Fara í innihald

Alternativet

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Valkosturinn
Alternativet
Leiðtogi Franciska Rosenkilde
Formaður Bente Holm Villadsen
Þingflokksformaður Torsten Gejl
Stofnár 27. nóvember 2013; fyrir 10 árum (2013-11-27)
Félagatal 2.998 (2020)[1]
Stjórnmálaleg
hugmyndafræði
Græn stjórnmál, Evrópusamvinna
Einkennislitur Ljósgrænn  
Sæti á þjóðþinginu
Listabókstafur Å
Vefsíða alternativet.dk/

Alternativet (íslenska: Valkosturinn) er danskur stjórnmálaflokkur sem stofnaður var árið 2013. Flokkurinn hafnar að mestu hefðbundinni skiptingu stjórnmála í hægri og vinstri en leggur áherslu á umhverfismál og kröfuna um bætta stjórnmálamenningu. Alternativet náði góðum árangri í sínum fyrstu þingkosningum en síðan tók að halla undan fæti, m.a. vegna innanflokksátaka. Flokkurinn hefur listabókstafinn Å.

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]

Uffe Elbæk, fyrrum menningarmálaráðherra Danmerkur sagði skilið við Radikale venstre árið 2013 og stofnaði Alternativet. Markmiðið var að stofna hreyfingu sem gæti beitt sér fyrir róttækum aðgerðum á sviði umhverfismála, einkum loftslagsmála. Elbæk og félagar töldu líka að hefðbundnir stjórnmálaflokkar svöruðu ekki kalli tímans. Þess í stað var ætlun þeirra að bylta stjórnmálamenningunni og nýta leiðir á borð við samfélagsmiðla til að móta stefnuskrá.

Flokkurinn hefur frá upphafi lagt áherslu á frumlegar lausnir við rekstur samfélagsins, til dæmis með upptöku borgaralauna, róttækri styttingu vinnuvikunnar og hugmyndum um að afleggja tekjuskatt en skattleggja þess í stað fjármagnsflutninga. Í sínum fyrstu kosningum árið 2015 hlaut flokkurinn 4,8% sem gaf níu þingmenn og taldist einn af ótvíræðum sigurvegurum kosninganna. Sveitarstjórnarkosningar tveimur árum síðar skiluðu flokknum sömuleiðis góðri niðurstöðu, tuttugu sveitarstjórnarfulltrúum, þar af borgarstjóra í Fanø og fagborgarstjóra í Kaupmannahöfn.

Ekki tókst að fylgja eftir þessari góðu byrjun í þingkosningunum 2019. Flokkurinn missti fjögur af níu þingsætum sínum og skömmu síðar lýsti Elbæk því yfir að hann hyggðist láta af formennsku. Mikil átök urðu um formannsembættið sem lauk með því að Josephine Fock, fyrrum þingmaður flokksins sem horfið hafði til annarra starfa, var kjörin formaður. Í deilunum sem á eftir fylgdu sögðu fjórir af fimm fulltrúum sig úr þingflokknum og á árinu 2020 stóð Uffe Elbæk að stofnun nýs flokks, Frie Grønne.

Í febrúar 2021 tók Franciska Rosenkilde borgarstjóri menningarmála í Kaupmannahöfn við formennsku í Alternativet.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Nye Borgerlige har nu flest medlemmer næstefter S og V. Grein á kristeligt-dagblad.dk 16. febrúar 2021.