Brasilíska karlalandsliðið í knattspyrnu
Gælunafn | Seleção (Landsliðið), Canarinha (Litli kanarýfuglinn), Verde-Amarela (Þeir grænu og gulu), Esquadrão de Ouro (Gullna liðið) | ||
---|---|---|---|
Íþróttasamband | Confederação Brasileira de Futebol (Samband Brasilískrar knattspyrnu) | ||
Álfusamband | CONMEBOL | ||
Þjálfari | Tite | ||
Fyrirliði | Thiago Silva | ||
Leikvangur | Breytilegir | ||
FIFA sæti Hæst Lægst | 5 (28. nóvember 2024) 1 (8 sinnum) 22 (júní 2014) | ||
| |||
Fyrsti landsleikur | |||
0-3 gegn Argentínu 20. desember 1914 | |||
Stærsti sigur | |||
14–0 gegn Nígaragúa 17. október 1975 | |||
Mesta tap | |||
1-7 gegn Þýskalandi 8. júlí 2014 | |||
Heimsmeistaramót | |||
Keppnir | 21 (fyrst árið 1930) | ||
Besti árangur | Heimsmeistarar (1958, 1962, 1970, 1994, 2002) | ||
Copa America | |||
Keppnir | 36 (fyrst árið 1916) | ||
Besti árangur | Meistarar (1919, 1922, 1949, 1989, 1997, 1999, 2004, 2007, 2019) |
Brasilíska karlalandsliðið í knattspyrnu er landslið Brasilíu í knattspyrnu. Því er stjórnað af Brasilíska knattspyrnusambandinu. Brasilíska knattspyrnusambandið var stofnað árið 1919 og landið gekk til liðs við FIFA árið 1923. Brasilía hefur tekið þátt í öllum 20 úrslitum heimsmeistarakeppninnar. Brasilía hefur orðið heimsmeistari oftast allra þjóða eða alls 5 sinnum.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Fyrsta óopinbera landslið brasilískrar knattspyrnusögu mun hafa verið úrvalslið leikmanna frá Rio de Janeiro og São Paulo sem mætti enska liðinu Exeter City í Suður-Ameríkuferð þeirra síðarnefndu árið 1914. Heimildum ber ekki saman um úrslit leiksins. Síðar sama ár lék brasilískt landslið sinn fyrsta formlega landsleik í 3:0 tapi gegn Argentínu. Tveimur árum síðar tók Brasilía þátt í fyrstu Suður-Ameríkukeppninni en tókst ekki að vinna leik.
Næstu þrjá áratugina stóðu Brasilíumenn rækilega í skugganum á grönnum sínum í Argentínu og Úrúgvæ. Frá 1916 til 1947, í tuttugu keppnum, fóru Brasilíumenn einungis tvisvar með sigur af hólmi - í bæði skiptin á heimavelli - árin 1919 og 1922, þar sem Arthur Friedenreich var í broddi fylkingar.
Fyrstu heimsmeistaramótin
[breyta | breyta frumkóða]Brasilía er eina landið sem keppt hefur í öllum úrslitakeppnum HM frá upphafi. Liðið þreytti frumraun sína á HM í Úrúgvæ 1930 en tapaði fyrir Júgóslavíu í riðlakeppninni og komst ekki í undanúrslit.
Fjórum árum síðar, á Ítalíu, töpuðu Brasilíumenn fyrsta leik, gegn Spánverjum og þurftu að snúa heim á leið. Mark þeirra gegn spænska liðinu skoraði þeldökki framherjinn Leônidas. Sá varð stjarna HM í Frakklandi 1938, þar sem hann vakti sérstaka athygli fyrir hjólhestaspyrnur sínar. Leônidas skoraði þrennu í sigurleik gegn Pólverjum í fyrsta leik og bætti við tveimur mörkum í jafnmörgum viðureignum gegn Tékkóslóvakíu í fjórðungsúrslitum. Hann meiddist í leikjunum gegn Tékkum og var því hvíldur í tapleik gegn heimamönnum í undanúrslitum, þar sem sá kvittur fór á kreik að Brasilíumenn hefðu verið svo sigurvissir að ákveðið hefði verið að hvíla Leônidas fyrir úrslitin. Í bronsleiknum skoraði Leônidas tvívegis og varð markakóngur með sjö mörk. Brasilía mátti sætta sig við þriðja sætið, en landslið þeirra var rækilega komið á kortið sem eitt það öflugasta í heimi, en seinni heimsstyrjöldin átti þó eftir að riðla allri alþjóðakeppni í knattspyrnu næstu árin.
Væntingar og vonbrigði
[breyta | breyta frumkóða]Brasilíumönnum var úthlutað HM 1950. Evrópa var í sárum eftir síðari heimsstyrjöldina og áttu jafnvel erfitt með að fjármagna ferðalagið til Suður-Ameríku. Brasilíumenn mættu því til leiks fullir bjartsýni eftir að hafa orðið Suður-Ameríkumeistarar 1949, enn og aftur á heimavelli en með miklum yfirburðum. Fyrir heimsmeistarakeppnina var reistur stærsti knattspyrnuvöllur í heimi, Maracanã í Ríó.
Brasilíumenn fóru taplausir í gegnum riðlakeppnina og dró ekki úr bjartsýni þeirra að Englendingum, sem tóku þátt í sínu fyrsta heimsmeistaramóti, mistókst að komast í fjögurra liða úrslitariðilinn. Þar unnu Brasilíumenn tvo fyrstu leikina með miklum mun og dugði því jafntefli gegn Úrúgvæ í lokaleiknum. Til marks um sigurgleðina hafði liðið stillt sér upp til myndatöku fyrir úrslitaleikinn og birti brasilískt dagblað myndina undir yfirskriftinni: „Heimsmeistarar!“ Áfallið varð því mikið þegar grannarnir úr suðrinu breyttu stöðunni úr 0:1 í 2:1 sér í vil og hömpuðu heimsmeistaratitlinum. Áfallið á Maracanã markaði djúp spor í brasilíska þjóðarsál.
Fjórum árum síðar, á HM í Sviss 1954, mættu Brasilíumenn til leiks í nýjum búningum: gulum, grænum og bláum í stað hvítu búninganna sem þjóðin tengdi við ósigurinn á heimavelli. Brasilíumenn komust nokkuð þægilega upp úr riðlakeppninni en mættu í fjórðungsúrslitunum Ungverjum sem almennt voru taldir sigurstranglegasta lið keppninnar. Eftirvænting knattspyrnuáhugamanna var mikil en hún snerist upp í vonbrigði þegar leikurinn, sem fram fór í Bern, reyndist óhemjugrófur. Þrír leikmenn voru reknir af velli í viðureign sem lauk með 4:2 sigri Ungverja og eftir að flautað var til leiksloka flugust liðin á í búningsklefunum. Brasilíumenn máttu enn bíða eftir heimsmeistaratitlinum en orðspor þeirra fór þó jafnt og þétt vaxandi.
Fyrsti heimsmeistaratitillinn
[breyta | breyta frumkóða]Vicente Feola tók við stjórn brasilíska landsliðsins í aðdraganda HM 1958 sem fram fór í Svíþjóð. Hann tók undirbúninginn föstum tökum og setti leikmönnum fjöldan allan af reglum sem þeim var ætlað að fylgja utan vallar, þótt honum væri legið á hálsi fyrir að skipta sér minna af því sem gerðist í leikjunum sjálfum og láta jafnvel reynsluboltana í liðinu um stjórnina. Liðið hafði á að skipa íþróttasálfræðingi og njósnarar voru sendir til að fylgjast með mögulegum mótherjum í Evrópuforkeppni HM.
Brasilíumenn lendu í erfiðasta riðlinum í úrslitakeppninni. Austurríkismenn voru lagðir að velli í fyrsta leik, 3:0. Því næst gerðu Brasilía og England markalaust jafntefli. Í hvorugum leikjanna komu ungstirnið Pelé og Garrincha við sögu. Þeir fengu hins vegar tækifærið á móti Sovétmönnum í lokaleiknum, eftir að lykilmenn liðsins gengu á fund þjálfarans og þrýstu á um það. Brasilíumenn unnu 2:0 og náðu loksins að sýna sínar bestu hliðar.
Í fjórðungsúrslitum mættu Brasilíumenn Walesverjum sem höfðu þurft að keppa aukaleik aðeins tveimur dögum fyrr. Pelé skoraði eina mark leiksins og sitt fyrsta í keppninni. Í undanúrslitunum skoraði táningurinn hins vegar þrennu í 5:2 sigri á Frökkum. Í úrslitunum voru svo heimamenn lagðir að velli, einnig 5:2, með tveimur mörkum frá Pelé og Vavá og einu frá Mário Zagallo.
Titillinn varinn
[breyta | breyta frumkóða]Brasilíumenn mættu til leiks sem langsigurstranglegasta liðið á HM 1962 sem fram fór í Suður-Ameríkulandinu Síle. Brasilíumenn unnu sinn riðil án mikilla vandræða, en gerðu dýrkeypt markalaust jafntefli í öðrum leik gegn Tékkóslóvakíu þar sem Pelé meiddist og kom lítið við sögu það sem eftir var keppninnar.
Í fjarveru Pelé tók Garrincha við keflinu og var óumdeild stjarna keppninnar. Hann skoraði tvö mörk í 3:1 sigri á Englendingum í fjórðungsúrslitum og endurtók leikinn í 4:2 sigri á heimamönnum í undanúrslitum. Brasilía og Tékkóslóvakía mættust öðru sinni í keppninni í úrslitaleiknum þar sem Tékkar náðu forystunni en Brasilía svaraði með þremur mörkum og varði þar með titilinn.
Brasilíska þjóðin gerði sér vonir um að vinna þriðja skiptið í röð árið 1966 þegar keppnin var haldin á Englandi. Mótið byrjaði vel þar sem Pelé og Garrincha skoruðu hvor sitt markið í 2:0 sigri á Búlgörum. Gamanið tók að kárna í næstu tveimur leikjum. Stjórnarmenn í brasilíska knattspyrnusambandinu höfðu hlutast í valið á landsliðinu til að tryggja að helstu félagslið ættu þar öll sína fulltrúa. Undirbúningnum var ábótavant og harður leikstíll evrópsku liðanna virtist koma Brasilíumönnum í opna skjöldu. Pelé meiddist í upphafsleiknum og var því fjarri góðu gamni í 3:1 tapleik gegn Ungverjum og þurfti að fara meiddur af velli í lokaleiknum gegn spútnikliði Portúgals með Eusébio í broddi fylkingar sem einnig lauk með 3:1 tapi.
Besta lið allra tíma?
[breyta | breyta frumkóða]Herforingjastjórnin sem var við völd í Brasilíu tók fram fyrir hendurnar á knattspyrnusambandinu í aðdraganda HM í Mexíkó 1970. Vinstrimaðurinn João Saldanha, sem mótað hafði sókndjarft en líkamlega sterkt landslið var látinn víka fyrir gömlu kepmpunni Mário Zagallo sem þjálfari. Zagallo hélt þó sama striki og forveri sinn og fyllti liðið af framherjum og sókndjörfum miðjumönnum. Útkoman var lið sem heillaði heimsbyggðina.
Brasilíumenn unnu alla sína leiki í keppninni, þar á meðal ríkjandi heimsmeistara Englendinga í riðlakeppninni. Suður-Ameríkuliðin Perú og Úrúgvæ voru lögð í fjórðungs- og undanúrslitum en í úrslitaleiknum unnu Brasilíumenn sterkt lið Ítala 4:1 á sérlega sannfærandi hátt. Brasilía tryggði sér þar með Jules Rimet-verðlaunastyttuna til eignar. Oft er talað um sigurliðið 1970 sem það besta í sögu keppninnar og naut liðið þar vafalaust góðs af því að gervihnattatæknin var komin til sögunnar og beinar útsendingar frá leikjum voru aðgengilegar mun víðar en áður hafði þekkst.
Hallar undan fæti
[breyta | breyta frumkóða]Péle lagði skóna á hilluna með landsliðinu eftir HM 1970 og þrátt fyrir mikinn þrýsting frá æðstu stöðum um að snúa aftur fyrir HM 1974 lét hann sig ekki. Brasilíumenn mættu til leiks í Vestur-Þýskalandi með varnarsinnaðra lið en áður hafði sést. Þeir reyndust lítil fyrirstaða fyrir Hollendinga sem heilluðu knattspyrnuheiminn með frjálsu spili sínu og töpuðu að lokum í bronsleiknum fyrir Pólverjum.
Fjórum árum síðar, í Argentínu 1978, höfnuðu Brasilíumenn í þriðja sætinu en ollu þó sér og stuðningsmönnum sínum vonbrigðum. Ýmsar samsæriskenningar fóru á flug í Brasilíu þess efnis að gestgjafarnir hefðu með ýmsum hætti reynt að leggja stein í götu brasilíska liðsins, svo sem með því að láta það spila á glænýjum og grjóthörðum leikvangi í riðlakeppninni, ýmsir dómar féllu Brasilíu í óhag og síðast en ekki síst þótti stórsigur Argentínu á Perú í lokaumferð milliriðla grunsamlegur, en með honum komst argentínska liðið í úrslitaleikinn. Hvað sem slíkum vangaveltum leið bar flestum saman um að HM-lið Brasilíu árin 1974 og 1978 hafi staðið meistaraliðum fyrri ára langt að baki.
Óskaliðið sem ekki vann
[breyta | breyta frumkóða]Brasilía var talin sigurstranglegust á HM á Spáni 1982 með Zico og Sócrates í broddi fylkingar. Liðið lék blússandi sóknarbolta, vann alla leiki sína í forriðlinum og skellti heimsmeisturum Argentínu í milliriðli. Jafntefli gegn Ítölum í næsta leik hefði komið þeim í undanúrslitin en þrenna frá Paolo Rossi gerði það að verkum að liðið tapaði 3:2. Brasilíska liðið frá 1982 er oft nefnt í hópi sterkustu liða sem ekki náðu að hampa heimsmeistaratitlinum.
Í Mexíkó fjórum árum síðar mætti brasilíska liðið aftur nokkuð sigurvisst til keppni, en lykilmenn voru orðnir eldri og Sócrates átti við að glíma erfið meiðsli. Brasilíumenn unnu fjóra fyrstu leiki sína í keppninni án þess að fá á sig mark, en í fjórðungsúrslitum mættu þeir Evrópumeisturum Frakka. Grípa þurfti til vítaspyrnukeppni þar Frakkar höfðu betur.
Árið 1989 urðu Brasilíumenn Suður-Ameríkumeistarar í fjórða sinn. Líkt og í fyrri þrjú skiptin gerðist það á heimavelli eftir 1:0 sigur á Úrúgvæ í lokaleik með marki frá Romário.
Fjórði heimsmeistaratitillinn
[breyta | breyta frumkóða]Brasilíumenn stóðu ekki undir væntingum á HM 1990 sem fram fór á Ítalíu. Eftir að hafa unnið alla leiki sína í riðlakeppninni með eins marks mun féll liðið úr leik fyrir erkifjendunum í Argentínu, 1:0. Brasilíska liðið þótti varnarsinnað með Dunga í lykilhlutverki og skoraði ekki nema fjögur mörk í leikjunum fjórum. Knattspyrnuáhugamenn í Brasilíu voru margir ósáttir við þessa nálgun sem þeir töldu ganga gegn gildum landsliðsins.
Fjórum árum síðar beitti þjálfarinn Carlos Alberto Parreira sömu leikaðferð, með enn betri árangri á HM í Bandaríkjunum. Auk Dunga voru þeir Romário og Bebeto í eldlínunni í liði sem lék fyrst og fremst agaða vörn og beitti skyndisóknum. Þrúgandi hiti einkenndi keppnina en Brasilíumenn unnu sinn riðil vandræðalítið. Þeir máttu hafa mikið fyrir að landa sigri á heimamönnum í 16-liða úrslitum og 3:2 sigur þeirra á Hollendingum í fjórðungsúrslitum var einhver æsilegasta viðureign keppninnar. Svíar voru lagðir að velli í undanúrslitum og í úrslitaleiknum urðu Brasilíumenn fyrsta liðið til að lyfta heimsmeistarastyttunni eftir að hafa sigrað í vítaspyrnukeppni, þar sem Roberto Baggio misnotaði spyrnu fyrir Ítali.
Þremur árum síðar urðu Brasilíumenn fyrsta liðið í sögunni til að vera heimsmeistarar og Suður-Ameríkumeistarar á sama tíma, þegar liðið fór með sigur af hólmi í Copa America 1997 í Bólivíu. Það var einnig í fyrsta sinn sem Brasilíu tókst að vinna keppnina utan heimalands síns.
Samsæri í París?
[breyta | breyta frumkóða]Brasilíumenn voru að margra áliti líklegir til að verja titil sinn á HM í Frakklandi 1998. Þrátt fyrir tap gegn Norðmönnum, sem aldrei hafa lotið í lægra haldi fyrir Brasilíu - einir liða, tókt heimsmeisturunum að vinna sinn riðil. Við tóku sigurleikir gegn Síle og Danmörku. Grípa þurfti til vítaspyrnukeppni í undanúrslitunum þar sem Brasilía hafði betur gegn Hollandi.
Fyrir úrslitaleikinn hafði Ronaldo, sem almennt var álitinn besti og frægasti leikmaður heims, staðið sig með prýði og skorað fjögur mörk. Fyrir úrslitaleikinn gegn heimamönnum Frakka fékk hann flog, sem þó var haldið rækilega leyndu fyrir blaðamönnum og varð í kjölfarið mikil reikistefna um hvort hann myndi fá að spila leikinn. Að lokum varð úr að Ronaldo var í byrjunarliðinu, en var skugginn af sjálfum sér og Frakkar unnu sannfærandi 3:0 sigur. Eftir keppnina fór á flug þrálátur orðrómur um að þrýstingur frá sportvörufyrirtækinu Nike hafi orðið til þess að knattspyrnusambandið hafi skipað fyrir um að Ronaldo yrði að spila leikinn.
Brasilíumenn gátu huggað sig við að árið eftir tókst þeim að verja Suður-Ameríkutitil sinn í fyrsta sinn en keppt var í Paragvæ.
Meistarar í Asíu
[breyta | breyta frumkóða]Brasilíumenn mættu til leiks á HM 2002 í Japan og Suður-Kóreu með R-in þrjú í broddi fylkingar: Ronaldo, Rivaldo og Ronaldinho. Rivaldo bakaði sér óvinsældir í sigurleik gegn Tyrkjum í fyrstu umferð þegar hann henti sér í jörðina og hélt um andlit sér þegar sjónvarpsupptökur leiddu í ljós að bolta hafði verið spyrnt í fætur hans. Brasilía lauk riðlakeppninni á fullu húsi stiga.
Í 16-liða úrslitum voru Belgar slegnir úr keppni og Englendingar í fjórðungsúrslitum. Brasilía og Tyrkland mættust á nýjan leik í undanúrslitum þar sem mark frá Ronaldo skildi á milli. Hann skoraði svo bæði mörkin í úrslitunum gegn Þjóðverjum og endaði sem markakóngur með átta mörk.
Brasilíumenn urðu Suður-Ameríkumeistarar árin 2004 og 2007 og höfðu þar með sigrað á fjórum af síðustu fimm álfukeppnum, eftir að hafa unnið jafnoft í 37 tilraunum þar á undan.
Martröð á heimavelli
[breyta | breyta frumkóða]Ronaldo setti nýtt met yfir mörk skoruð í úrslitakeppni HM, fimmtán alls, í mótinu í Þýskalandi 2006. Eftir sigra í fjórum fyrstu leikjunum féll liðið úr keppni í fjórðungsúrslitum gegn Frökkum. Svipað gerðist í Suður-Afríku 2010 þar sem Brasilía tapaði ekki leik fyrr en gegn Hollendingum í fjórðungsúrslitunum.
Brasilíska knattspyrnusambandið lagði höfuðáherslu á að endurheimta heimsmeistaratitilinn á heimavelli 2014. Miklu var til kostað í uppbyggingu leikvanga og lögðu knattspyrnuáhugamenn mikið traust á að Neymar myndi leiða liðið til sigurs. Neymar skoraði tvívegis í 3:1 sigri í opnunarleiknum gegn Króatíu. Brasilíumenn þóttu ósannfærandi gegn Mexíkó í markalausu jafntefli en unnu svo Kamerún af öryggi í lokaleik riðilsins.
Sílemenn þjörmuðu rækilega að brasilíska liðinu í 16-liða úrslitum en heimamenn komust þó áfram eftir vítaspyrnukeppni. Í fjórðungsúrslitum vann Brasilía 2:1 sigur á Kólumbíu, en þar reið ógæfan yfir þegar Neymar meiddist og gat ekki tekið meiri þátt í keppninni. Áfallið sló brasilíska liðið fullkomlega út af laginu og það hrundi eins og spilaborg gegn Þjóðverjum í undanúrslitum. Eftir hálftíma leik var staðan orðin 5:0 fyrir þýska liðinu sem bætti svo tveimur mörkum við áður en Brasilía náði að klóra í bakkann með marki á lokamínútunni. 7:1 ósigurinn var stærsta tap í sögu landsliðsins og skildi þjóðina eftir í hálfgerðu losti. Til að bíta höfuðið af skömminni tapaði liðið bronsleiknum gegn Portúgal með þremur mörkum gegn engu.
Eftirbátar Evrópubúa
[breyta | breyta frumkóða]Árið 2018 fór HM fram í Rússlandi. Líkt og endranær átti Brasilía ekki í vandræðum með að komast upp úr riðlakeppninni og í 16-liða úrslitum sló liðið Mexíkó úr keppni. Í fjórðungsúrslitum reyndust Belgar hins vegar ofjarlar þeirra.
Eftir að hafa mistekist að komast í undanúrslit þriggja síðustu Suður-Ameríkukeppna tókst Brasilíumönnum að fara alla leið á heimavelli 2019. Þetta var níundi álfumeistaratitill landsins frá upphafi.
Brasilía var í efsta sæti heimslistans þegar dregið var í riðla fyrir HM í Katar árið 2022. Brasilíska liðið nældi sér í toppsæti síns riðils þrátt fyrir óvænt tap gegn Kamerún í lokaleiknum. Fjögur brasilísk mörk í fyrri hálfleik dugðu til að kafsigla Suður-Kóreu í 16-liða úrslitum og Brasilíumenn virtust til alls líklegir með Neymar í góðu formi.
Í fjórðungsúrslitum mættust stálin stinn, Brasilía og Króatía. Eftir markalausan venjulegan leiktíma skoraði hvort liðið sitt markið í framlengingu. Grípa þurfti til vítaspyrnukeppni og þar unnu Króatar 4:2.
Keppnir
[breyta | breyta frumkóða]Ár | Gestgjafar | Árangur |
---|---|---|
1916 | Argentína | Brons |
1917 | Úrúgvæ | Brons |
1919 | Brasilía | Gull |
1920 | Síle | Brons |
1921 | Argentína | Silfur |
1922 | Argentína | Gull |
1923 | Úrúgvæ | 4. sæti |
1924 | Úrúgvæ | Tók ekki þátt |
1925 | Argentína | Silfur |
1926 | Síle | Tók ekki þátt |
1927 | Perú | Tók ekki þátt |
1929 | Argentína | Tók ekki þátt |
1935 | Perú | Tók ekki þátt |
1937 | Argentína | Silfur |
1941 | Síle | Tók ekki þátt |
1942 | Úrúgvæ | Brons |
1945 | Síle | Silfur |
1946 | Argentína | Silfur |
1947 | Ekvador | Tók ekki þátt |
1949 | Ekvador | Gull |
1953 | Úrúgvæ | Silfur |
1955 | Úrúgvæ | Tók ekki þátt |
1956 | Úrúgvæ | 4. sæti |
1957 | Perú | Silfur |
1959(a) | Argentína | Silfur |
1959(b) | Ekvador | Brons |
1963 | Bólivía | 4. sæti |
1967 | Úrúgvæ | Tók ekki þátt |
1975 | Suður Ameríkal | Brons |
1979 | Suður Ameríka | Brons |
1983 | Suður Ameríka | Silfur |
1987 | Síle | Riðlakeppni |
1989 | Brasilía | Gull |
1991 | Síle | Silfur |
1993 | Ekvador | 8. liða úrslit |
1995 | Úrúgvæ | Silfur |
1997 | Bólivía | Gull |
1999 | Paragvæ | Gull |
2001 | Perú | 8. liða úrslit |
2004 | Venesúela | Gull |
2007 | Argentína | Gull |
2011 | Síle | 8. liða úrslit |
2015 | Bandaríkin | 8. liða úrslit |
2016 | Brasilía | Riðlakeppni |
2019 | Brasilía | Gull |
2021 | Brasilía | Silfur |
Ár | Gestgjafar | Árangur |
---|---|---|
1930 | Úrúgvæ | Riðlakeppni |
1934 | Ítalía | 16. liða úrslit |
1938 | Frakkland | Brons |
1950 | Brasilía | Silfur |
1954 | Sviss | 8. liða úrslit |
1958 | Svíþjóð | Gull |
1962 | Síle | Gull |
1966 | England | Riðlakeppni |
1970 | Mexíkó | Gull |
1974 | Þýskaland | 4. sæti |
1978 | Argentína | Brons |
1982 | Spánn | 2. umferð |
1986 | Mexíkó | 8. liða Úrslit |
1990 | Ítalía | 16. liða úrslit |
1994 | Bandaríkin | Gull |
1998 | Frakkland | Silfur |
2002 | Suður-Kórea & Japan | Gull |
2006 | Þýskaland | 8. liða úrslit |
2010 | Suður-Afríka | 8. liða úrslit |
2014 | Brasilía | 4. sæti |
2018 | Rússland | 8. liða úrslit |
2022 | Katar | 8. liða úrslit |
Leikmenn
[breyta | breyta frumkóða]Leikmannahópur
[breyta | breyta frumkóða]Ath: Fánar eru tákn fyrir það þjóðerni sem skráð eru hjá FIFA. Leikmenn gætu haft fleiri en eitt ríkisfang.
|
|
Flestir leikir
[breyta | breyta frumkóða]- Cafu: 142
- Neymar: 128
- Dani Alves: 126
- Roberto Carlos: 125
- Thiago Silva: 113
Flest mörk
[breyta | breyta frumkóða]Þekktir leikmenn
[breyta | breyta frumkóða]1960-70
[breyta | breyta frumkóða]1970-80
[breyta | breyta frumkóða]1980-90
[breyta | breyta frumkóða]|valign="top" width=33%|