Valentinianus 3.
Valentinianus 3. | |
Vestómverskur keisari | |
Valdatími | 425 – 455 |
---|---|
Fæddur: |
2. júlí 419 |
Fæðingarstaður | Ravenna |
Dáinn: |
16. mars 455 |
Dánarstaður | Róm |
Forveri | Johannes |
Eftirmaður | Petronius Maximus |
Maki/makar | Licinia Eudoxia |
Börn | Eudoxia Placidia |
Faðir | Constantius 3. |
Móðir | Galla Placidia |
Ætt | Theodosíska ættin |
Valentinianus 3. (2. júlí 419 – 16. mars 455) var keisari Vestrómverska ríkisins frá árinu 425 til dauðadags árið 455.
Faðir Valentinianusar 3. var Constantius 3. sem var keisari í nokkra mánuði áður en hann lést, árið 421. Móðir hans var Galla Placidia sem var systir Honoriusar keisara. Þegar Honorius lést árið 423 var embættismaðurinn Johannes skipaður keisari. Austrómverski keisarinn Theodosius 2., sem var frændi Honoriusar og Göllu Placidiu, viðurkenndi ekki Johannes sem keisara og árið 424 skipaði hann Valentinianus sem undirkeisara sinn (caesar) og ári síðar sem keisara (augustus) yfir Vestrómverska ríkinu. Theodosius sendi her til Ítalíu til að takast á við Johannes og var Johannes sigraður eftir átök við Ravenna og tekinn af lífi stuttu síðar. Valentinianus 3. var aðeins 6 ára þegar hann varð keisari og því var ríkinu stjórnað að miklu leiti af móður hans til að byrja með. Germanskir þjóðflokkar voru helsta ógnin við vald keisarans á valdatíma Valentinianusar og til dæmis höfðu Vestgotar sest að í suður Gallíu og Vandalar í Hispaníu. Þessir þjóðflokkar réðu sér að miklu leiti sjálfir þó þeir væru innan landamæra Rómaveldis. Árið 429 færðu Vandalar sig um set og hertóku norður-Afríku af Rómverjum. Við þetta misstu Rómverjar yfirráðin yfir norður-Afríku þangað til Austrómverjar hertóku svæðið aftur á 6. öld. Árið 437 ferðaðist Valentinianus til Konstantínópel og kvæntist Liciniu Eudoxiu, dóttur Theodosiusar 2. Eftir að Valentinianus varð fullorðinn reiddi hann sig meira og meira á mikilvægasta hershöfðingja sinn, Flavius Aetius. Aetius einbeitti sér mest að því að verja Gallíu fyrir árásum Germana. Húnar, undir stjórn Atla Húnakonungs, urðu sífellt meiri ógn við Rómaveldi á þessum tíma. Árið 451 mætti sameinaður her Rómverja, Franka, Vestgota og fleiri, her Húna í orrustunni við Katalánsvelli. Aetius fór fyrir herafla Rómverja sem bar sigur úr býtum. Atli flúði bardagann en hélt þó áfram að valda Rómverjum vandræðum og gerði innrás í Ítalíu árið eftir. Hann leiddi her sinn til Rómar, þar sem Valentinianus var þá staddur, en hætti við að ráðast á borgina eftir að Leo 1. páfi hafði verið sendur til að semja við hann. Atli lést árið 453 og við það endaði ógn Húna við Rómaveldi. Valentinianus myrti Flavius Aetius árið 454, líklega vegna þess að honum stóð ógn af völdum Aetiusar. Árið eftir var Valentinianus sjálfur myrtur af liðsmönnum Aetiusar, að undirlagi Petroniusar Maximusar sem varð keisari í kjölfarið.
Fyrirrennari: Johannes |
|
Eftirmaður: Petronius Maximus |