard, mindre forskjeller“. Norgeshistorie – Fra steinalderen til i dag. Fortalt av fagfolk. Universitetet i Oslo.
  60. Francis Sejersted (6.8.2018). „norsk historie fra 1970 til 1990“. Store norska leksikon.
  61. Hallvard Notaker (25.11.2015). „Mer marked, svakere stat“. Norgeshistorie – Fra steinalderen til i dag. Fortalt av fagfolk. Universitetet i Oslo.
  62. Getiði sagt mér eitthvað um dýralíf í Noregi? Vísindavefur. Skoðað 17. janúar 2016.
  63. Thorsnæs, Geir, ritstjóri (8. apríl 2024). „Byer i Norge“. Store norske leksikon (norska). Kunnskapsforlaget. Sótt 1. júlí 2024.
  64. „Fylkesinndelingen fra 2024“ (norska). Regjeringen. 5. júlí 2022. Sótt 1. mars 2024.
  65. Baltais, Simon (2010). „Environment And Economy: Can They Co-Exist In The "Smart State"?“. Issues. 91: 21–24. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. apríl 2015. Sótt 20. mars 2015.
  66. Central Intelligence Agency. „Norway“. The World Factbook. Sótt 20. júní 2013.
  67. A Family Affair: Intergenerational Social Mobility across OECD Countries. OECD, 2010. Retrieved 27 August 2013.
  68. „OECD Better Life Index“. OECD. Sótt 27. ágúst 2013.
  69. „NAV – Foreldrepenger ved fødsel“. Nav.no. 2011. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. febrúar 2010. Sótt 18. apríl 2011.
  70. „Labour force survey, seasonally-adjusted figures, September 2016“. Statistics Norway. september 2016. Sótt 17. desember 2016.
  71. „Labour force survey – About the statistics“. Ssb.no. 30. október 2013. Sótt 15. febrúar 2014.
  72. „Statistical Yearbook of Norway 2013, Table 144: National Insurance. Disability pension, by county. 31 December 2012“. Ssb.no. 31. desember 2012. Sótt 15. febrúar 2014.
  73. „Dette er Norge“ (norska). Statistics Norway. Sótt 2. janúar 2013.
  74. Bureau of Labor Statistics. „International Comparisons of GDP per Capita and per Hour, 1960–2010“ (PDF). Division of International Labor Comparisons. Sótt 16. mars 2016.
  75. "Hourly Compensation Costs, U.S. Dollars and U.S. = 100." United States Department of Labor: Bureau of Labor Statistics, 21 December 2011. Web. 18 September 2012.
  76. Central Intelligence Agency. „Country Comparison: Distribution of Family Income – GINI Index“. The World Factbook. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. júní 2011. Sótt 20. júní 2013.
  77. „EØS-loven – EØSl. Lov om gjennomføring i norsk rett av hoveddelen i avtale om Det europeiske økonomiske samarbeidsområde (EØS) m.v. (EØS-loven)“. Lovdata.no. Sótt 14. febrúar 2009.
  78. "Norway," U.S. Department of State
  79. „Norski olíusjóðurinn stærstur“. RÚV. 11.6.2011. Sótt 2.9.2023.