Trebonianus Gallus
Trebonianus Gallus | |
Rómverskur keisari | |
Valdatími | 251 – 253 með Hostilianusi (251) með Volusianusi (251–253) |
---|---|
Fæddur: |
206 |
Fæðingarstaður | Ítalía |
Dáinn: |
ágúst 253 |
Dánarstaður | Interamna (núverandi Terni á Ítalíu) |
Forveri | Decius og Herennius Etruscus |
Eftirmaður | Aemilianus |
Maki/makar | Afinia Gemina Baebiana |
Börn | Volusianus, Vibia Galla |
Fæðingarnafn | Gaius Vibius Afinius Trebonianus Gallus |
Keisaranafn | Caesar Gaius Vibius Afinius Trebonianus Gallus Augustus |
Tímabil | Herkeisararnir |
Trebonianus Gallus (206 – ágúst 253) var rómverskur keisari á árunum 251 til 253.
Trebonianus Gallus var fæddur inn í virta ítalska aðalsætt og gekk upp hinn hefðbundna metorðastiga (cursus honorum) sem ungir aðalsmenn gerðu gjarnan. Gallus gegndi meðal annars stöðu ræðismanns (consul) og var svo, árið 250, skipaður landsstjóri í Moesiu superior, af keisaranum Deciusi. Gotar höfðu þá gert innrás í Moesiu og Gallus tók þátt í herferð Deciusar gegn þeim árið 251. Herferðin mistókst hrapalega og bæði Decius og sonur hans og meðkeisari, Herennius Etruscus, féllu í orrustunni við Abrittus. Herdeildirnar á svæðinu hylltu þá Gallus sem keisara en í Rómaborg var yngri sonur Deciusar, Hostilianus, lýstur keisari. Gallus viðurkenndi Hostilianus sem meðkeisara sinn en samdi fljótlega um frið við Gotana til þess að geta haldið til Rómar og styrkt stöðu sína. Samkvæmt friðarskilmálunum fengu Gotarnir að halda óáreittir út úr Rómaveldi, til baka á sín landsvæði norðan Dónár, með allt það herfang sem þeir höfðu tekið í innrásinni. Þegar Trebonianus Gallus kom til Rómar var hann hylltur sem keisari og sonur hans, Volusianus gerður að undirkeisara. Hostilianus er talinn hafa dáið úr plágu stuttu síðar.
Valdatíð Trebonianusar Gallusar einkenndist helst af vandræðum í austurhluta Rómaveldis. Sassanídar í Persíu gerðu innrás inn í Armeniu og Syriu og ollu miklu tjóni fyrir Rómverja áður en þeir voru að lokum hraktir til baka. Einnig gerðu Gotar aftur innrás en að þessu sinni tókst hershöfðingjanum Aemilianusi að sigra þá í orrustu. Aemilianus var að því loknu hylltur sem keisari af hermönnum sínum og fljótlega hélt hann áleiðis til Ítalíu til að mæta keisaranum. Gallus skipaði herdeildum frá Gallíu, undir stjórn Valerianusar, að koma sér til aðstoðar gegn valdaræningjanum Aemilianusi, en áður en þær komust alla leið mættust Gallus og Aemilianus nálægt Interamna (núverandi Terni) á mið-Ítalíu. Ekki er ljóst hvort til bardaga hafi komið en að minnsta kosti voru bæði Trebonianus Gallus og Volusianus drepnir í ágúst 253, annað hvort af sínum eigin mönnum eða af mönnum Aemilianusar. Aemelianus varð keisari að Gallusi látnum en hélt keisarastólnum aðeins í um þrjá mánuði áður en Valerianus steypti honum af stóli.
Fyrirrennari: Decius og Herennius Etruscus |
|
Eftirmaður: Aemilianus |