Kleópatra 1.
Kleópatra 1. Syra eða „sýrlenska“ (gríska: Κλεοπάτρα Σύρα; um 204 f.Kr.–176 f.Kr.) var drottning Egyptalands á tímum Ptólemajaríkisins. Hún var dóttir Antíokkosar mikla, konungs Selevkídaríkisins, og drottningar hans, Laódíke 3. Hún giftist Ptólemajosi 5., konungi Egyptalands, í borginni Rafía (nú Rafha) árið 193 f.Kr. Hjónaband þeirra var hluti af friðarsamkomulagi milli Ptólemaja og Selevkída, að undirlagi Rómverja, eftir fimmta Sýrlandsstríðið milli ríkjanna. Þá var hann um sextán ára gamall og hún tíu ára.
Kleópatra og Ptólemajos áttu minnst þrjú börn; Kleópötru 2., Ptólemajos 6. og Ptólemajos 8.[1]
Árið 187 f.Kr. var Kleópatra skipuð ráðherra konungs[2] og þegar hann lést 180 f.Kr. tók hún við völdum fyrir hönd sonar síns Ptólemajosar 6. sem þá var sex ára. Hún var fyrsta drottning Ptólemaja sem ríkti ein yfir Egyptalandi. Á papýrusskjölum og peningum frá tímabilinu frá 179 til 176 f.Kr. er nafn hennar þannig ritað fyrir framan nafn sonar hennar.[3]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Chris Bennett. „Cleopatra I“. Tyndale House. Sótt 28. september 2019.
- ↑ Sewell-Lasater, Tara (2020). „Becoming Kleopatra: Ptolemaic Royal Marriage, Incest, and the Path to Female Rule“. University of Houston: 16–17, 245–246.
- ↑ Chris Bennett. „Ptolemy VI“. Tyndale House. Sótt 22 maí 2013.