Þessi grein fjallar um öruggan aðgang að matvælum. Sjá matvælaöryggi um varnir gegn matarsjúkdómum.

Fæðuöryggi er staða þar sem fólk lifir ekki við hungur eða þarf að óttast svelti. Um allan heim lifa um 852 milljónir manna við stöðugt hungur vegna sárafátæktar; en allt að tveir milljarðar þurfa að þola matarskort við og við vegna mismikillar fátæktar, samkvæmt tölum Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá 2003.

Beint samband er milli neyslu matvæla og fátæktar. Fjölskyldur sem eiga nægileg úrræði til að sleppa við sárustu fátækt þurfa sjaldan að þola langvarandi hungur, á meðan fátækar fjölskyldur þurfa ekki aðeins að þjást vegna stöðugs hungurs, heldur eru líka sá hluti íbúanna sem er í mestri hættu vegna tímabundins matarskorts og hungursneyðar.

Til eru tvær algengar skilgreiningar á hugtakinu Fæðuöryggi, annar vegar frá Matvælastofnun Sþ, og hins vegar frá landbúnaðarráðuneyti Bandaríkjanna:

  • Fæðuöryggi ríkir þegar allir íbúar, hafa alltaf aðgang að nægum, öruggum og næringarríkum matvælum til að uppfylla næringarþarfir sínar og óskir með, til að geta lifað virku og heilsusamlegu lífi.
  • Fyrir heimili merkir fæðuöryggi að allt heimilisfólk hefur alltaf aðgang að nægum mat til að lifa virku, heilsusamlegu lífi. Matvælaöryggi felur að minnsta kosti í sér (1) nægt aðgengi að næringarríkum og öruggum mat, og (2) tryggingu fyrir því að hægt sé að verða sér út um ásættanlegan mat á félagslega ásættanlegan hátt (það er, án þess að skrimta með því að grípa til neyðarbirgða matvæla, hirða eða stela mat).

Stutt skilgreining: Fæðuöryggi (Food security) fjallar um aðgengi að fæðu og framboð af heilnæmum og öruggum matvælum.

Grunnstoðir fæðuöryggis

breyta

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin vísar til þriggja atriða sem skilgreina fæðuöryggi, en það eru fáanleiki matvæla, aðgengi að matvælum og nýting þeirra.[1]

Fáanleiki matvæla

breyta

Fáanleiki fæðu tengist aðallega þremur þáttum sem allir hafa áhrif þar á. Þessir þættir eru matvælaframleiðsla, dreifing matvæla og viðskipti með þau. Þegar litið er til matvælaframleiðslu er fjöldi atriða sem geta haft áhrif á það hversu vel tekst til. Helstu áhrifaþættir eru veðurfar (úrkoma, hitastig, o.s.frv.), eignarhald ræktunarlands, ræktun og val á nytjaplöntum, ræktun búfénaðar og þær aðferðir sem nýttar eru við uppskeru. Einnig má nefna að oft eru landgæði af skornum skammti og því ekki alltaf hægt að nýta allt það ræktarland sem er tiltækt, heldur er það notað til uppbyggingar íbúðarhverfa eða annarra hluta þéttbýlis. Dreifing matvæla tekur til vinnslu, flutninga, geymslu og þess að koma matvælum á markað. Flutningar geta haft umtalsverð áhrif á fæðuöryggi af þeirri ástæðu að ef flutningakerfið er illa uppbyggt er afleiðingin sú að verð geta hækkað umtalsvert, einmitt vegna erfiðleika við flutninga. Einnig geta geymsluaðferðir haft veruleg áhrif, þar sem að þær hafa mikið að segja um það hversu mikið af matvælum verða óhæf til neyslu og geta þannig mögulega minnkað framboð einhverra vöruflokka. Til að hægt sé að eiga viðskipti með matvæli verður að treysta á að markaðir séu virkir og nothæfir.[2] Fæðuframleiðsla á hvern einstakling í heiminum hefur aukist á síðustu áratugum umfram fólksfjölgun, en hinsvegar er þessum gæðum misskipt á milli heimshluta. Ekki hafa allir aðgang að nægilega mikilli fæðu og er hægt að benda á að víða eru ofangreind atriðið í ólestri, en það er helsta hindrunin þegar kemur að fáanleika matvæla.[3]

Aðgengi að matvælum

breyta

Aðgengi að matvælum vísar til hversu viðráðanlegt verð þeirra er auk þess hve auðvelt er að nálgast þau, ásamt því hvað almenningur kýs helst í þessum efnum. Aðgengi að matvælum er tvískipt, annarsvegar beint aðgengi þar sem fæðan er ræktuð eða framleidd innan heimilis og hinsvegar efnahagslegt aðgengi þar sem fæðan er keypt á markaði. Þeir þættir sem helst hafa áhrif á aðgengi eru tekjur og í tilfelli beins aðgengis má einnig nefna landareign eða aðgengi að þeim. Tekjur er þó ein mikilvægasta breytan í þessu samhengi og hefur áhrif bæði á beint og efnahagslegt aðgengi að matvælum.[2]

Nýting matvæla

breyta

Nýting matvæla vísar til magns og gæða þeirra, en matvæli verða að vera jafnt örugg sem í nægilegu magni til að uppfylla kröfur hvers einstaklings. Það er margt sem hefur áhrif á þessa nýtingu, m.a. undirbúningur og matreiðsla auk næringargildis og menningarlegs vals og hefða. Matvælaöryggi er því mikilvægt þegar litið er til nýtingar matvæla og eins aðgangur að heilbrigðisþjónustu. Heilbrigði hefur nefnilega áhrif á það hvernig matvæli eru nýtt, auk hreinlætis og fræðslu um næringu. Þessir undirstöðuþættir geta bætt nýtingu matvæla verulega.[2]

Fæðustöðugleiki

breyta

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna bætir við fjórðu grunnstoðinni í tengslum við fæðuöryggi, sem er fæðustöðugleiki. Með fæðustöðugleika er átt við getuna til að geta aflað sér fæðu til lengri tíma litið. Það er þó margt sem ógnar þessum stöðugleika, t.d. náttúruhamfarir, styrjaldir, verðsveiflur og uppskerubrestir ásamt fleiru. Um skammæran óstöðugleika getur verið að ræða þar sem að sum matvæli eru aðeins fáanleg á ákveðnum árstímum, eða jafnvel langvinnan sem getur komið til vegna náttúruhamfara eða styrjalda sem verða til þess að framleiðsla stöðvast eða uppskera bregst.[3]

Fæðuöryggi á Íslandi

breyta

Íslendingar búa við nokkuð sérstakar aðstæður hvað öruggt framboð á matvælum snertir. Ísland er eyja, sem hefur takmarkaða getu til að framleiða fjölbreytt matvæli, þar af leiðandi eru Íslendingar mjög háðir reglulegum innflutningi matvæla og aðfanga til matvælaframleiðslu. Þótt fæðuöryggi hafi verið tryggt undanfarna áratugi, þá er staða framboðs á matvælum nokkuð veikari en staða nágrannaþjóða. Það sýndi sig í fjármálakreppunni 2008 hversu háðir Íslendingar eru innflutningi og hversu alvarleg áhrif gjaldeyrisskortur getur haft. Fæðuöryggi Íslendinga var ógnað í bankahruninu, kornbirgðir í landinu dugðu einungis til skamms tíma og ef innflutningur hefði stöðvast og viðskipti við útlönd lamast hefði það snert fæðuöryggi með beinum hætti. Verulegur skortur getur meðal annars orðið á eldsneyti, áburði, útsæði og tækjabúnaði sem landbúnaðurinn þarfnast. Skortur gæti orðið á olíu og veiðarfærum sem eru sjávarútveginum nauðsynleg. Ef aðgangur að alþjóðamörkuðum skerðist þá myndi innlend matvælaframleiðsla dragast verulega saman. Lágmarksframleiðsla á matvælum yrði þó áfram fyrir hendi.[4]

Tengt efni

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. „Food Security“. World Health Organization. [skoðað 14. apríl 2015].
  2. 2,0 2,1 2,2 Bryan L. McDonald. Food Security. Cambridge, Polity Press, 2010.
  3. 3,0 3,1 „Production quantities by country“. Food and Agriculture Organization of the United Nations, 2015, [skoðað 14. apríl 2015].
  4. „Áhættumatsskýrsla fyrir Íslands: Hnattrænir, samfélagslegir og hernaðarlegir þættir.“. Utanríkisráðuneytið, 2009, [skoðað 15. apríl 2015].

Heimildir

breyta