Qingdao
Qingdao (einnig stafsett Tsingtao; (kínverska: 青岛; rómönskun: Qīngdǎo) er stór hafnarborg í Alþýðulýðveldinu Kína, staðsett í austurhluta Shandong standhéraðs í Austur- Kína við Gulahaf til móts við Kóreuskaga. Á kínversku er þýðir nafn borgarinnar bókstaflega „bláeyja“. Flestar íslenskar heimildir á 20. öld nefna borgina Tsingtao.[1]
Borgin er mikilvæg menningar-, iðnaðar-, viðskipta -, og samskiptamiðstöð. Árið 2020 þegar síðasta manntal var gert í Kína, var íbúafjöldi borgarkjarna Qingdao 6.165.279 en íbúafjöldi undir lögsögu borgarinnar var 10.071.722.
Qingdao er mikil höfn og flotastöð, auk viðskipta- og fjármálamiðstöðvar. Það er heimili rafeindatæknifyrirtækja eins og Haier og Hisense. Jiaozhou-flóabrúin, tengir aðalþéttbýli Qingdao við Huangdao-hverfið, þvert á hafsvæði Jiaozhou-flóa. Sögulegur arkitektúr þess í þýskum stíl og Tsingtao brugghúsið, næststærsta brugghúsið í Kína eru arfur þýska hernáms (1898-1914).
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Qingdao var upphaflega minniháttar sjávarþorp, er þróaðist mikið við verslun á valdatíma Tjingveldisins (1644–1912), þegar tollstöð var sett þar á fót. Með stofnun Beiyang („Norðurhafs“) flota Kína á níunda áratug 19. aldar jókst mikilvægi Qingdao borgar. Þar var komið á fót lítilli flotastöð og byggðar víggirðingar.[2] Flotinn var efldur, meðal annars með kaupum á nýjum þýskum herskipum.
Árið 1897 sendi þýska ríkisstjórnin, herlið til að hernema Qingdao; næsta ár neyddi hún kínversk stjórnvöld til að greiða skaðabætur og veita Þýskalandi 99 ára leigu á Jiaozhou-flóa og nærliggjandi landsvæðum, ásamt járnbrautar- og námuréttindum í Shandong héraði.[3] Qingdao var lýst fríhöfn árið 1899 og nútíma hafnaraðstaða var sett upp. Járnbraut var lögð til Jinan árið 1904. Nútímaleg borg í evrópskum stíl var byggð og margvíslegum iðnaði var komið á fót. Uppbygging menntunar jókst til muna, með grunn-, framhalds- og verknámsskólum sem fjármagnaðir eru af ríkissjóði Berlínar auk mótmælenda og rómversk-kaþólskra trúboða.[4] Útibú keisarahafnartollsins var stofnað til að stjórna viðskiptum við ströndina eins langt suður og nýju höfnina í Lianyungang í Jiangsu héraði.
Árið 1914, þegar Japan lýsti yfir stríði á hendur Þýskalandi, var megintilgangur þess að ná Qingdao. Það gekk eftir í nóvember það ár eftir langt hafnarbann. Á friðarráðstefnunni í París og gerð Versalasamningsins að lokinni fyrri heimstyrjöld, stóðu vonir Kínverja til þess að endurheimta yfirráð Qingdao frá Japönum. Það gekk ekki eftir. Svokölluð „Fjórða maí-hreyfing“ (4. maí 1919) var svar við því. Í nafni þjóðernishyggju barðist hún gegn heimsvaldastefnu og bættrar menningarlegrar sjálfsmyndar í Kína. Átti hreyfingin sem upphaflega byggði á mótmælum stúdenta, eftir að hafa áhrif á stjórnmálaþróun í Kína. Japanir hernámu borgina því til ársins 1922, er þeir skiluðu höfninni til Kína samkvæmt sáttmála Flotaráðstefnunnar í Washington (1921–22).[5] Á því tímabili höfðu Japanir hins vegar byggt upp sterka aðstöðu, bæði í Qingdao og í héraðinu Shandong.
Árið 1929 komst Qingdao undir virka stjórn kínversku þjóðernisstjórnarinnar og varð að sérstöku sveitarfélagi. Uppbygging hafna hélt áfram og viðskipti hennar fóru fram úr keppinauti sínum, Tianjin borg, um 1930. Eftir það hélt hún áfram að stækka á kostnað Tianjin.
Við byrjun seinna stríðs Kína og Japans, sem rann síðar inn í seinni heimsstyrjöldina, hertóku Japanir Qingdao árið 1938 og héldu henni til ársins 1945. Á því tímabili varð töluverð iðnaðaruppbygging. Árið 1941 var Qingdao með stórar nútímalegar bómullarverksmiðjur, eimreiðar- og járnbrautarvagnaverk og viðgerðaraðstöðu, verkfræðistofur og verksmiðjur sem framleiddu gúmmí, eldspýtur, kemísk efni og litarefni.
Bruggiðnaður borgarinnar framleiðir Tsingtao einn þekktasta bjór Kína. er næstmest seldi bjór í Kína og telur um helming útflutnings á kínverskum bjór. Hann er seldur á Íslandi.[6]
Síðan 1949 hefur Qingdao þróast verulega sem hafnarborg með sterka undirstöðu í stóriðju. Á áttunda áratugnum varð borgin umfangsmikil í framleiðslu vefnaðarvöru.
Seint á fimmta áratugnum var komið á fót meiriháttar járn- og stáliðnaði. Borgin er endastöð austur-vestur járnbrautarlínunnar og er tengd með járnbrautum við hafnir Yantai og Weihai. Það er líka stór fiskihöfn. Norðurfloti Kína er staðsettur í Qingdao höfn. Íslensk fyrirtæki hafa haslað sér völl í borginni, aðallega vegna sterkrar tengingar við sjávarútveg. Þannig hefur Icelandic Group, verið með talsverða starfssemi í borginni.[7] Í borginni er haldin viðamikil alþjóðleg sjávarútvegssýning sem ýmis íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa bæði sótt og kynnt vörur og þjónustu.[8] [9]
Árið 1984 var Qingdao útnefnd ein af „opnum“ borgum Kína sem hluti af nýrri stefnu sem býður erlendum fjárfestingum. Síðan þá hefur borgin gengið í gegnum mjög öra efnahagsþróun.
Efnahags- og hátækniþróunarsvæði Qingdao er staðsett á vesturströnd Jiaozhou-flóa, gegnt miðbæ borgarinnar. Ýmis stórfyrirtæki hafa höfuðstöðvar í borginni, til að mynda Haier Group sem er þekkt alþjóðlega.
Hraðbraut sem liggur um Jiaozhou-flóa tengdir borgina vestur við Jinan og norðaustur til Yantai og Weihai. Árið 2011 var opnuð 42 kílómetra braut yfir minni flóans. Hún myndar með Haiwan brúnni eða Jiaozhou flóa brúnni eina lengstu yfirvatnsbrú heims ásamt 9.5 kílómetra göngum neðansjávar. Alþjóðaflugvöllur borgarinnar, um 15 mílur (24 km) til norðurs, veitir áætlunarflug til áfangastaða í norðaustur Asíu, sem og til ýmissa borga í landinu.
Tengt efni
[breyta | breyta frumkóða]- Borgir Kína eftir fólksfjölda
- Shandong strandhéraðið í Austur- Kína við Gulahaf
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Alþýðublaðið (6. desember 1958). „Kínversk nöfn breyta um svip“. Alþýðublaðið. Sótt 18. júlí 2022.
- ↑ „Qingdao | China | Britannica“. www.britannica.com (enska). Sótt 18. júlí 2022.
- ↑ Hannes Sigfússon (2. tölublað (01.05.1961) 1961). „Saga vestrænnar íhlutunar í Kína“. Tímarit Máls og menningar. Sótt Júlí 2022.
- ↑ Schultz-Naumann, Joachim (1985). Unter Kaisers Flagge: Deutschlands Schutzgebiete im Pazifik und in China einst und heute (þýska). Universitas. bls. 183. ISBN 978-3-8004-1094-1.
- ↑ „Washington Conference | Treaties & Facts | Britannica“. www.britannica.com (enska). Sótt 18. júlí 2022.
- ↑ Vínbúðin. „Tsingtao Lager“. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Sótt 21. júlí 2022.
- ↑ Morgunblaðið (16. apríl 2013). „Ætla að rækta markaðinn í Kína - Um 100 í vinnu fyrir Icelandic í Kína“. Árvakur. Sótt 15. júlí 2022.
- ↑ Morgunblaðið B - Úr verinu (11. apríl 2001). „Fjölmargar sýningar“. Árvakur. Sótt 15. júlí 2022.
- ↑ Aldan - 7. tölublað (20. október 2015). „Margar áhugaverðar sjávarútvegssýningar erlendis á komandi vetri“. Aldan. Sótt 15. júlí 2022.