John Tyler
John Tyler, Jr. (29. mars 1790 – 18. janúar 1862) var tíundi forseti Bandaríkjanna og þjónaði því embætti frá 1841 til 1845. Tyler var fyrsti forsetinn sem fæddist eftir að stjórnarskrá Bandaríkjanna tók gildi.
Tyler var kjörinn varaforseti Bandaríkjanna í forsetaframboði Williams Henry Harrison árið 1840. Harrison lést aðeins einum mánuði eftir að hann tók við embætti og Tyler varð þar með forseti Bandaríkjanna. Þetta var í fyrsta skipti sem forseti landsins lést í embætti og því var nokkur lagaleg óvissa um það hvort varaforsetinn myndi sjálfkrafa taka við embættinu og gegna því út kjörtímabilið, eða hvort hann yrði aðeins starfandi forseti. Tyler átti nokkurn þátt í að fastmóta þá reglu að varaforsetinn væri réttkjörinn forseti fram að næstu kosningum í þessum aðstæðum.
Harrison og Tyler höfðu náð kjöri fyrir flokk Vigga en eftir að Tyler varð forseti lenti hann í útist��ðum við flokkinn og var að endingu rekinn úr honum. Á forsetatíð Tylers innlimuðu Bandaríkin Lýðveldið Texas, sem hafði klofið sig frá Mexíkó áratugi fyrr. Innlimun Texas leiddi til stríðs Mexíkó og Bandaríkjanna, sem hófst eftir að Tyler lét af embætti.
Þegar þrælastríðið hófst árið 1861 studdi Tyler Suðurríkjasambandið á móti ríkisstjórn Bandaríkjanna. Tyler var eini fyrrum forsetinn sem tók opinberlega afstöðu með uppreisnarmönnunum. Hann var kjörinn á þing Suðurríkjasambandsins en lést í janúar 1862 í Richmond áður en hann gat tekið við þingsætinu. Jefferson Davis, forseti Suðurríkjasambandsins, gaf Tyler ríkisútför og lét sveipa fána Suðurríkjasambandsins um líkkistu hans. Tyler er eini forseti Bandaríkjanna sem hefur verið grafinn undir öðrum fána en fána Bandaríkjanna.
Fyrirrennari: William Henry Harrison |
|
Eftirmaður: James K. Polk |