Hugh Marwick
Hugh Marwick (30. nóvember 1881 – 21. maí 1965, Kirkjuvogi) var orkneyskur málfræðingur sem er þekktur fyrir rannsóknir sínar á norræna málinu í Orkneyjum, Norn.
Hugh Marwick fæddist í Hrólfsey (Rousay), sonur Hugh Marwick eldri.
Námsferill hans var slitróttur vegna fátæktar og varð hann að vinna fyrir sér með kennslu í Aberdeen og víðar. Hann tók meistarapróf frá Háskólanum í Edinborg. Eftir að hafa verið kennari í Lancashire á Englandi, varð hann árið 1914 skólastjóri unglingaskólans í Kirkjuvogi í Orkneyjum (sem þá hét The Burgh School). Samhliða þessu stundaði hann rannsóknir og ritstörf, og undirbjó m.a. doktorsritgerð sína sem hann varði við Edinborgarháskóla 1926. Ritgerðin varð kjarninn í höfuðriti hans The Orkney Norn. Árið 1929 varð hann formaður Menntamálaráðs Orkneyja (Orkney Education Committee), og starfaði þar til 1946.
Með bókinni um norræna málið í Orkneyjum var fyllt skarð í norrænum fræðum, og mikilvægri vitneskju bjargað, sem þá var að hverfa. Færeyingurinn Jakob Jakobsen hafði unnið slíkt verk fyrir Hjaltlandseyjar, og hafði hugsað sér að taka Orkneyjar næst fyrir, en entist ekki aldur til þess. Jakobsen hitti Marwick árið 1909, og fékk hjá honum ýmsar upplýsingar frá Orkneyjum. Marwick vann einnig merkilegt starf á sviði örnefnarannsókna.
Hugh Marwick var einn af stofnendum Fornfræðafélagsins í Orkneyjum (Orkney Antiquarian Society) árið 1922, var ritari þess í 17 ár (allan starfstíma þess), og birti ritgerðir í tímariti félagsins (Proceedings of the Orkney Antiquarian Society). Hann var einnig félagi í Fornfræðafélagi Skotlands (Society of Antiquaries of Scotland) og var kjörinn heiðursfélagi þess.
Hugh Marwick fékk margvíslega viðurkenningu fyrir fræðistörf sín, bæði heima fyrir og erlendis. Árið 1938 Order of the British Empire, fékk norsku St. Ólafs-orðuna 1946, heiðursdoktor frá Háskólanum í Aberdeen 1956, og Háskólanum í Bergen 1964. Hann varð heiðursfélagi Víkingafélagsins í London 1965.
Hugh Marwick kvæntist árið 1914, Jane Barritt. Þau eignuðust einn son, Hugh Marwick, sem dó ungur af slysförum.
Helstu rit
[breyta | breyta frumkóða]- The Orkney Norn, Oxford 1929, 52+232 s. — Byggð á doktorsritgerð frá Háskólanum í Edinborg, 1926. Gefin út á kostnað höfundar.
- The Place Names of Rousay, Kirkwall 1947, 95 s.
- Orkney, London 1951, 287 s.
- Orkney Farm-Names, Kirkwall 1952, 266 s.
- Ancient Monuments in Orkney. Edinburgh 1952, 39 s.
- The Place-names of Birsay. Aberdeen 1970, 12+135 s. — W. F. H. Nicolaisen gaf út og ritaði formála.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Hugh Marwick“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 26. október 2010.