Stjórn
Stjórn er fornnorræn þýðing á fyrsta hluta Biblíunnar eða Gamla testamentisins, frá Fyrstu Mósebók til loka Síðari konungabókar. Nafnið Stjórn hefur líklega ekki fylgt ritsafninu frá upphafi, heldur mun það vera frá 16. eða 17. öld. Merking orðsins er óviss, gæti þýtt leiðarvísir, eða stjórn guðs á veröldinni, eða á Gyðingum. Einnig gæti orðið verið þýðing á Liber regum (sem er latína og merkir: Konungabók).
Efni, þýðendur og uppruni
[breyta | breyta frumkóða]Stjórn nær yfir eftirtalin rit Biblíunnar:
- 1. – 5. Mósebók
- Jósúabók
- Dómarabók
- Rutarbók
- Fyrri og síðari Samúelsbók
- Fyrri og síðari Konungabók
Textarnir í Stjórn eiga sér a.m.k. tvenns konar uppruna. Síðari hlutinn, frá og með Jósúabók til loka Konungabókanna, er þýðing á latnesku Biblíunni, Vúlgötu, líklega verk eins manns. Þýðingin er mjög góð, ekki orðrétt, en án verulegra úrfellinga eða breytinga. Hugsanlegt er að þýðingin sé unnin í Noregi, því að sums staðar er vísað til norskra aðstæðna. Málfarið bendir til að þýðingin sé frá 1220-1250.
Í handritinu AM 226 fol. er Jósúabók í annarri gerð, þýdd eftir Historia Scholastica eftir Pétur Comestor. Í þessu handriti er einnig þýðing á 2. Mósebók 19 til 5. Mósebókar, gerð eftir Vúlgötu, og er í svipuðum stíl og framhaldið. Þetta er álíka góð þýðing, en styttir textann sums staðar verulega, einkum þar sem endurtekningar eru. Finnur Jónsson prófessor taldi að þessi hluti gæti verið úr sömu biblíuþýðingu og framhaldið, þ.e. frá 1220-1250, en Gustav Storm hélt því fram að þetta væri íslensk þýðing frá 14. öld, gerð til að fylla eyðu í textanum.
Fyrsti hluti Stjórnar, 1. Mósebók til 2. Mósebókar 18, á sér allt annan uppruna. Þar er texti Biblíunnar bútaður niður og síðan bætt við umfangsmiklum skýringum, sem sóttar eru í ýmsar heimildir. Má þar einkum nefna Historia Scholastica og Speculum Historiale. Sjálfur texti Biblíunnar drukknar víða í skýringunum og hefði þetta orðið tröllaukið verk ef því hefði verið fram haldið. Finnur Jónsson telur að þeim mönnum sem settu saman Stjórnarhandritin á 14. öld, hafi þótt svo mikið til þessa verks koma, að þeir hafi tekið það fram yfir gömlu biblíuþýðinguna, sem fyrir vikið er glötuð að þessum hluta.
Framan við fyrsta hluta Stjórnar er formáli, þar sem segir m.a.:
- „Nú svo sem virðuligur herra Hákon Noregskonungur hinn kórónaði, son Magnúsar konungs, lét snara þá bók upp á norrænu sem heitir Heilagra manna blómstur, þeim skynsömum mönnum til skemmtanar sem eigi skilja eður undirstanda latínu. . . . Upp á þann hátt vildi hann og að þeim góðum mönnum mætti yfir sjálfs hans borði af þessari guðs höll og herbergi, það er af heilagri skrift, meður nokkurri skemmtanar vissu kunnigt verða.“
Af þessu má ráða að Hákon háleggur hafi látið þýða þennan fyrsta hluta Stjórnar á þeim árum sem hann var konungur, þ.e. 1299-1319.
Handrit
[breyta | breyta frumkóða]Stjórn er varðveitt heil eða í brotum í nokkrum skinnhandritum:
- AM 226 fol., kallað A, talið ritað í Helgafellsklaustri 1350-1370.
- AM 225 fol., er eftirrit AM 226 frá því um 1400.
- AM 227 fol., kallað B, vantar talsvert í. Handritið var fyrrum eign Skálholtskirkju.
- AM 228 fol., kallað C, mikið vantar í handritið.
- AM 229 fol. I, II og III, brot úr þremur Stjórnarhandritum.
- NRA – Í Ríkisskjalasafni Noregs eru tveir blaðhlutar úr Stjórn.
Öll handritin, sem eru íslensk, hafa verið veglegar, tveggja dálka skinnbækur frá 14. öld.
Útgáfur
[breyta | breyta frumkóða]- Carl Richard Unger (útg.): Stjórn. Gammelnorsk Bibelhistorie fra Verdens Skabelse til det babyloniske Fangenskab. Christiania 1862, xv+654 s.
- Reidar Astås (útg.): Stjórn. Tekst etter håndskriftene 1–2. Riksarkivet, Oslo 2009, xii+1324 s. — Norrøne tekster nr. 8.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Finnur Jónsson: Den oldnorske og oldislandske Litteraturs historie II, 2. útg., Köbenhavn 1923.