Fara í innihald

Samia Suluhu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Útgáfa frá 5. desember 2023 kl. 09:31 eftir TKSnaevarr (spjall | framlög) Útgáfa frá 5. desember 2023 kl. 09:31 eftir TKSnaevarr (spjall | framlög)
(breyting) ← Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Samia Suluhu
Suluhu árið 2021.
Forseti Tansaníu
Núverandi
Tók við embætti
19. mars 2021
ForsætisráðherraKassim Majaliwa
VaraforsetiPhilip Mpango
ForveriJohn Magufuli
Persónulegar upplýsingar
Fædd27. janúar 1960 (1960-01-27) (64 ára)
Soldánsdæminu Sansibar
ÞjóðerniTansönsk
StjórnmálaflokkurChama Cha Mapinduzi
MakiHafidh Ameir ​(g. 1978)
Börn4
HáskóliHáskólinn í Mzumbe
Háskólinn í Manchester
Opni háskólinn í Tansaníu

Samia Suluhu Hassan (f. 27. janúar 1960) er tansönsk stjórnmálakona úr flokknum Chama Cha Mapinduzi og núverandi forseti Tansaníu. Hún var áður varaforseti landsins eftir að hafa náð kjöri ásamt forsetaframbjóðandanum John Magufuli árið 2015. Mugufuli og Suluhu náðu endurkjöri árið 2020. Eftir að Magufuli lést í embætti í mars 2021 tók Suluhu við af honum og varð fyrst kvenna til að gegna embætti forseta Tansaníu.[1][2]

Áður en Suluhu varð varaforseti sat hún á tansanska þinginu fyrir kjördæmið Makunduchi frá 2010 til 2015 og var jafnframt ríkisráðherra við skrifstofu varaforsetans frá 2010 til 2015. Þar áður hafði hún verið ráðherra í héraðsstjórn Sansibar á stjórnartíð Amani Karume. Árið 2014 var hún kjörin varaformaður tansanska stjórnlagaráðsins sem falið var að leggja drög að nýrri stjórnarskrá.

Bakgrunnur og menntun

[breyta | breyta frumkóða]

Suluhu fæddist í Soldánsdæminu Sansibar. Að loknu framhaldsskólanámi árið 1977 var hún ráðin til starfa hjá áætlana- og þróunarráðuneyti Tansaníu sem skrifstofustúlka. Samhliða störfunum tók hún ýmis skyndinámskeið. Árið 1986 útskrifaðist hún frá Þróunarstjórnarstofnuninni hjá núverandi Mzumbe-háskóla með gráðu í opinberri stjórnsýslu.[2] Eftir útskrift vann hún við verkefni á vegum Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna. Frá 1992 til 1994 gekk hún í Háskólann í Manchester og útskrifaðist með framhaldsgráðu í hagfræði.[3] Árið 2015 hlaut hún MS-gráðu í samfélagslegri efnahagsþróun eftir að hafa lokið sameiginlegum áfanga í Opna háskólanum í Tansaníu og Háskólanum í Suður-New Hampshire.[2]

Stjórnmálaferill

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2000 ákvað hún að hefja feril í stjórnmálum. Hún var kjörin á þingið í Sansibar og var útnefnd ráðherra af Amani Karume forseta sjálfstjórnarhéraðsins. Hún var eini kvenráðherra ríkisstjórnarinnar og kveðst hafa sætt fordómum af hálfu karlkyns kollega sinna vegna kyns síns.[3] Hún var endurkjörin árið 2005 og var aftur útnefnd ráðherra í öðru ráðuneyti.[4]

Árið 2010 gaf Suluhu kost á sér á tansanska þjóðþingið. Hún bauð sig fram í kjördæminu Makunduchi og vann sigur með rúmlega 80% atkvæða.[4] Jakaya Kikwete forseti útnefndi hana í kjölfarið innanríkisráðherra í stjórn sinni.[5] Árið 2014 var hún kjörin varaformaður stjórnlagaráðs sem átti að semja drög að nýrri stjórnarskrá fyrir Tansaníu.[6]

Í júlí árið 2015 valdi John Magufuli, forsetaframbjóðandi stjórnarflokksins Chama Cha Mapinduzi, Suluhu sem varaforsetaefni sitt í forsetakosningum sem fóru fram það ár.[7] Suluhu varð fyrst kvenna til að vera á kjörseðli flokksins í forsetakosningum.[8] Eftir að Magufuli vann kosningarnar varð Suluhu fyrsti kvenkyns varaforseti landsins.[9]

Eftir að Magufuli lést þann 17. mars árið 2021 varð Suluhu sjötti forseti Tansaníu og fyrsta konan til að gegna því embætti.[10]

Stjórn Suluhu hóf aðgerðir til að stemma stigu við kórónaveirufaraldrinum í Tansaníu, ólíkt Magufuli sem hafði að mestu hundsað veirusýkina. Stjórn hennar kom á skyldubundinni fjórtán daga sóttkví fyrir aðkomumenn sem komu til Tansaníu frá löndum þar sem ný afbrigði SARS-CoV-2 höfðu greinst. Ferðamönnum var jafnframt ráðlagt að bera andlitsgrímur, sótthreinsa sig og halda viðeigandi fjarlægð sín á milli.[11] Suluhu heimilaði sendiráðum og alþjóðasamtökum að flytja bóluefni inn í landið til að bólusetja erlenda ríkisborgara við dagleg störf sín ásamt tansanska heilbrigðisráðuneytinu.[12]

Árið 1978 giftist Suluhu Hafidh Ameir, embættismanni í landbúnaðargeiranum. Þau eiga fjögur börn.[3] Annað barn þeirra, Wanu Hafidh Ameir (f. 1982) situr á sérstöku sæti á þinginu í Sansibar.[13]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Constitution of Tanzania - "Where the office of President becomes vacant by reason of the death of the President, his resignation, loss of the electoral qualifications or inability to perform his functions due to physical infirmity, or failure to discharge the duties and functions of the office of President, then the Vice-President shall be sworn in and become the President for the unexpired period of the term of five years"
  2. 2,0 2,1 2,2 „Member of Parliament CV“. Parliament of Tanzania. Afrit af uppruna á 13. júlí 2015. Sótt 19. febrúar 2013.
  3. 3,0 3,1 3,2 Mwakyusa, Alvar (18. september 2014). „Samia Suluhu Hassan: A tough journey from activism to politics“. Daily News. Afrit af uppruna á 12. ágúst 2015. Sótt 12. ágúst 2015.
  4. 4,0 4,1 Mwakyusa, Alvar (18. september 2014). „Tanzania: Samia Suluhu Hassan – a Tough Journey From Activism to Politics“. AllAfrica. Afrit af uppruna á 5. ágúst 2019. Sótt 16. nóvember 2016.
  5. „Tanzania: History Made as Samia Picked Running Mate“. AllAfrica. 13. júlí 2015. Afrit af uppruna á 16. nóvember 2016. Sótt 16. nóvember 2016.
  6. Mwakyusa, Alvar (14. mars 2014). „Tanzania: Union 'Stalwart' Samia Is CA Vice-Chairperson“. AllAfrica. Afrit af uppruna á 14. mars 2014. Sótt 16. nóvember 2016.
  7. CCM [@ccm_tanzania] (12. júlí 2015). Mgombea mwenza Urais 2015 wa Mhe. John Pombe Magufuli ni.. (X) (svahílí). Sótt 12. júlí 2015 – gegnum X.
  8. Mohammed, Omar (12. júlí 2015). „Tanzania's ruling party nominates John Magufuli as presidential candidate“. Quartz. Afrit af uppruna á 11. ágúst 2015. Sótt 12. ágúst 2015.
  9. Kalinaki, K. Daniel (30. október 2015). „CCM's John Magufuli declared Tanzania fifth president“. The East African. Afrit af uppruna á 31. október 2015. Sótt 31. október 2015.
  10. „John Magufuli: Tanzania's president dies aged 61 after health rumours“. BBC News. 17. mars 2021.
  11. „Tanzania, once sceptical of COVID-19, announces measures to curb new variants“. Reuters. 3. maí 2021. Sótt 24. júní 2021.
  12. „Tanzania says embassies, international agencies can import COVID-19 vaccines“. Reuters. 4. júní 2021. Sótt 24. júní 2021.
  13. „Member Profile: Wanu Hafidh Ameir“. Zanzibar House of Representatives. Sótt 12. ágúst 2015.[óvirkur tengill][óvirkur tengill]


Fyrirrennari:
John Magufuli
Forseti Tansaníu
(17. mars 2021 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti