Fara í innihald

Háskólakórinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Háskólakórinn (áður Kór Háskóla Íslands) er blandaður kór, sem stofnaður var árið 1972. Hann hefur frá upphafi sungið við helstu athafnir Háskóla Íslands, en hefur einnig farið víða um heim og kynnt íslenska tónlist. Fyrsta ferðin var til Skotlands 1977 og síðan hafa mörg lönd verið heimsótt, allt frá Sovétríkjunum til Suður-Spánar. Kórinn fer í ferð að jafnaði einu sinni að sumri, innanlands eða utan eftir atvikum.

Háskólakórinn hefur komið fram á þónokkrum upptökum. Fyrstar komu vinyl plöturnar Háskólakórinn 1983 og Sóleyjarkvæði 1985. Þremur árum síðar kom út tvöfaldur geisladiskur með tónlist Árna Harðarsonar við Disneyrímur Þórarins Eldjárns sem þá um veturinn höfðu verið fluttar sem kabarett á sviði Tjarnarbíós. Í tilefni af 35 ára afmælinu kom svo út diskur Í hendi þinni 2006 með íslenskum lögum meðal annars eftir Atla Heimi Sveinsson, Hróðmar I. Sigurbjörnsson og Jón Ásgeirsson. Á þeim diski er lagið Vísindin efla alla dáð eftir Arnþrúði Lilju Þorbjörnsdóttur við kvæði Jónasar Hallgrímsssonar sem valið var lag Háskóla Íslands árið 2000 og kórinn hefur flutt við brautskráningar og ýmis önnur tækifæri. Haustið 2011 gaf kórinn svo út geisladiskinn Álfavísur þar sem upptökur frá síðustu þremur árum áður er að finna, eða síðan Gunnsteinn Ólafsson tók við stjórn hans. Diskurinn er einnig gefinn út í tengslum við 40 ára starfsafmæli kórsins. Árið 2015 gaf kórinn svo út aðra plötu, Kvöldlokku en sú er einnig safnplata ýmissa verka sem kórinn tók upp á árunum 2012-2015.

Meðal stjórnenda kórsins í gegnum tíðina má nefna Rut Magnússon, sem var fyrsti stjórnandi Háskólakórsins, Hjálmar H. Ragnarsson, Árna Harðarson, Ferenc Utassy, Egil Gunnarsson, Hákon Leifsson og nú Gunnstein Ólafsson en hann hefur stjórnað kórnum frá árinu 2007.

Meðlimir kórsins eru á bilinu 60 – 90 og er kórinn að mestu leiti samsettur af háskólanemum. Mikil fjölbreyttni og fjölþjóðabragur er yfir kórnum en mjög vinsælt er fyrir skiptinema og aðra erlenda nema að ganga í hann.

Háskólakórinn tekur sér árlega fyrir hendur eitt stórt tónverk, og flutti haustið 2007 hið stórbrotna verk Messa í C-dúr eftir Ludwig van Beethoven ásamt Ungfóníunni (þ.e. Sinfóníuhljómsveit unga fólksins) og haustið 2008 söng kórinn Messías eftir Händel. Haustið 2009 tók kórinn aftur upp samstarf við Ungfóníuna og flutt var 9. sinfónía Beethovens, Óðurinn til gleðinnar í Langholtskirkju. Þetta mun hafa verið fyrsta skiptið sem ungt fólk á Íslandi flytur þetta verk. Vorið 2011 flutti kórinn svo verkið Carmina Burana ásamt Ungfóníu. Haustið 2012 flutti kórinn verkið Messu í As-dúr eftir Franz Schubert, ári síðar eða haustið 2013 flutti hann verkið Requiem eftir Wolfgang Amadeus Mozart og Franz Xaver Süssmayr. Vorið 2015 tók kórinn Sjávarsinfóníu (e. A sea symphony) eftir Ralph Vaughan Williams ásamt sinfóníhljómsveit unga fólksins. Vorið 2016 tók kórinn aftur höndum saman við hana þar sem flutt var m.a. Lobgesang eftir Felix Mendelson. Haustið sama ár hélt kórinn tónleika þar sem flutt voru m.a. Gloria eftir John Rutter, Lorca svítan eftir Rautavaara auk vel valinna íslenskra kórverka. Haustið 2017 flutti kórinn svo Dixit Dominus eftir G.F. Händel ásamt barrokksveitinni Dixit. Haustið 2018 steig kórinn á svið í Hörpu og flutti þar óperuna Þrymskviðu eftir Jón Ásgeirsson ásamt einsöngvurum og sinfóníuhljómsveit unga fólksins.

  • „Almennt um kórinn“. Sótt 2007.
  • „Árbók Háskóla Íslands 2000“ (PDF). Sótt 28. nóvember 2012.
  • „Nýtt háskólalag kynnt“. Sótt 27. nóvember 2012.
  • „Punktar úr sögu Háskólakórsins“. Sótt 29. nóvember 2007.