Samveldi sjálfstæðra ríkja

Samveldi sjálfstæðra ríkja (SSR) (rússneska: Содружество Независимых Государств (СНГ) er bandalag níu fyrrum Sovétlýðvelda: Armeníu, Aserbaísjan, Hvíta-Rússlands, Kasakstan, Kirgistan, Moldóvu, Rússlands, Tadsikistan og Úsbekistan.
Sambandið varð til við upplausn Sovétríkjanna og tilgangur þess var að auðvelda aðskilnað lýðveldanna. Ýmsir hafa þó haldið því fram að sambandið sé tæki Rússlands til að viðhalda áhrifum sínum í lýðveldunum. Frá stofnun hafa SSR-ríkin gert með sér marga samninga sem varða samstarf á sviði efnahagsmála, varnarmála og utanríkisstefnu.

Sambandið var stofnað 8. desember 1991 af leiðtogum Rússlands, Hvíta-Rússlands og Úkraínu. Úkraína varð hins vegar aldrei fullgildur aðili að SSR þar sem úkraínska þingið fullgilti ekki stofnsáttmálann. Úkraína tók þátt í starfsemi bandalagsins og varð aðili að Fríverslunarsvæði Samveldis sjálfstæðra ríkja árið 2011. Árið 2014 hætti Úkraína þátttöku í samtökunum í kjölfar stríðs Rússlands og Úkraínu og kallaði fulltrúa sína heim árið 2018.
Georgía gerðist aðili að bandalaginu árið 1993, en dró aðild sína til baka árið 2008 eftir stríð Rússlands og Georgíu.