Fara í innihald

Pílagrímsferð

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Pílagrímur)

Pílagrímar eru þeir nefndir sem ferðast til heilagra staða, en ferðamerkingin er þó eldri en hin trúarlega. Orðið pílagrímur er komið úr miðaldalatínu pelegrinus sem er hljóðbreyting frá peregrinus í klassískri latínu (það er útlendingur). Pílagrímsferðir eru mikilvægar í flestöllum trúarbrögðum og eru farnar í þakkargjörðarskyni, í yfirbótarskyni, eða einfaldlega vegna trúarlegs eða menningarlegs áhuga. Flestir pílagrímar leggja á sig töluverðan tíma, erfiði og kostnað við vegferðina og er ferðin sjálf oft jafn mikilvæg og áfangastaðurinn. Staðirnir sem pílagrímar heimsækja tengjast oftast atburðum og persónum úr heilögum ritum. Á leiðinni eru bænir beðnar og helgir textar íhugaðir um leið og holdið er tyftað með líkamlegri áreynslu en misjafnt er hversu nákvæmar reglur eru um pílagrímsgönguna.

Pílagrímagöngur hafa haft mikilvægt efnahagslegt gildi, sérlega fyrir hina heilögu stað en einnig fyrir þorp og bæi á vegferðinni. Þetta er snar þáttur í endurvakningu pílagrímaferða í Evrópu á síðustu áratugum.

Þó svo að hugtakið pílagrímur sé oftast notað í trúarlegu samhengi er ekki sjaldgæft að samskonar fyrirbæri skapist í pólitísku samhengi, má þar nefna ferðir að grafhýsi Leníns í Moskvu og dýrkun tengd Mao Zedong, Kim Il Sung og Ho Chi Minh. Hugtakið er einnig alloft notað í óeiginlegri merkingu um för á merkilega staði.

Bahá'í pílagrímar

[breyta | breyta frumkóða]
Musteri Bábans í Haifa

Stofnandi Bahá'í trúarinnar, Bahá'u'lláh, lagði fyrir um pílagrímagöngur á tvo staði, að heilögu húsi í Bagdad í Írak og eins í borginni Shiraz í Íran. Hann lýsti einnig nákvæmlega reglum um hegðun í samband við ferðirnar. Eftirmaður Bahá'u'lláh, `Abdu'l-Bahá, sagði fyrir um þriðja pílagrímamarkmið trúaðra bahaía, Heimsmiðstöð bahá'í trúarinnar í Haifa í Ísrael. Það er nú í raun eina pílagrímamöguleiki trúarinnar þar sem hinir tveir eru nú algjörlega lokaðir trúuðum. [1]

Búddískir pílagrímar

[breyta | breyta frumkóða]
Tíbetanskir pílagímar á leið til Lhasa; þeir kasta sér endilöngum á jörðina.

Pílagrímaferðir eru mikilvægur þáttur í flestum greinum búddisma og eru þáttur í menntun munka og nunna. Heilögustu staðir búddismans eru flestir á sléttunni við Ganges-fljótið og í suðurhluta Nepal. Gautama Buddha lifði og starfaði á þessum slóðum og þar eru helstu heilagir staðir búddista. Þeir mikilvægustu eru: Lumbini: fæðingarstaður Gautama Buddha (í Nepal); Bodh Gaya: þar sem hann varð upplýstur; Sarnath: þar sem hann hélt fyrsta fyrirlesturinn; Kusinara: (nú Kusinagar, á Indlandi) þar sem hann náði mahaparinirvana (dó). Mikill fjöldi annarra staða eru markmið pílagrímaferða, má þar nefna Lhasa í Tíbet, Angkor Wat í Kambódíu, Polonnaruwa á Sri Lanka, Luang Prabang í Laos, Borobudur í Indónesíu og Kyoto í Japan[2]

Gyðinga pílagrímar

[breyta | breyta frumkóða]
Grátmúrinn er allt sem eftir stendur af musterinu í Jerúsalem

Musterið í Jerúsalem var miðpunktur trúarathafna gyðinga þar til það var jafnað við jörðu árið 70. Þangað áttu allir fullorðir karlmenn að fara á helstu hátíðum til að taka þátt í trúarathöfnum. Frá því að gyðingar voru sendir í útlegð af rómverjum ár 135 og næstu eitt þúsund og átta hundruð árin áttu fæstir þeirra möguleika að sækja Jerúsalem heim. Draumurinn um það var þó snar þáttur í trúarlífi og hefðum gyðinga. Nú á tímum fara gyðingar allstaðar að úr heiminum í pílagrímaferðir til Jerúsalem og er Grátmúrinn aðal markmiðið. [3]

Hindúiskir pílagrímar

[breyta | breyta frumkóða]
Kumbh Mela hátíðin

Pílagrímaferðir eru ekki nein kvöð í hindúisma þó svo að fjölmargir fari í þær. Það er meðal annars trú margra að bæta megi karma fyrir næsta líf með því að sækja heim helga staði. Má þar nefna meðal fjölmargra borgirnar Allahabad, Haridwar, Varanasi og Vrindavan. Kumbh Mela pílagrímaferðin er farin á tólf ára fresti og er fjölmennasta trúarathöfn í heimi, um 60 miljónir tóku þátt í henni 2005. [4]

Kristnir pílagrímar

[breyta | breyta frumkóða]
Pílagrimar á Jakobsvegi á leið til Santiago de Compostela

Pílagrímaferðir eru gömul hefð í flestum greinum kristinnar trúar. Upphaflega voru þær farnar á staði tengda lífi og dauða Jesú. Heimildir eru til um ferðir kristinna pílagríma til Landsins helga allt frá 4. öld þegar meðal annarra Hieronymus kirkjufaðir hvatti til bænaferða. Fljótlega hófust einnig ferðir til Rómarborgar og annarra staða sem tengdust postulunum, dýrlingum og sérlega stöðum þar sem María mey hafði opinberað sig. Krossferðirnar voru farnir sem pílagrímsferðir meðfram til að frelsa Landið helga frá múslimum. Á miðöldum var mikill fjöldi helgistaða á meginlandi Evrópu og varð mikil ferðamannaþjónusta í kringum ferðalög pílagríma. Á 4. og 5. öld jókst dýrkun helgra dóma og þóttu þeir bestir sem gerðu tilkall til að eiga gripi sem tengdust Jesú eða postulunum á einhvern hátt. Á miðöldum voru pílagrímsferðir fyrst og fremst farnar í sáluhjálparskyni í von um andlegar eða líkamlegar náðargjafir og sem þakkargjörð og einnig í yfirbótarskyni, ýmist af eigin frumkvæði eða fyrirlagt af andlegum eða veraldlegum yfirvöldum. Ferðunum var heitið til staða sem geymdu leifar dýrlinga og annarra heilagra manna. Líkamar og hlutar af líkum heilagra manna og hlutir sem höfðu verið í snertingu við þá voru helgir dómar og bjuggu yfir andlegum kröftum. Fyrir utan Jerúsalem sem fæstir áttu aðgang að urðu helstu pílagrímamarkmiðin Rómarborg, Santiago de Compostela á Spáni, Lourdes í Frakklandi og fyrir rétttrúnaðarkirkjuna Konstantínópel (sem nú heitir Istanbúl) í Tyrklandi. Fyrir Norðurlandabúa voru pílagrímsferðir til Niðaróss nærtækastar en margir lögðu á sig að ganga til Rómar.

Heimildir eru um fjölmarga Íslenska pílagríma á miðöldum, má þar nefna Nikulás ábóta á Munkaþverá (dáinn 1159) sem skrifaði leiðarlýsingu fyrir pílagríma; Sturla Sighvatsson sem fór í suðurför fyrir mótgerðir sínar við Guðmund biskup góða og var leiddur berfættur milli höfuðkirkna í Rómaborg og flengdur. Í Grænlendinga sögu er frá því sagt að Guðríður Þorbjarnardóttir kona Þorfinns karlsefnis, sú er fór með honum til Vínlands, gekk suður og gerðist síðan einsetukona þegar heim kom. Einnig er sagt frá því í Gísla sögu Súrssonar að Auður Vésteinsdóttir kona Gísla hafi farið í pílagrímsferð til Rómar að honum látnum og aldrei snúið aftur. Einna frægastur er Björn Einarsson Jórsalafari sem fór til Jerúsalem árið 1406. [5] Voru pílagrímaferðir jöfnum höndum nefndar suðurgöngur.

Mjög dró úr pílagrímaferðum, sérlega langferðum, er miðöldum lauk. Á síðustu áratugum hafa þær þau aukist mjög og í mörgum tilvikum fremur tengdar ferðamennsku og menningarsögu en trúmálum. Sérlega hefur aðsókn á Jakobsveginn til Sanitago de Campolstela aukist gífurlega, einnig hefur hin endurvakti vegur Ólafs helga til Niðaróss vaxið að vinsældum.

Athuga ber að mótmælendakirkjur viðurkenna ekki, andstætt við kaþólsku kirkjuna og rétttrúnaðarkirkjurnar, pílagrímaferðir sem trúarlegar athafnir sem geti haft andlegar náðargjafir í för með sér. Þær líta ekki heldur á staði tengda pílagrímsferðum sem helgistaði þar sem kraftaverk geti átt sér stað. Í Ágsborgarjátningunni[6] (grundvallarjátningu evangelísk-lúthersku kirkjunnar) 20. grein eru pílagrímsferðir sagðar „barnaleg og ónauðsynleg verk". Þó að mótmælendur heimsæki staði eins og t.d. gröf Lúthers er hvorki litið á það sem kristna skyldu né að þar sé um helgistað að ræða. Kalvín lét grafa sig á óþekktum stað til að koma í veg fyrir pílagrímsferðir. Á síðustu áratugum hefur afstaða lúthersku kirknanna á Norðurlöndum gagnvart pílagrímaferðum snúist frá því sem áður var. Þær sækjast ekki eftir kraftaverkum miðaldakirkjunnar heldur líta á pílagrímaferðina sem bænagjörð með fótunum. [7]

Múslimskir pílagrímar

[breyta | breyta frumkóða]
Pílagrímur í Mekka.

Pílagrímsferð múslima til Mekka er nefnd hadsjí er og er ein af fimm stoðum íslams samkvæmt Sunní og einnig hinum tíu greinum trúarinnar samkvæmt Shía. Allir múslimar, sem heilsu hafa og hafa efni á, eiga að fara í slíka pílagrímsferð að minnsta kosti einu sinni á ævinni. Þar að auki fara múslimar iðulega í pílagrímsferðir til ýmissra annarra staða tengda starfi Múhameðs eins og borgin Medína. Í trúarhefð Shía eru grafir imama haldnar heilagar og eru markmið pílagríma auk annarra helgistaða. Einnig fylgir mikil helgi Musterishæðinni í Jerúsalem, og fara múslimar í pílagrímsferðir til Al Aqsa moskunnar og til Klettamoskunnar þar.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Bahá'í Pilgrimage. Allen, Denny; Lesley Taherzadeh. George Ronald, Oxford, UK 2006: . ISBN 0-85398-487-5.
  2. Foundations of Buddhism. Gethin, Rupert (1998). Oxford University Press. ISBN 0-19-289223-1.
  3. Pilgrimage and the Jews. David M. Gitlitz og Linda Kay Davidson. Praeger Publishers 2005. ISBN 0-275-98763-9
  4. The Essentials of Hinduism: A Comprehensive Overview of the World's Oldest Religion. Swami Bhaskarananda. Viveka Press 2002. ISBN 1-884852-04-1
  5. Íslensk miðaldasaga. Björn Þorsteinsson,Sögufélagið, 1980
  6. Ágsborgarjátningin
  7. „Vefur sænsku þjóðkirkjunnar um pilagríma“. Afrit af upprunalegu geymt þann 31 júlí 2021. Sótt 8 júlí 2008.
  • Christian Krötzl: "Den nordiska pilgrimskulturen under medeltiden." In: Helgonet i Nidaros.Olavskult och kristnande i norden. o.O. (1997) S. 141–160.
  • Coleman, Simon and John Elsner (1995), Pilgrimage: Past and Present in the World Religions. Cambridge: Harvard University Press.
  • Coleman, Simon & John Eade (eds) (2005), Reframing Pilgrimage. Cultures in Motion. London: Routledge.
  • Margry, Peter Jan (ed.) (2008), Shrines and Pilgrimage in the Modern World. New Itineraries into the Sacred. Amsterdam: Amsterdam University Press.
  • Sumption, Jonathan. 2002. Pilgrimage: An Image of Mediaeval Religion. London: Faber and Faber Ltd.
  • Wolfe, Michael (ed.). 1997. One Thousands Roads to Mecca. New York: Grove Press.