Fara í innihald

Keflavíkurgangan 1960

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Útgáfa frá 8. júlí 2024 kl. 19:45 eftir 89.160.185.99 (spjall) Útgáfa frá 8. júlí 2024 kl. 19:45 eftir 89.160.185.99 (spjall)
(breyting) ← Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)

Keflavíkurgangan 1960 var fyrst í röð fjölda mótmælaganga frá herstöðinni á Miðnesheiði til Reykjavíkur sem fram fóru á árabilinu 1960-91. Gangan fór fram 19. júní.

Fyrirmynd hennar voru Aldermaston-göngurnar sem bresku friðarsamtökin CND (Campaign for Nuclear Disarmament) stóðu fyrir á sjötta og sjöunda áratugnum. Skipulag þessarar fyrstu Keflavíkurgöngu var ekki í höndum formlegra félagasamtaka heldur þrettán manna framkvæmdaráðs, sem að mestu var skipað ungu fólki sem flest var áberandi í mennta- og menningarlífinu. Gangan varð hvatning til stofnunar Samtaka hernámsandstæðinga á Þingvöllum þá um haustið.

Aðdragandi og skipulag

[breyta | breyta frumkóða]

Vinstristjórnin 1956-59 fór frá völdum án þess að standa við markmið sín um brottför bandaríska hersins og olli sú niðurstaða andstæðingum hersetunnar sárum vonbrigðum. Kjartan Ólafsson, sem síðar varð einn af helstu leiðtogum íslenskra vinstrimanna, hafði kynnst Aldermaston-göngunum á námsárum sínum í Bretlandi og mun hafa átt hugmyndina um að skipuleggja sambærilegar aðgerðir hér á landi. Stofnuð var þrettán manna undirbúningsnefnd en í henni sátu auk Kjartans m.a. þau Ragnar Arnalds, Jónas Árnason, Drífa Viðar, Björn Þorsteinsson, Einar Bragi, Hannes Sigfússon og Tryggvi Emilsson.

Til stóð að ganga frá Reykjavík til Keflavíkurflugvelli, en ákveðið var að snúa leiðinni við var frá því þar sem talið var betra að enda á fjöldafundi í Reykjavík. Undirbúningsfrestur var afar skammur. Fjölmiðlum var tilkynnt um áformin einungis tíu dögum fyrir áætlaðan göngudag. Fór mestur hluti orkunnar í að skrá göngufúsa herstöðvaandstæðinga og skipuleggja rútuferðir. Ekki var vitað með fullri vissu hversu langan tíma hópganga um 50 kílómetra veg myndi taka og var áætlaður göngutími því auglýstur á bilinu 12 til 14 klukkustundir.[1]

Skáldið og einn skipuleggjenda, Einar Bragi, flutti brýningu til göngufólks við vallarhliðið í Keflavík. Áð var á nokkrum stöðum á leiðinni og þá skotið upp stuttum fundum. Í göngulok var svo haldinn 10 þúsund manna útifundur við Miðbæjarskólann þar sem Jóhannes úr Kötlum, Gils Guðmundsson, Magnús Kjartansson, Jónas Árnason og Þorvarður Örnólfsson fluttu ræður.

Þátttakan í göngunni og undirtektir hennar komu skipuleggjendum ánægjulega á óvart, en talið hafði verið örðugt að skipuleggja fjöldaaðgerðir um mitt sumar. Í kjölfarið var ákveðið að halda skrifstofu undirbúningsnefndarinnar opinni lengur og hefja þegar í stað undirbúning að stofnun heildarsamtaka um herstöðvamálið, en Samtök hernámsandstæðinga voru stofnuð í september sama ár.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Ragnar Arnalds: Æskubrek á Atómöld. Tindur, 2017. ISBN 9789935464378