Landfógeti
Útlit
Landfógeti var embættismaður sem sá um fjármál Danakonungs á Íslandi. Embætti landfógeta var tekið upp árið 1683 þegar embætti höfuðsmanns á Íslandi var lagt niður. Landfógeti var gjaldkeri jarðarbókarsjóðs, innheimti skatta í Gullbringusýslu og var lögreglustjóri í Reykjavík.
Landfógeti átti að hafa eftirlit með eignum konungs á Íslandi, skattheimtu og öðrum greiðslum, og sjá um fiskiútveg konungs á Suðurnesjum. Hann átti og að líta eftir því að verslunarlöggjöfinni væri hlýtt. Sá sem fyrst gegndi þessu starfi hét Kristófer Heidemann.