Langa þingið
Langa þingið í Englandi var þing sem Karl 1. Englandskonungur boðaði 3. nóvember 1640 til að semja frið við skoska sáttmálamenn í kjölfar Biskupastríðanna. Það var boðað með þeim skilyrðum að ekki mætti leysa það upp nema með samþykki þingmanna sjálfra. Það gerðist ekki fyrr en eftir lok Enska samveldisins og endurreisn konungdæmis árið 1660.
Þingið afnam mikið af þeim völdum sem Karl hafði tekið sér frá því hann tók við konungdómi og barðist gegn einveldistilburðum hans. Árið 1648 stóð Oliver Cromwell fyrir því að meina 41 þingmanni aðgang að þinginu. Þingið sem eftir stóð var nefnt afgangsþingið. Það þing stóð að dauðadómi yfir Karli 1. og stofnun Enska samveldisins. Árið eftir rak Cromwell þingmenn út úr þinginu með hervaldi og 1653 leysti hann afgangsþingið upp og gerðist einráður. Hann setti á fót Litla þingið og fyrsta, annað og þriðja verndarþingið í valdatíð sinni. Eftir andlát Cromwells tók sonur hans við en honum var steypt af stóli í herforingjauppreisn 1659. Langa þingið var þá kallað saman aftur. Það boðaði til stjórnlagaþings og samþykkti 16. mars 1660 að leysa sjálft sig upp.