Upton Park F.C.
Upton Park Football Club var enskt áhugamannafélag í knattspyrnu sem stofnað var árið 1866, en endurvakið árið 1891 eftir að hafa lagst í dvala. Þótt það geti seint talist í hópi sigursælli félaga enskrar knattspyrnusögu náði það að marka sín spor. Félagið barið sama nafn og heimavöllur West Ham United F.C. um árabil en engu að síður voru tengsl félaganna ekki nema óbein og Upton Park F.C. lék aldrei á leikvangnum Upton Park.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Upton Park var í hópi þeirra fimmtán félaga sem skráðu sig til leiks í ensku bikarkeppninni þegar hún fór fram í fyrsta sinn 1871-72. Tókst liðinu aldrei að komast lengra en í fjórðungsúrslit. Áhrifin urðu meiri utan vallar, því árið 1884 kærði félagið Preston North End F.C. fyrir ólöglegar greiðslur til leikmanna eftir bikarleik félaganna. Liði Preston var vikið úr keppninni, en ákvörðunin neyddi Enska knattspyrnusambandið til að horfast í augu við atvinnumennsku sem var á allra vitorði. Í kjölfarið var atvinnumennska í íþróttinni heimiluð í Englandi og knattspyrnuhreyfingin klofnaði í raun í tvennt.
Áður höfðu lögspekingar Upton Park sett sitt mark á knattspyrnuíþróttina, því það voru fulltrúar félagsins sem báru fram tillögurnar um breytinguna á knattpsyrnulögunum árið 1870 sem gerðu það óheimilt að handleika knöttinn og árið eftir kom félagið fram með tillöguna um að stofna sérstaka stöðu markvarðar.
Upton Park F.C. var lagt niður árið 1887 en endurvakið fjórum árum síðar. Árin á eftir lék félagið mestmegnis æfingarleiki og tók þátt í bikarkeppnum áhugamannaliða með heldur rýrum árangri. Það var því nokkuð óvænt þegar ákveðið var að Upton Park yrði fulltrúi Bretlands á Ólympíuleikunum árið 1900, þegar keppt var í knattspyrnu í fyrsta sinn. Vegna áhugamannareglna Ólympíuleikanna komu atvinnufélög Bretlandseyja ekki til greina, en engu að síður má ljóst telja að Upton Park hefur ekki verið fyrsti valkostur.
Ekki kepptu nema þrjú lið á leikunum: Upton Park, Parísarliðið Club Français og lið stúdenta frá Brüssel-háskóla. Fyrst sigraði Upton Park franska liðið með fjórum mörkum gegn engu að viðstöddum 500 áhorfendum og síðan unnu heimamenn belgísku stúdentanna. Ólíklegt má telja að þátttakendur í þessum viðureignum hafi almennilega áttað sig á að um formlega keppni á Ólympíuleikum væri að ræða, en löngu síðar úthlutaði Alþjóðaólympíunefndin gull-, silfur- og bronsverðlaunum á grunni þessara úrslita. Upton Park var því fyrsti Ólympíumeistarinn í knattspyrnu og annað tveggja félagsliða sem náð hafa þeim árangri.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Upton Park F.C.“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 6. desember 2020.