Sjálfstætt fólk
Höfundur | Halldór Laxness |
---|---|
Land | Ísland |
Tungumál | Íslenska |
Stefna | Félagsleg raunsæisstefna |
Útgefandi | E.P. Briem |
Útgáfudagur | 1934 (1. bindi), 1935 (2. bindi) |
Síður | 616 |
ISBN | ISBN 9789979225287 |
Sjálfstætt fólk er skáldsaga eftir Halldór Laxness sem var gefin út í tveimur bindum á árunum 1934-1935. Undirtitill beggja binda var Hetjusaga. Árið 1952 voru bindin tvö sameinuð í eina bók og hefur bókin síðan komið þannig út. Bókin er ein þekktasta skáldsaga íslenskra bókmennta og er oft kennd á framhaldsskólastigi á Íslandi. Sagan er jafnan talin tilheyra félagslegri raunsæisstefnu í bókmenntafræðum og má ætla að hún gerist á árunum 1899-1921 á Íslandi.
Söguþráður
Sagan fjallar um Guðbjart Jónsson, Bjart í Sumarhúsum, fjölskyldu hans og örlög þeirra. Sagan hefst þó á frásögn um Kólumkilla. Guðbjartur vann í 18 ár fyrir hreppstjórann í sveitinni meðal annars sem smali, en þá hafði hann loks safnað nægu fé til þess að kaupa sér sitt eigið land. Hann tók við landi er hafði verið í eyði sökum reimleika. Gunnvör og Kólumkilli voru draugar og höfðu tekið sér þar bólfestu og rekið fyrrum ábúendur í burtu. Bjartur trúði ekki á drauga og lét það ekki aftra sér frá því að hefja búskap í Veturhúsum. Hann breytti nafninu á bænum í Sumarhús og reisti nýtt býli. Hann giftist stuttu síðar Rósu, sem lést af barnsförum ári síðar. Bjartur var úti í leit að á þegar Rósa lést. Ásta Sóllilja, dóttir Rósu, rétt lifði af. Bjartur var mikill kvæðamaður og lagði ekki mikið í nútímakveðskap, heldur vildi rím og hefðbundna bragarhætti. Síðari hluti sögunnar fjallar að mestu um Ástu Sóllilju.
Helstu sögupersónur
- Bjartur í Sumarhúsum, bóndi (Guðbjartur Jónsson)
- Rósa, móðir Ástu Sóllilju og fyrsta kona Bjarts
- Ásta Sóllilja, dóttir Rósu en aðeins stjúpdóttir Bjarts, Ingólfur Arnarsson var hennar eiginlegi faðir.
- Jón Guðbjartsson (Nonni)
- Helgi Guðbjartsson
- Guðmundur Guðbjartsson (Gvendur)
- Guðfinna (Finna), seinni kona Bjarts
- Jón, hreppstjóri
- Rauðsmýrarmaddaman
- Ingólfur Arnarson Jónsson, faðir Ástu
En auk þess kemur móðir Finnu, Hallbera, amma Guðbjartssonanna mikið við sögu.
Eitt og annað
- Sænski leikstjórin Ingmar Bergman hafði áhuga á að kvikmynda verk upp úr Sjálfstæðu fólki. Þannig segir frá í Regn í rykið eftir Thor Vilhjálmsson, sem tók viðtal við hann í Malmö á sjötta áratug 20. aldar: „Þó lýsir hann [Ingmar Bergman] áhuga sínum á Sjálfstæðu fólki eftir Laxness. Árum saman, segir hann: hefur mig langað til að gera kvikmynd byggða á fyrri hluta verksins. En það vantar peninga. Ég hef lengi reynt að fá peninga til þess en ekki tekist, sagði Bergman“. [1]
- Talið er að móðir Finnu eigi sér fyrirmynd í ömmu Halldórs, en persónur líkar ömmunni eru tíðar í verkum hans.[heimild vantar]
Tilvísanir
- ↑ Thor Vilhjálmsson, Regn á rykið, Helgafell, 1960, bls. 198.
Tenglar
- Rósalundur fátæktarinnar - föng Halldórs Laxness í ræðu skáldkonunnar á Útirauðsmýri; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1976
- Mynd sem aflvaki skáldskapar; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1990
- Vinstri vángi - kafli úr Sjálfstæðu fólki; birtist í Lesbók Morgunblaðsins 1997
- Mikil bók lítillar þjóðar; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1996
- Enskur þýðandi sjálfstæðs fólks; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1998