Ósonlagið
Ósonlagið er í andrúmslofti jarðar lag þar sem þéttleiki ósons (O3) er meiri en annars staðar. Þéttleikinn er samt sem áður mjög lítill, eða innan við tíu milljónarhlutar, en meðaltalið í andrúmsloftinu er 0,6. Ósonlagið er aðallega að finna í heiðhvolfinu í um 20-30km hæð, þótt það sé breytilegt eftir svæðum og árstímum. Óson og tvísúrefni (O2) ná að sía burt alla útfjólubláa geisla frá sólinni á bylgjulengdinni 280–100nm (UV-C) og ósonið síar auk þess út hluta þeirrar geislunar sem er aðalorsakavaldur sólbruna á bylgjulengdinni 315–280nm (UV-B) sem er 350 milljón sinnum sterkara efst í gufuhvolfinu en við yfirborð jarðar. Vegna þessa olli það miklum áhyggjum þegar í ljós kom að manngerð halógenkolefni, einkum klórflúorkolefni og brómflúorkolefni, eyddu upp ósonlaginu með því að hvata efnahvörfum. Vegna þessa ákváðu ríkisstjórnir Bandaríkjanna, Kanada og Noregs að banna notkun klórflúorkolefna í úðabrúsum árið 1978. Þegar gatið í ósonlaginu yfir Suðurskautinu uppgötvaðist árið 1985 var ákveðið að takmarka slík efni bæði í úðabrúsum og kælitækjum. Árið 1987 var Montreal-bókunin gerð og eftir 1995 hefur framleiðsla á klórflúorkolefni verið bönnuð í flestum þróuðum ríkjum. Árið 2003 kom í ljós að hægt hafði verulega á rýrnun ósonlagsins vegna bannsins.