Fara í innihald

Joachim Henriksen Lafrentz

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Útgáfa frá 6. maí 2013 kl. 23:55 eftir Navaro (spjall | framlög) Útgáfa frá 6. maí 2013 kl. 23:55 eftir Navaro (spjall | framlög) (Ný síða: '''Joachim Henriksen Lafrenz''' (d. 17. janúar 1744) var danskur embættismaður sem var amtmaður á Íslandi frá 1733 til 1744 og dvaldi á Bessastaðir|Bessast...)
(breyting) ← Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)

Joachim Henriksen Lafrenz (d. 17. janúar 1744) var danskur embættismaður sem var amtmaður á Íslandi frá 1733 til 1744 og dvaldi á Bessastöðum alla sína embættistíð, að frátöldum þremur vetrum sem hann var í Kaupmannahöfn í embættiserindum.

Lafrenz var sonur Henrik Lafrenz í Næstved. Hann varð stúdent frá Herlufsholm 1693. Síðar gekk hann í utanríkisþjónustuna og varð árið 1724 sendiráðsritari við danska sendiráðið í París þar sem hann var til 1731. Hann þótti þó klaufskur og fljótfær og kom sér hvað eftir annað í vandræði. Þann 16. október 1733 var hann svo gerður að amtmanni á Íslandi og kom til landsins árið eftir. 1737 hlaut hann jústitsráðsnafnbót. Lafrenz og Ludvig Holberg voru kunningjar og talið er að Holberg sé að einhverju leyti að skjóta á Lafrenz þegar hann talar í einum pistla sinna um tvo víðförla menn sem gátu talað frönsku af þvílíkri list að engin leið var að þekkja þá frá innfæddum Parísarbúum.

Lafrenz lenti brátt í deilum við Skúla Magnússon, sem gekk hart eftir loforði sem honum hafði verið gefið um að fá næsta sýslumannsembætti sem losnaði ef hann tæki fyrst að sér sýslumannsstörf í Skaftafellssýslu. Árið 1735 drukknaði Jens Spendrup, sýslumaður Skagfirðinga, og Skúli vildi fá embættið en amtmaður ætlaði öðrum manni það. Þeir sigldu báðir til Kaupmannahafnar haustið 1736 og reyndi Lafrenz að koma í veg fyrir að Skúla yrði veitt sýslan en vildi í staðinn styðja hann til lögmannsembættis, sem var tignara embætti en mun tekjuminna. En Skúli hélt fast við sitt og hafði betur, þótt amtmaður skrifaði stjórninni mjög harðort bréf. Magnús Ketilsson, frændi Skúla, sagði seinna að Lafrenz hefði „notað þrumustíl“ í bréfinu. Þegar frá leið var samkomulag þeirra Skúla og amtmanns þó allgott.

Lafrenz amtmaður var heilsuveill síðustu árin. Hann dó á Bessastöðum í ársbyrjun 1744 og var grafinn þar. Hann hafði átt í deilum við Bjarna Halldórsson sýslumann á Þingeyrum, sem var þá staddur erlendis, en þegar hann kom heim reið hann að Bessastöðum og stefndi amtmanni dauðum í gröfinni. Lafrenz átti líka í deilum við Jón Árnason biskup.

  • „Lafrentz, Joachim Henriksen“. Dansk biografisk leksikon.
  • „„Sýslumaður í Skaftafellssýslu.". Lesbók Morgunblaðsins, 11. nóvember 1945.


Fyrirrennari:
Niels Fuhrmann
Amtmaður
(17331744)
Eftirmaður:
Johan Christian Pingel