Theodóra Thoroddsen
Theodóra Thoroddsen (f. 1. júlí 1863, d. 23. febrúar 1954) hét fullu nafni Theodóra Friðrika Guðmundsdóttir Thoroddsen. Hún var skáld og er einkum þekkt fyrir þulur sínar.
Ævi
[breyta | breyta frumkóða]Theodóra fæddist að Kvennabrekku, Miðdalahr., Dal. Foreldrar hennar voru Guðmundur Einarsson, prestur og alþingismaður (móðurbróðir Matthíasar Jochumssonar skálds), síðar prófastur á Breiðabólstað á Skógarströnd, og Katrín Ólafsdóttir, húsfreyja. Faðir Katrínar var Ólafur Sívertsen prófastur og alþingismaður í Flatey á Breiðafirði, og var kona hans Jóhanna Friðrika Eyjólfsdóttir. Hjónin eignuðust 14 börn og var Theodóra yngst þeirra þriggja sem náðu fullorðinsaldri. Hin tvö voru Ásthildur Jóhanna, síðar Thorsteinsson (móðir m.a. Katrínar Thorsteinsson Briem, Guðmundar Thorsteinsson (Muggs), og Samúels Thorsteinsson læknis), og Ólafur Sívertsen, síðar héraðslæknir.
Theodóra ólst upp á miklu menningarheimili, stundaði nám í Kvennaskólanum í Reykjavík og útskrifaðist 1879. Hún giftist Skúla Thoroddsen, sýslumanni, bæjarfógeta, alþingismanni og ritstjóra (þau voru þremenningar), og fluttu þau 1884 til Ísafjarðar, þegar maður hennar tók við embætti sýslumanns þar. Þar ráku þau prentverk og blaðaútgáfu og umsvifamikil verslunarviðskipti m.a. við útlönd. Árið 1901 flutti Theodóra suður með þau yngstu úr barnahópnum, en 1898 höfðu þau keypt Bessastaði á Álftanesi, og hafði Skúli sett þar þegar bú árið 1899 og hafði mikið umleikis, reisti prentverk og hélt heimaskóla; og þar bjuggu þau við rausn. Síðar eða árið 1908, reistu þau sér hús við Vonarstræti nr. 12 í Reykjavík. Heimili þeirra var mannmargt og mikill menningarbragur á. Skúli og Theodóra eignuðust þrettán börn. Tólf náðu fullorðinsaldri og urðu nokkur börn þeirra þjóðkunn af störfum sínum; börn þeirra eru: Unnur húsfreyja, Guðmundur, prófessor og yfirlæknir, Þorvaldur lést í frumbernsku, Skúli, yfirdómslögmaður og alþingismaður (yngstur allra fulltrúa sem setið höfðu á þingi Íslendinga, síðan það var stofnað), Þorvaldur fór til Vesturheims, Kristín Ólína yfirhjúkrunarkona og skólastýra, Katrín læknir, alþingismaður og bæjarfulltrúi, Jón lögfræðingur og skáld, Ragnhildur húsfreyja, Bolli borgarverkfræðingur, Sigurður verkfræðingur og alþingismaður, Sverrir bankafulltrúi og María Kristín húsfreyja. Afkomandi Theodóru og Skúla er Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Þulur Theodóru voru fyrst gefnar út árið 1916. Guðmundur Thorsteinsson (Muggur), systursonur hennar, myndskreytti. Þær voru endurútgefnar 1938 (Sigurður Thoroddsen, sonur Theodóru, myndskreytti þá útgáfu), 1950, 1981 og 2000. Ritsafn Theodóru kom út 1960; um útgáfuna sá Sigurður Nordal. Eins og gengur (smásögur) kom út 1920.
Kvæði, stökur og sagnir Theodóru eru birtar víða, meðal annars í Mánaðarriti Lestrarfélags kvenna í Reykjavík (1911-1931). Hún þýddi sögur úr öðrum tungumálum og safnaði einnig þjóðsögum. Islandsk folketru var útgefin í Kristjaníu 1924, eftir handriti hennar. Theodóra var einnig mikilvirk og listfeng hannyrðakona. Sýningar hafa verið haldnar á verkum hennar.
Verk
[breyta | breyta frumkóða]- Þulur eftir Theodóru Thoroddsen, 1916
- Theodóra Thoroddsen, Kaupstaðarferð. – Skírnir, 1. Tölublað (01.01.1936), p. 191-198
- Theodora Thoroddsen, Ritsafn, Sigurður Nordal, 1960.