Fara í innihald

Laugarás

Úr Wikibókunum
Laugarás í Reykjavík

Höfundur: Margrét Hugadóttir

Hvað ætli Ísland sé gamalt? Var það til á tímum risaeðlanna? Var eitthvað á Íslandi fyrir komu landnámsfólks til landsins? Var staðurinn sem þú býrð á einhvern tímann á sjávarbotni? Í þessu verkefni ættir þú að finna svör við þessum spurningum og fleira til. Í verkefninu kynnistu fornsögulegum stað í Reykjavík sem er jafngamall mannkyninu og heitir Laugarás.

Markmið: Að nemendur kynnist Reykjavík á forsögulegum tíma, að nemendur átti sig á því að landið er stöðugt í þróun og tekur sífellt breytingum, að nemendur átti sig á gildi og verðmætum sem felast í náttúruminjum í heimabyggð, að nemendur læri um jökulrof, grágrýti og sjávarstöðu við lok ísaldar. Að nemendur þjálfist í náttúrulæsi; geti greint og lesið upplýsingar úr textum og myndum.
Markhópur: Nemendur í 6.-10. bekk grunnskóla. Nemendur sem búa í nágrenni Laugaráss. Verkefnið gæti hentað vel í jarðfræðikennslu, samfélagsfræðikennslu, náttúrufræðikennslu og þemanám um heimabyggð.

Laugarás

[breyta]

Laugarás er 1,5 hektara friðað náttúruvætti á Laugarásholti í Langholtshverfi. Svæðið er 50 metra yfir sjávarmáli og er af því gott útsýni til allra átta, til fjalla og yfir höfuðborgarsvæðið. Á Laugarás, má finna jökulrispað berg (grágrýti) frá síðustu ísöld og má einnig finna ummerki um hver sjávarstaða var við lok ísaldar. Svæðið var friðað árið 1982 [1]

Myndun

[breyta]
Flekaskil og gosbelti á Íslandi

Í jarðfræðilegum skilningi er Ísland fremur ung eyja. Sólkerfið okkar, sem samanstendur af Sólinni, Merkúr, Venus, Jörðinni, Mars, Júpíter, Satúrnus, Úranusi og Neptúnusi, auk allra smástirna og tungla myndaðist fyrir 4,6 milljörðum ára, eða 4600 milljónum ára. Þó að jörðin okkar sé 4600 milljóna ára gömul er Ísland frekar ungt og staðsetning veldur landsins því að eldvirkni er mikil. Neðarlega í jarðskorpunni, fljótandi í möttlinum eru jarðflekar sem eru á hreyfingu. Ísland liggur á Miðatlantshafshryggnum þar sem Evrasíu- og Norður Ameríkuflekarnir mætast. Þeir fjarlægjast hvorn annan um 2 cm á ári því er eldvirkni mikil hér. Elsta berg sem fundist hefur á Íslandi myndaðist 44 milljónum ára eftir að talið er að risaeðlurnar hafi dáið út. Elstu hlutar landsins eru á vestfjörðum og austfjörðum og eru þeir 14-16 milljóna ára gamlir.

Landið myndaðist í ótal eldgosum, upphaflega undir sjó, svo á landi og undir jökli.

Þróun mannsins

Þegar gýs undir jökli, þá myndast móberg, en ef enginn er jökullinn getur komið margvíslegt hraun, eins og grágrýti. Grágrýti er meðal annars efniviðurinn sem notaður var í Alþingishúsið, en hann er tekinn af Skólavörðuholti, þar sem Hallgrímskirkja stendur.

Laugarás, ásamt Öskjuhlíð og eyjum í Kollafirði eins og Viðey eru grágrýtismyndanir sem urðu til þegar hraun rann frá Borgarhólum á Mosfellssheiði fyrir 200.000 árum.

Hvar ætli nýjasta berg Íslands sé?

Á sama tíma og þetta hraun rann á Íslandi voru mennirnir að stíga sín fyrstu skref. Margar mannategundir hafa verið til en eftir að maðurinn kom fram, fækkaði þeim töluvert, þar til að Homo sapiens var eina tegundin eftir.

Ísöld

[breyta]
Útbreiddur jökull á jökulskeiði ísaldar

Veðurfar virðist hafa farið kólnandi og fyrir 2,6 milljónum árum fóru jöklar að breiða úr sér. Jöklarnir dreifðu sér yfir norðurhvel. Náði ísinn langt út fyrir strandlínu Íslands. Ekki var ávallt einn heill jökull yfir norðurhveli, heldur skiptist ísöldin í hlýskeið og jökulskeið. Á þessum tíma er talið að nánast allar lífverur landsins hafi dáið, nema bakteríur, þörungar og tvær tegundir af ísaldar marflóm sem fundust nýlega á Þingvöllum og í Herðubreiðarlindum. Marflær þessar eru hvítar að lit og eru ólíkar öllu öðru lífi. Talið er að þær hafi lifað á örverum og bakteríum í uppsprettum undir ísaldarísnum. Fyrir 11.000 árum, fór aftur að hlýna og ísaldarjökullinn tók að bráðna. Almennt er sagt að ísöldinni hafi lokið fyrir 10.000 árum, en þá hafði ísinn minnkað umtalsvert, þó að enn væru jöklar allvíða.

Hversu norðarlega telur þú að menn hafi haldið til á þessum tíma?

Þegar þessi mikli ísmassi bráðnaði, hækkaði sjávarmál umtalsvert og eru sumar klappir á Laugarási, sjávarsorfnar. Talið er að á þeim tíma, hafi sjávarhæð verið 45 metrum hærri en hún er í dag, og Laugarás, hefur verið hálfgert sker sem nánast maraði í kafi. Öskjuhlíðin var eyja, enda er hún nokkrum metrum hærri en Laugarás.

Var staðurinn sem þú býrð á, á sjávarbotni þá?

Minjagildi

[breyta]

Hvaða verðmæti felast í staðnum? Fyrir íbúa í nágrenni? Fyrir þjóðina? Fyrir náttúruna? Fyrir vísindin? Fyrir jarðsöguna?

Laugarás er einstök heimild um fornsögulega tíma í Reykjavík. Svæðið er flokkað sem náttúruvætti (flokkur III) hjá Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökunum og er friðað vegna fegurðar, fágætis og vísindalegs gildis.[2] Jarðminjar svæðisins veita upplýsingar um loftlagsbreytingar og er á svæðinu einstakur holtagróður sem er á undanhaldi í þéttbýli. Svæðið er eftirsóknarvert útivistarsvæði þar sem vel sést yfir sundin, borgina og fjallasýn er mikil. Menningar- og fræðslugildi svæðisins er mikið og því kjörið að skoða verkefnin sem hér á eftir koma. Laugarásvegur og Laugarásholt dregur nafn sitt af Laugarási og eru klappirnar hjartfólgnar íbúum hverfisins.

Steðjar hætta að svæðinu? Hvað/hver gæti skemmt svæðið? Hvernig er hægt að vernda svæðið?  

Verkefni

[breyta]

Vettvangsferð: Skoðaðu klappirnar, sérðu einhverjar rákir í á þeim? Hvernig ætli þær hafi getað myndast?

Sérðu stóra steinhnullunga ofan á klöppunum? Hvernig ætli slíkir steinar ferðist?
Getur þú fundið Mosfellsheiði? En Viðey? Hvaða leið hefur hraunið runnið fyrir 200.000 árum? Hvernig ætli Kollafjörður hafi litið út fyrir 10.000 árum? En 5.000 árum? Hvernig heldur þú að hann hafi litið út þegar fyrsta landnámsfólkið kom til Ísland? Hvenær var það?

Hvaða fjöll sérðu í kringum þig? Kannaðu söguna um Esjuna, hvaðan fær hún nafn sitt? Veldu þér fjall og safnaðu upplýsingum um það eins og hæð, gróðurfar, hvaðan kom nafnið? Eru til þjóðsögur eða draugasögur tengdar fjallinu?

Verkefni: Gerðu líkan af Reykjavík, eins og hún var fyrir 10.000 árum. Gerðu líkan af Reykjavík, eins og hún er í dag, með sömu sjávarstöðu og var fyrir 10.000 árum.

Nemendastýrt nám: Veldu þér eitthvað viðfangsefni sem tengist Laugarási eða einhverju því sem wikilexían fjallaði um. Búðu til rannsóknarspurningu, sem þú ætlar að svara með verkefninu. Veldu þér afurð. Hér eru nokkrar hugmyndir að afurð. Neðst á síðunni má sjá töflu með þeim skrefum sem þú þarft að taka.

Rannsóknarspurning
Hver er tilgangurinn? Hvað ætlar þú að kanna?
Tilgáta
Hvert heldur þú að sé svarið við rannsóknarspurningunni?
Tæki og efni
Hvaða efni ætlar þú að nota?
Framkvæmd/skipulag
Hvað ætlar þú að gera?
Niðurstöður og umræður
Hver er niðurstaðan? Stóðst tilgátan?
Afurð
Þú getur gert líka, lag, myndband, málverk, hvað sem þér dettur í hug.

Kannaðu þekkingu þína

[breyta]


Heimildir og ítarefni

[breyta]

Árni Hjartarson (1980). Síðkvarteri jarðlagastaflinn í Reykjavík. Náttúrufræðingurinn. Tölublað 50: 108-117.
Ísaldar marflóin

Jökulrof í Yosemite þjóðgarði (vídeó:8:34 mín)

Úttekt á friðlýstum svæðum í Reykjavík. Laugarás.

Verkfærakista
Sigurður Steinþórsson. „Hversu gamlir eru mismunandi hlutar Íslands?“ Vísindavefurinn, 11. júlí 2000. Sótt 15. febrúar 2016.
Neðansjávarborg nálægt Japan