Fara í innihald

Sprengigígur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Víti (Krafla)
Meerfelder Maar, Þýskaland
Ukinrek Maars, Alaska

Sprengigígar eins og Víti við Kröflu verða til við sprengivirk gos í megineldstöðvum eða (sjaldnar) á jöðrum eldstöðvakerfa.

Gígar af þessu tagi kallast sprengigígar á íslensku.

Hins vegar kallast þeir maar í mörgum erlendum tungumálum. Það orð kemur úr þýsku, af því að mjög margir sprengigígar eru til á Eifelsvæðinu í Þýskalandi og eru kallaðir “Maare”.

Gígarnir eru í flestum tilvikum lágir, stundum með engum gígbörmum og oftast fullir af vatni.

Gosopið líkist djúpu gati í jarðskorpunni og mest af rúmmáli gígsins er neðan þess. Aðeins lágir rimar úr gjósku ná að hlaðast upp á börmunum.

Þar sem sprengigígarnir ná niður úr grunnvatnsfleti, safnast vatn fyrir í gígskálinni.

Þvermál flestra sprengigíga á Íslandi er 50-500 m, en dýpið frá brún 10-100 m.[1]

Þegar kvikuþrýstingur í eldstöð er mjög hár, eða kvikan inniheldur mjög mikið af lofttegundum og/eða vatnsgufu, verða öflugar sprengingar. Þetta getur leitt til þess að hlutar eldstöðvanna hverfa í hamaganginum og lítið sést til eiginlegra gosopa eða gíga að gosi loknu. Í flestum tilfellum eru sprengivirk gos þó ekki svo öflug og stendur þá eftir greinilegur gígur eða gígar.

Stundum eru þau þó allöflug, en yfirleitt stutt, gjóskugos.

Hins vegar kemur fyrir að vatn í miklum mæli kemst að kvikunni og þá verður stutt en öflugt þeytigos með mikilli vatnsgufu, sem skilar einnig af sér lágum eda engum gígbörmum.

Gjóskuframleiðslan getur verið frekar lítil, en brot úr berggrunninum berast upp í sprengingum og þeytast um allt umhverfið.[1]

Sprengigígar á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Stórir sprengigígar eru til í Veiðivatnakerfinu eins og Ljótipollur og Hnausapollur. Fleiri dæmi eru líka þekkt eins og Víti við Öskju og Grænavatn við Krýsuvík.

Valagjá norðaustan Heklu er tengt fyrirbæri, þar hafa a.m.k. þrír gígar tengst saman og úr orðið einhvers konar sprengigjá.

Víti í Kröflu og Víti í Öskju myndast sennilega við gufusprengingar.[1]Sprengigos í Víti árið 1724 markaði upphaf stórrar hrinu eldsumbrota hjá Kröflu sem kölluð hefur verið Mývatnseldar.[2]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 Ari Trausti Guðmundsson, Ragnar Th. Sigurðsson: Íslenskur jarðfræðilykill. Reykjavík, Mál og Menning, 2004
  2. Snæbjörn Guðmundsson, Vegvísir um jarðfræði Íslands. Reykjavík, Mál og Menning, 2015