Livia Drusilla
Livia Drusilla (30. janúar 58 f.Kr. – 28. september 29 e.Kr.) var rómversk keisaraynja, eiginkona Ágústusar og móðir Tíberíusar.
Livia var af claudísku ættinni, dóttir öldugaráðsmannsins Marcusar Liviusar Drususar Claudiusar og konu hans Aufidiu. Livia giftist fyrst Tiberiusi Claudiusi Nero og átti með honum synina Tíberíus (sem síðar varð keisari) og Drusus. Þegar hún var ólétt af Drususi hitti hún Octavianus (síðar Ágústus) og sagt er að hann hafi samstundis orðið ástfanginn af henni. Octavianus var á þessum tíma valdamesti maðurinn í Róm og þvingaði hann Tiberius Claudius Drusus til að skilja við Liviu svo hann gæti gengið að eiga hana. Livia og Octavianus gengu í hjónaband í janúar árið 40 f.Kr., þremur dögum eftir að Drusus fæddist.
Livia var alla tíð mikilvægur ráðgjafi Ágústusar og tók þannig virkan þátt í stjórn heimsveldisins. Einnig réði hún sínum eigin fjárhag, en það var mjög óalgengt á meðal rómverskra kvenna. Livia og Ágústus áttu engin börn saman en hún fékk hann til þess að ættleiða son sinn Tíberíus og gera hann að erfingja sínum og eftirmanni. Við andlát Ágústusar, árið 14 e.Kr., var Livia formlega ættleidd inn í julísku ættina og varð þar með ættmóðir julísku-claudísku ættarinnar. Livia var áfram valdamikil í stjórnartíð sonar síns, Tíberíusar, og virðist mæðginunum hafa komið ágætlega saman til að byrja með. Smám saman fór Tíberíus að eyða meiri og meiri tíma utan Rómaborgar og settist á endanum að á eynni Capri. Fornir sagnaritarar segja að ástæða þessa hafi meðal annars verið sú að hann þoldi ekki afskiptasemi móður sinnar. Livia lést árið 29 og vildi öldungaráðið þá taka hana í guðatölu en Tíberíus beitti neitunarvaldi. Það var ekki fyrr en þrettán árum síðar að Claudius lét taka hana í guðatölu og fékk hún þá titilinn Diva Augusta (heilög Ágústa).