Jonas Salk
Jonas Edward Salk (28. október 1914 – 23. júní 1995) var bandarískur vísindamaður og veirufræðingur af gyðingaættum. Hann þróaði fyrsta árangursríka bóluefnið gegn mænusótt. Notkun þess hófst árið 1955. Salk vann að rannsóknum að bóluefni gegn AIDS þegar hann lést.
Á árunum eftir seinni heimsstyrjöldina og þangað til bóluefni Salks komst í notkun var mænusótt gríðarlegt heilsuvandamál. Árlega gengu faraldrar og urðu þeir sífellt alvarlegri. Stærsti mænuveikisfaraldur í Bandaríkjunum var árið 1952 en þá voru skráð þar 58 þúsund tilfelli og yfir þrjú þúsund dauðsföll en um 21 þúsund lömuðust að einhverju leyti. Flestir sem veiktust voru börn. Vísindamenn á þessum tíma lögðu ofurkapp á að finna leiðir til að hindra eða lækna mænuveiki. Forseti Bandaríkjanna, Franklin D. Roosevelt, var einn þeirra sem veiktust.
Salk hóf störf í læknaskóla Háskólans í Pittsburgh árið 1947. Árið 1948 stýrði hann rannsóknarverkefni sem miðaði að því að ákvarða hversu margar gerðir af mænusóttarveirum væru til og næstu sjö ár þar á eftir þá miðuðust rannsóknir hans og rannsóknarteymis hans að því að finna bóluefni gegn mænusótt. Bóluefnið var gert úr veikluðum mænusóttarveirum. Afar margir tóku þátt í tilraunum með hið nýja bóluefni og niðurstöður af þeim tilraunum voru gerðar opinberar 12. apríl 1955 og var Salk þá hylltur. Markmið hans var að finna bóluefni sem virkar eins fljótt og auðið var og hann hafði ekki áhuga á að hagnast á því. Þegar hann var spurður hver hefði einkarétt á nýja bóluefninu svaraði hann „There is no patent. Could you patent the sun?“
Foreldrar Salks voru innflytjendur af Gyðingaættum. Hann hóf 13 ára nám í skóla fyrir afburðagreind börn og lauk síðan BS námi árið 1934 í efnafræði frá City College of New York.