Fara í innihald

Gufunes

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kort af söguslóðum í Gufunesi

Gufunes er allstórt nes austarlega í Reykjavík, milli Elliðaárvogs og Eiðsvíkur.

Þar var til skamms tíma rekin áburðarverksmiðja, og þar var einnig stór sorphaugur sem var notaður í fyllingu út á sjó, (undir Gufunes túninu).

Saga Gufuness

[breyta | breyta frumkóða]

Í Gufunesi var kirkja og þar var einnig spítali og sennilega líka kaupstaður. Gufunes er kennt við Ketil gufu landnámsmann. Í Þorláksmáldaga sem kenndur var við Þorlák Þórhallsson biskup og gerður árið 1180 segir að Maríukirkja sé í Gufunesi sem á 20 hundruð í landi og tvær kýr, kross og klukku, silfurkaleik og messuföt, tjöld umhverfis, þrjú altarisklæði, vatnsker, glóðarker og eldbera, slopp og tvær munnlaugar, lás og tvær kertastikur og hefur Maríukirkjan tíund heima og af níu bæjum og gröft. Prestur í Gufunesi á þeim tíma var Ásgeir Guðmundarsson en hann lést kringum 1180. Á hans tíma var veiddur æðarfugl þarna við sjóinn en Viðeyingar þótti það eyðileggja æðarvarp þar og munu samingar hafa tekist að prestur hætti æðarkolludrápi en fengi í staðinn hagagöngu í Viðey. Gufunes er orðin eign Viðeyjarklausturs árið 1395. Gufuneskirkju er getið í máldaga Gísla biskups árið 1575 og á kirkjan þá einn silfurkaleik lítinn, eina klukku, eina koparpípu og sjö kúgildi. Gufunesjörðin er þá orðin leigujörð frá Skálholti en varð seinna konungsjörð. Í máldaga frá 1632 er torfkirkju í Gufunesi lýst þannig að það séu 3 bitar á lofti, þiljað í kórnum og eitt stafgólf báðum megin í forkirkju, alþiljuð fyrir altar nema það vanti nokkrar fjaðrir utan í bjórþilið. Í héraðslýsingum Skúla Magnússonar er lýst timburkirkju og árið 1857 er kirkjan í Gufunesi sögð vera nýlegt timburhús. Með landshöfðingjabréfi 1886 er kirkjan í Gufunesi aflögð og sóknin lögð til Lágafells. Kirkjan stóð um nokkra hríð og var notuð sem skemma en var svo rifin og kirkjugarðurinn sléttaður.

Í bréfi frá 1496 er talað um kauprein í Gufunesi og að þar skuli fara fram greiðsla í kauptíð á sumarið og bendir það til að kaupstaður hafi verið þar en þarna var góð höfn og stutt yfir í Viðey. Þegar Milljónafélagið lét gera hafskipabryggjur í Viðey lét það gera lítinn innsiglingavita á Geldingarnesi.

Um 1518 stofnaði Kristján II. Danakonungur spítala í Viðey og var það fyrsta elliheimili á Íslandi. Þegar Skúli Magnússon fær Viðey til ábúðar og reisir Viðeyjarstofu þá er spítalanum ofaukið og leggur Skúli til að spítalinn verði fluttur til Gufuness og jörðin Eiði sameinuð Gufunesi og spítalinn hafi allar nytjar hennar nema þar sem yrði hagaganga fyrir fé sem ætlað væri til að fóðra fálka konungs og var þessi tillaga samþykkt og gefin út konungleg tilskipun 17. apríl 1757 um sameiningu jarðanna og flutning spítalans. Í héraðslýsingu Skúla fógeta kemur fram að í Gufunesspítala er séð fyrir sex körlum og sex konum og eru vistmenn fátækir, vinalausir, aldraðir og hrumir. Kostnaður við spítalann var 120 ríkisdalir en auk þess voru bændur í Gullbringu- og Kjósarsýslu skyldaðir til að inna af hendi tvö dagsverk um heyskapartímann og voru þessi dagsverk alls 148 og komu 77 í hlut Gufunesspítala. Árið 1791 leggur [Ólafur Stefánsson] stiftamtmaður til að spítalinn verði lagður niður og er hann lagður niður á fardögum 1795. Konungur seldi þá Gufunes fyrir 150 ríkisdali og varð jörðin þá bændaeign.

Gufunesi er lýst í jarðabók Árna og Páls og þar kemur fram að vatnsból þar sé slæmt og þar sé hægt að fóðra 8 kýr, 1 ungneyti og 10 lömb, jörðin hafi selstöðu í Stardal,sölvafjöru og skelfiskfjöru og þar sé heimræði vor og haust en aldrei hafi verið þar verstöð. Jörðinni fylgja þá fjórar hjáleigur ein er nafnlaus en hinar eru Brandakot, Hólkot og Helguhjáleiga. Í sóknarlýsingu frá 1855 eru talin í landi jarðarinnar tvö eyðikot Niðurkot og Norðurkot. Meðan kirkja var í Gufunesi voru í sókninni þessar jarðir í Mosfellssveit: Miðdalur, Helliskot, Reynisvatn, Kálfakot, Lambhagi, Gröf, Grafarkot, Árbær, Ártún, Keldur, Gufunes, Knútskot (Núpskot), Eiði, Korpúlfsstaðir, Blikastaðir og þessar í Kjalarneshreppi Þerney, Víðines, Sundakot(Niðurkot), Álfsnes og Glóra. [1]

Stuttbylgjustöðin í Gufunesi

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1934 var reist stuttbylgjustöð í Gufunesi en henni var ætlað að vera varaskeytasamband fyrir sæsímann, annast talsamband við útlönd og afgreiðslu við skip á höfnum í kringum Ísland og afla og senda út veðurfréttir. Landsímastjóri sagði þá: "Auk alls þessa hefir komið til orða, að ríkisútvarpið leiti saminga við landsímann um afnot af stuttbylgjustöðinni, til þess að útvarpa til Íslendinga erlendis, ef til þess fæst heimild ríkisstjórnarinnar". [2] Stuttbylgjustöðin fékk 88 hektara til umráða af landi Gufuness og var það óræktað land.

Kappreiðar

[breyta | breyta frumkóða]

Í Gufunesi voru kappreiðar haldnar um nokkurra ára skeið, eða frá 1949 til 1952. Það var Þorgeir Jónsson, bóndi og glímukóngur, sem fyrir þeim stóð. Það var í fyrsta skipti keppt í 400 og 800 metra stökki hérlendis, og verðlaun voru hærri en þá hafði þekkst.

Áburðarverksmiðjan í Gufunesi

[breyta | breyta frumkóða]

Bjarni Thorarensen skáld og amtmaður bjó í Gufunesi. Hann kvæntist árið 1820 Hildi Bogadóttur en hafði áður keypt Gufunes. Hann bjó þar til árins 1834 en seldi þá jörðina og flutti norður að Möðruvöllum. Á meðan Bjarni bjó í Gufunesi náðu álfar að heilla til sín Þórarinn son hans og fannst hann aftur eftir 2-3 daga og sagði að hann hefði þóst sjá móður sína og elt hana.

Jarðfræði Gufuness

[breyta | breyta frumkóða]

Rétt austan við malareiði sem tengir Geldinganes við land er dálítill höfði úr bergi sem virðist vera jökulberg. Þessi höfði er endir á lagi sem liggur milli blágrýtislaga. Sjá má lagið á tveimur stöðum fyrir ofan aðalveginn að Áburðarverksmiðjunni. Bergið er brúnleitt til grátt á lit og er lagið misþykkt en er að norðanverðu alla vega 4 - 6 m. þykkt. Tengiefni er fínn sandur, mósandur og leir. [3]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Árni Óla, Eftirmæli Gufuness, Lesbók Morgunblaðsins, 19. tölublað (31.05.1952), Blaðsíða 285
  2. Stuttbylgjustöðin í Gufunesi,Nýja dagblaðið, 203. tölublað (29.08.1934), Blaðsíða 1
  3. Jökulberg í nágrenni Reykjavíkur, Náttúrufræðingurinn, 2. Tölublað (01.06.1960)[óvirkur tengill]
  Þessi landafræðigrein sem tengist Reykjavík er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.