Halla Gunnarsdóttir
Halla Gunnarsdóttir (f. 8. janúar 1981) er íslenskur blaðamaður, rithöfundur, fyrrverandi aðstoðarmaður ráðherra[1] og tók við starfi framkvæmdastjóra Alþýðusambands Íslands þann 15. apríl 2020.
Halla er kennari að mennt og með meistarapróf í alþjóðasamskiptum frá Háskóla Íslands. Hún starfaði sem blaðamaður á Morgunblaðinu 2003-2009 og frá 2009-2013 var hún aðstoðarmaður Ögmundar Jónassonar í heilbrigðisráðuneytinu og síðar í dómsmálaráðuneytinu.[2] Hún starfaði um tíma sem skrifstofustjóri hjá breska Kvennalistanum (The Women’s Equality Party) en þar leiddi hún stefnumótun samtakanna. Halla hefur einnig starfað á alþjóðlegri lögmannsstofu í Lundúnum, McAllister-Olivarius, sem sérhæfir sig í málum er lúta að kynbundinni áreitni á vinnustöðum, innan menntastofnana og á internetinu.[3] Frá 2018-2020 var hún ráðgjafi Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í jafnréttismálum[3] en í mars árið 2020 var tilkynnt að Halla tæki við stöðu framkvæmdastjóra Alþýðusambands Íslands þann 15. apríl 2020.[4]
Hún hefur gefið út bækurnar Leitin að Fjalla-Eyvindi (ljóðabók, 2007), Slæðusviptingar - raddir íranskra kvenna (2008), Guðrún Ögmundsdóttir - hjartað ræður för (viðtalsbók, 2010) og Tvö jarðarber (ljóðabók, 2013). Auk þess hefur hún skrifað fræðigreinar á sviði öryggis- og varnarmála.
Halla bauð sig fram til formanns KSÍ árið 2007,[5] en laut í lægra haldi fyrir Geir Þorsteinssyni.[6]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Heimasíða Höllu
- ↑ Halla Gunnarsdóttir ráðin aðstoðarmaður dómsmála- og mannréttindaráðherra
- ↑ 3,0 3,1 Halla ráðin ráðgjafi forsætisráðherra, kjarninn.is, 8. mars 2018
- ↑ Kjarninn.is, „Halla ráðin framkvæmdastjóri ASÍ“ (skoðað 25. mars 2020)
- ↑ Halla Gunnarsdóttir býður sig fram til formanns KSÍ, visir.is, 18. janúar 2007.
- ↑ Geir sigraði með miklum yfirburðum, visir.is, 10. febrúar 2007.