Eggtempera

Eggtempera eða einfaldlega tempera er hraðþornandi vatnsleysanleg málning sem er gerð úr litadufti sem er hrært saman við bindiefni úr eggjarauðu. Stundum er ediki bætt við í litlu magni til að auka endingu litarins. Temperalitir mynda þunna hálfgagnsæja filmu og hægt er að mála hárfínar línur með þeim. Algeng aðferð við skyggingar með eggtempera er að nota skástrik eða krossstrik. Temperalitir þorna hratt og mynda matta áferð. Temperalitir hafa ekki sömu djúpu fyllingu og olíulitir hafa og líkjast meira pastellitum. Á móti kemur að temperalitir eru mjög endingargóðir eftir að þeir þorna og breytast ekki með tímanum[1] ólíkt olíulitum sem dökkna þegar þeir eldast.
Til eru dæmi um eggtemperaliti frá Egyptalandi hinu forna og andlitsmyndir sem málaðar voru á Fayum-múmíurnar frá 1. öld voru stundum gerðar með temperu, auk vaxmálningar. Eggtempera var líka notuð í veggmyndir, eins og í Dura-Europos-samkomuhúsinu frá 3. öld.[2] Í Austrómverska ríkinu og á tímum Endurreisnarinnar í Evrópu var þetta helsta aðferðin í málaralist, við gerð lýsinga í handritum, altaristafla og íkona. Á 15. öld tóku ítalskir myndlistarmenn að nota olíuliti, sem bárust til Evrópu frá Afganistan á miðöldum. Til eru málverk eftir Leonardo da Vinci og Michelangelo gerð úr blöndu eggtemperalita og olíulita. Eftir það var að mestu hætt að notast við eggtemperu í myndlist á Vesturlöndum, en aðferðin lifði áfram í íkonagerð í Rétttrúnaðarkirkjunni.[3]
Svipaðar vatnsleysanlegar málningartegundir sem notast við annað bindiefni en eggjarauðu (og eru stundum kallaðar tempera) eru gvass, límlitir og þekjulitir.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Mayer, Ralph (1985). The Artist's Handbook of Materials and Techniques (4. útgáfa). New York: Viking Penguin Inc. bls. 215.
- ↑ Johnson, J. (1940). „Excavations at Dura-Europos, Seasons 1933-34 and 1934-35 (Rostovtzeff, Brown, Welles)“. Classical World. 34: 293–295.
- ↑ Schadler, K. (2017). „History of egg tempera painting“ (PDF). Kooschadler.com.