Fara í innihald

Józef Rotblat

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Eðlisfræði
21. öld
Nafn: Józef Rotblat
Fæddur: 4. nóvember 1908
Varsjá, rússneska keisaradæminu (nú Póllandi)
Látinn 31. ágúst 2005 (96 ára)
London, Bretlandi
Svið: Eðlisfræði
Helstu
viðfangsefni:
Manhattan-verkefnið
Forysta í afvopnunarherferðum
Hippókratesareiður vísindamanna
Helstu ritverk: Determination of a number of neutrons emitted from a source (1950)
Alma mater: Pólski fríháskólinn
Varsjárháskóli
Háskólinn í Liverpool
Lundúnaháskóli
Helstu
vinnustaðir:
Vísindasamtök Varsjár
Pólski fríháskólinn
Háskólinn í Liverpool
Þjóðrannsóknarstofan í Los Alamos
Spítali Heilags Bartólómeusar
Lundúnaháskóli
Edinborgarháskóli
Verðlaun og
nafnbætur:
Liðsforingi í Orðu breska heimsveldisins
Friðarverðlaun Nóbels (1995)

Józef Rotblat (4. nóvember 1908 – 31. ágúst 2005) var pólskur og síðar breskur eðlisfræðingur. Hann var einn af vísindamönnunum sem unnu að Manhattan-verkefninu sem leiddi til þróunar kjarnorkusprengjunnar. Eftir að kjarnorkusprengjum var varpað á Hiroshima og Nagasaki í lok seinni heimsstyrjaldarinnar snerist Rotblat gegn notkun kjarnorkuvopna og varð einn af fyrstu mönnunum sem helguðu líf sitt baráttu fyrir útrýmingu þeirra. Rotblat hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1995 ásamt Pugwash-hreyfingunni fyrir „viðleitni sína til að draga úr þætti kjarnorkuvopna í alþjóðastjórnmálum og til að stuðla að eyðingu þeirra þegar til lengri tíma er litið“.[1]

Rotblat fæddist í Varsjá í Póllandi. Hann missti eiginkonu sína í gyðingaofsóknum nasista og flúði til Bretlands stuttu fyrir seinni heimsstyrjöldina. Hann hóf rannsóknir í þróun kjarnavopna árið 1939 og gekk til liðs við kjarneðlisfræðinga Manhattan-verkefnisins í Los Alamos í Nýju-Mexíkó. Rotblat var sjálfur ekki hlynntur beitingu kjarnavopna en hann taldi að til þess að koma í veg fyrir að Hitler og nasistar kæmust yfir kjarnavopn og beittu þeim væri nauðsynlegt að bandamenn yrðu fyrstir til að smíða kjarnorkusprengjur til forvarnar. Hann gerði ekki ráð fyrir að kjarnorkusprengjunni yrði beitt, jafnvel ekki gegn nasistum, og þegar ljóst þótti að Þjóðverjar myndu tapa stríðinu og hefðu hætt við kjarnorkuáætlun sína sagði Rotblat sig úr Manhattan-verkefninu.[1]

Rotblat hlaut breskan ríkisborgararétt árið 1946. Þaðan af lýsti hann sjálfum sér sem „Pólverja með breskt vegabréf“.[2] Hið sama ár stofnaði hann hin bresku Samtök kjarnorkuvísindamanna (e. Atomic Scientists Association eða ASA). Árið 1955 var Rotblat einn 11 vísindamanna sem undirrituðu stefnuyfirlýsingu kennda við Bertrand Russell og Albert Einstein þar sem ríkisstjórnir heimsins voru varaðar við hættunni á kjarnorkustríði og hvatt var til samræðna á milli vísindamanna heimsins. Tillögurnar í yfirlýsingunni leiddu til stofnunar Pugwash-ráðstefnunnar, sem var haldin í fyrsta sinn í samnefndu þorpi í Nova Scotia árið 1957.[3] Rotblat tók jafnframt þátt í stofnun Herferðar fyrir kjarnorkuafvopnun (CND) árið 1958.[1]

Árið 1995 var Rotblat sæmdur friðarverðlaunum Nóbels ásamt Pugwash-ráðstefnunum fyrir störf sín í þágu kjarnorkuafvopnunar. Tímasetning verðlaunaafhendingarinnar var valin bæði þar sem 50 ár voru liðin frá kjarnorkuárásunum á Hiroshima og Nagasaki og til þess að mótmæla kjarnorkutilraunum Frakka sem þá stóðu yfir. Við verðlaunaathöfnina sagði Rotblat að þrátt fyrir endalok kalda stríðsins lifði kaldastríðshugsanaháttur enn góðu lífi og vísaði jafnframt á bug þeirri hugmynd að tilvist kjarnavopna hefði komið í veg fyrir stríð á 20. öldinni. Þvert á móti sagði Rotblat að kjarnorkuvopn hefðu nokkrum sinnum komist nærri því að valda stríði og vísaði þar sérstaklega til Kúbudeilunnar 1962, sem hann lýsti sem einu hræðilegasta augnabliki lífs síns.[4]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 „Barðist gegn vopninu sem hann átti þátt í að þróa“. Morgunblaðið. 14. október 1995. Sótt 28. janúar 2020.
  2. „Decyzja o przyznaniu pokojowej Nagrody Nobla Lechowi Wałęsie“ (pólska). wydarzenia. 5. október 1983. Afrit af upprunalegu geymt þann 21. júlí 2011.
  3. Leopold Infeld (1. janúar 1963). „Pugwash-hreyfingin“. Réttur. Sótt 28. janúar 2020.
  4. „Kaldastríðshugsunin lifir góðu lífi“. Tíminn. 12. desember 1995. Sótt 30. janúar 2020.