Fara í innihald

Girona FC

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Girona Futbol Club, S.A.D.
Fullt nafn Girona Futbol Club, S.A.D.
Gælunafn/nöfn Blanquivermells (Þeir hvítu og rauðu), Gironistes
Stofnað 23. júlí 1930
Leikvöllur Estadi Montilivi
Stærð 14.300 áhorfendur
Stjórnarformaður Delfí Geli
Knattspyrnustjóri Míchel Sánchez
Deild La Liga
2023-2024 3. sæti
Heimabúningur
Útibúningur

Girona Futbol Club, S.A.D er knattspyrnufélag sem er starfrækt í Girona í Katalóníu-héraði á Spáni og stofnað árið 1930. Eftir að hafa varið gjörvallri sögu sinni í neðri deildum spænsku knattspyrnunnar komst Girona í fyrsta sinn í efstu deild árið 2017 og aftur árið 2022. Stuðningsmenn félagsins eru margir hverjir virkir í sjálfstæðisbaráttu Katalóna og slagorð í þá veru eru oft áberandi á heimavelli liðsins.

Knattspyrna hefur verið iðkuð í Girona frá því í undir lok 19. aldar. Fyrsta burðuga knattspyrnuliðið í borginni var Strong Esport, sem stofnað var árið 1902 undir heitinu FC Gerundense. Á þriðja áratugnum komu svo fram tvö félög til viðbótar sem eitthvað kvað að, CE Girona og UD Girona. Eftir að síðarnefnda liðið lagði upp laupana var ákveðið að koma nýju félagi á laggirnar.

Þann 23. júlí árið 1930 var Girona Futbol Club stofnað á kaffihúsi við aðalverslunargötu borgarinnar. Viku síðar heimiluðu borgaryfirvöld félaginu að fella merki borgarinnar inn í félagsmerkið. Í kjölfarið hóf liðið keppni í héraðsmótum í Katalóníu og leiktíðina 1933-34 hóf það keppni í 3. deild spænsku deildarkeppninnar.

Félagið markaði ekki djúp spor í sögu spænsku deildarinnar næstu áratugina. Í tvígang féll það meira að segja niður úr deildarkeppninni og í héraðskeppnir, leiktíðirnar 1982-83 og 1997-99. Vorið 2008 tókst Girona hins vegar að vinna sér sæti í næstefstu deild í fyrsta sinn frá árinu 1943. Eftir það fór hagur liðsins ört vænkandi.

Í fyrsta sinn í La Liga

[breyta | breyta frumkóða]

Sumarið 2010 var tilkynnt um kaup nýrra fjárfesta á meirihluta hlutafjár í Girona. Nýju eigendurnir komu meðal annars á laggirnar varaliði og styrktu innviði félagsins á ýmsan hátt. Á árunum 2013-16 var Girona í þrígang nærri því að tryggja sér sæti í deild hinna bestu og það tókst að lokum vorið 2017 við mikinn fögnuð stuðningsmanna.

Um það bil sem leiktíðin 2017-18 var að hefjast var tilkynnt um kaup fjárfestingarfélags frá Abú Dabí á 44,3% hlutafjár í félaginu. Jafnstór hlutur var í eigu Girona Football Group undir stjórn Pere Guardiola, bróður knattspyrnustjórans Pep Guardiola. Snemma á þessu fyrsta tímabili í La Liga tókst Girona að vinna eftirminnilegan 2:1 sigur á Evrópumeisturum Real Madrid. Girona lauk keppni í 10. sæti vorið 2018. Ekki tókst að fylgja þeim árangri eftir og vorið 2019 féll liðið aftur niður í næstefstu deild.

Snúið aftur með látum

[breyta | breyta frumkóða]

Úrúgvæski leikmaðurinn Cristhian Stuani var í lykilhlutverki hjá Girona í La Liga og fylgdi félaginu niður í 2. deild. Þar hélt hann áfram að raða inn mörkum og átti stóran þátt í að liðinu tókst að komast upp á nýjan leik í gegnum umspil vorið 2022. Leiktíðina 2022-23 jafnaði Girona sinn besta árangur í La Liga þegar það endaði í 10. sæti og var aðeins fjórum stigum frá því að komast í Evrópukeppni í fyrsta sinn. Tímabilið eftir náði liðið að hreppa 3. sæti deildarinnar.

Heimasíða Félags

[breyta | breyta frumkóða]