Fara í innihald

Fagurskinna

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Fagurskinna eða Noregs konunga tal er konungasaga sem fjallar um Noregskonunga frá Hálfdani svarta (um 850) fram til 1177, þegar Sverrir Sigurðarson kom til sögunnar. Sagan er talin skrifuð á árabilinu 1220–1230.

Fagurskinna var varðveitt í tveimur skinnhandritum í Háskólabókasafninu í Kaupmannahöfn, sem brunnu 1728. Textinn er þó varðveittur því að þrjú eftirrit höfðu verið gerð eftir hvoru handriti. Skinnhandritin voru að vísu bæði óheil, og þó að þau séu lögð saman eru tvær eyður í sögunni. Hún er því ekki varðveitt í heild. Þormóður Torfason sagnaritari konungs, fékk handritin lánuð til Noregs um 1680 og notaði þau við ritun Noregs-sögu sinnar. Honum þótti annað handritið (A-handritið) svo fallegt eða í svo fögru bandi, að hann gaf því nafnið Fagurskinna. Það nafn hefur svo færst yfir á sögutextann sem í því var. Þetta handrit mun hafa verið frá því um 1325–1350. Hitt handritið (B-handritið) var frá því um 1250, og svo vel vill til að í Ríkisskjalasafni Noregs fannst um 1845 blaðhluti úr því, sem gefur góða hugmynd um aldur og útlit bókarinnar.

Bjarni Aðalbjarnarson (1937, 235) telur ekki fullvíst að Snorri Sturluson hafi notað Fagurskinnu þegar hann samdi Heimskringlu, en vísbendingar eru um það. Bæði ritin fjalla um svipað tímabil í sögu Noregs, frá því um 850 til 1177. Þau eru mun ítarlegri en Ágrip af Noregskonunga sögum, sem er eldra rit. Fagurskinna vitnar mikið til dróttkvæða og notar þau sem heimild. Sumar vísurnar eru ekki varðveittar annars staðar og væru því glataðar ef sagan væri ekki til, svo sem vísur úr Haraldskvæði og Eiríksmálum.

Norski sagnfræðingurinn Peter Andreas Munch ritar formála fyrir útgáfunni 1847, og nefnir þar nokkur atriði sem Fagurskinna hefur umfram Heimskringlu og aðrar konungasögur:

  1. Um hjónaband Hálfdanar svarta og Helgu Dagsdóttur. (Var aðeins í A-handritinu).
  2. Kvæði Þorbjarnar hornklofa um Harald hárfagra (Haraldskvæði).
  3. Frásögnin um Rögnu Aðilsdóttur. (Var aðeins í A-handritinu).
  4. Upphaf kvæðisins Eiríksmála.
  5. Arnmæðlingatal, eða niðjatal Arnmóðs jarls. (Var aðeins í B-handritinu).

Eftirtaldar frásagnir eru á einhvern hátt öðru vísi en í öðrum konungasögum:

  1. Frásögnin um Hákon góða.
  2. Frásögnin um deilur Haralds gráfeldar og Eyvindar skáldaspillis.
  3. Frásögnin um Hákon jarl og Harald blátönn.
  4. Frásögnin um Jómsvíkinga.
  5. Auk þess má nefna ýmis smærri atriði, til dæmis að höfuð Hálfdanar svarta hafi verið grafið í Skíringssal; um Atla jarl, og fleira.

Fagurskinna fer frekar hratt yfir sögu, en leggur áherslu á mikilvægar orrustur, svo sem orrustuna í Hjörungavogi, þar sem Hákon jarl kom í veg fyrir að danskur innrásarfloti næði að leggja undir sig Noreg, og Svoldrarorrustu, þar sem Ólafur Tryggvason féll í sjóorrustu við Svein tjúguskegg Danakonung, sem naut stuðnings Eiríks Hákonarsonar jarls og Ólafs sænska Svíakonungs.

Fræðimenn telja að Fagurskinna hafi verið skrifuð í Noregi, líklega í Niðarósi, en óvíst er hvort Íslendingur eða Norðmaður var að verki. Bókin gæti hafa verið tekin saman fyrir Hákon Hákonarson, því að hún er mjög konungholl og sleppir flestu því sem varpað gæti skugga á konungana. Þegar Hákon lá fyrir dauðanum í Orkneyjum haustið 1263 lét hann lesa fyrir sig latínubækur, en entist ekki til að hlutsta á þær. Þá voru lesnar fyrir hann heilagra manna sögur á norrænu, síðan Noregs konunga tal (Fagurskinna), og loks Sverris saga, og lést hann um það bil sem sögunni var lokið.

Þýðingar
  • Alison Finlay (þýð.): Fagrskinna: A Catalogue of the Kings of Norway. Leiden: Brill Academic Publishers 2004, 334 s. ISBN 90-04-13172-8 — Aðallega byggð á útgáfu Bjarna Einarssonar, 1984.
  • Johan Schreiner (þýð.): Fagrskinna, en norsk kongesaga, Oslo 1926, 10+182 s. (aðeins fyrri hluti ritsins). — Önnur útgáfa, myndskreytt, Oslo 1972, 197 s. Gefin út í tilefni af því að liðin voru 1100 ár frá því að Noregur sameinaðist í eitt ríki.
  • Bjarni Aðalbjarnarson: Om de Norske Kongers Sagaer, Oslo 1937, 173–236. — Doktorsrit, ein besta greinargerð um efnið.
  • Kolbrún Haraldsdóttir: „Fagrskinna.“ Reallexikon der Germanischen Altertumskunde, Band 8. Berlin 1994. 142–151. ISBN 3-11-016858-8
  • H. Ehrhardt: „Fagrskinna.“ Lexikon des Mittelalters, Band 4. München. Zürich 1989.
  • Alfred Jakobsen og Jan Ragnar Hagland: Fagrskinna-studier. Trondheim 1980. ISBN 82-519-0366-1
  • Alfred Jakobsen: „Om Fagrskinna-forfatteren.“ Arkiv för nordisk filologi 85 (1970), 88–124.
  • Eyvind Fjeld Halvorsen: „Fagrskinna.“ Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder IV, 139–140. København 1959.
  • Gustav Indrebø: Fagrskinna, Kristiania 1917, 301 s. — Avhandlinger fra Universitetets historiske seminar, 4.
  • Gustav Storm: „Om indskuddene i Fagrskinna“, Christiania 1875, 28 s. — Sérprent úr Christiania videnskabs-selskabs forhandlinger.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Fagrskinna“ á norsku útgáfu Wikipedia. Sótt 7. ágúst 2011.