Raðhverfa

Raðhverfa (eða anagram) er umröðun orðs, nafns eða setningar þannig að efniviðurinn fái nýja merkingu. Íslenska orðið gaman getur með raðhverfingu orðið sögnin að magna. Raðhverfing er ekki mikið stunduð á íslensku, en er vinsæl íþrótt í sumum tungumálum.
Orðið anagram er komið af nýgríska orðinu αναγραμμαμτισμος anagrammatismos, sem er komið af sögninni αναγραμμαμτιζειν anagrammatizein, þ.e. „að umraða orðum í nýtt orð“. Íslenska orðið raðhverfa er hugsað á sama hátt. Stöfunum er raðað upp á nýtt og hverfast þannig í nýtt orð.
Að vissu leyti mætti segja að orðið rass sé nokkurskonar raðhverfa. Upphaflega orðið yfir bakhlutann í íslensku var ars, (sbr. í ensku: arse), en til að „fela“ orðið eða mýkja, þá var stöfunum umraðað og farið að segja rass. Þetta er þó að vissu leyti sambland raðhverfu og veigrunar.