Fara í innihald

Nefskattur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Nefskattur er skattur sem leggst jafnt á alla einstaklinga, óháð tekjum eða eignum hvers og eins. Ólíkt tekjuskatti eða eignaskatti, þar sem ákveðið prósentuhlutfall tekna eða eigna er tekið til skatts, þá greiða allir einstaklingar fasta fjárupphæð.

Kostir nefskatts eru þeir að álagning er einföld í sniðum og auðvelt er að fylgjast með skattgreiðslum. Auk þess er álagning nefskatts ekki vinnuletjandi líkt og oft er með tekjuskatt. Ókostir nefskatts eru hins vegar þeir að greiðslukvaðir leggjast misþungt á einstaklinga, þannig að þeir tekjulægstu greiða hæst hlutfall tekna og eigna. Vegna þessa misræmis í hlutfallslegri skattgreiðslu þeirra tekjulægstu og tekjuhæstu er sjaldgæft að skattayfirvöld leggi á nefskatt.

Nefskattar voru innheimtir í mörgum ríkjum á 19. öld en hafa nú lagst af að mestu. Frægt dæmi um nefskatta eru til dæmis skattur sem áður var innheimtur af kjósendum í sumum hlutum Bandaríkjanna sem leynt eða ljóst var ætlaður til að fæla efnalítið fólk frá því að kjósa. Í Bretlandi eru tvö fræg dæmi um álagningu nefskatts sem í bæði skiptin leiddi til mikils óróa og jafnvel uppþota. Annar var lagður á í tíð Ríkharðs II á 14. öld og hinn í forsætisráðherratíð Margaret Thatcher á 20. öld.