Kosningaréttur
Kosningaréttur er réttur fólks til þess að taka þátt í lýðræðislegum kosningum. Oft er kosningaréttur stjórnarskráarlega varinn en algengast er að fólk fái kosningarétt við 18 ára aldur, eins og tíðkast á Íslandi. Kosningaréttur hefur jafnt og þétt verið víkkaður út eftir því sem lýðræðisumbætur hafa átt sér stað víða um heim. Einveldi konunga var lagt af í Evrópu á 19. og 20. öld og við það fengu oftast efnaðir, hvítir karlmenn kosningarétt. Með tímanum fengu konur kosningarétt (þó ekki fyrr en 1971 í Sviss), fólk af öðrum kynþætti en hvítum og borgarar almennt burt séð frá efnahag.
Kosningaréttur á Íslandi
Íslendingar fengu fyrst kosningarétt með tilskipun sem Kristján 8. Danakonungur gaf út 8. mars 1843 og var hann bundinn því að menn væru orðnir 25 ára, hefðu óflekkað mannorð og ættu að minnsta kosti 10 hundraða jörð eða múr- eða timburhús í kaupstað sem metið væri á að minnsta kosti 1000 ríkisdali eða hefðu lífstíðarábúð á 20 hundraða jörð. Karlmenn einir höfðu kosningarétt.
Reglurnar um eign voru rýmkaðar dálítið þegar kosið var til þjóðfundarins 1851 og aftur árið 1903. Þá fengu karlmenn sem ekki voru öðrum háðir sem hjú og borguðu fjórar krónur eða meira í útsvar kosningarétt.
Árið 1915 var svo gerð veruleg breyting; konur fengu þá kosningarétt og einnig allir sem orðnir voru 25 ára og skulduðu ekki sveitarstyrk. Þessum nýju kjósendum var þó ekki strax treyst til að beita kosningaréttinum; aðeins þeir sem orðnir voru 40 ára máttu kjósa og það mark átti síðan að færast niður um eitt ár á ári þar til 25 ára markinu væri náð. Þessar takmarkanir voru þó felldar niður árið 1920 þegar ný stjórnarskrá Íslands var fest í gildi.
Enn varð breyting árið 1934, þegar kosningaréttur var færður niður í 21 árs aldur og takmarkanir á kosningarétti vegna skuldar við sveitarsjóð voru numdar úr gildi. Kosningaaldurinn var svo lækkaður í 20 ár árið 1968 og að lokum í 18 ár 1984.
Fyrsti kosningaréttur kvenna 1882
Árið 1882 fengu konur í fyrsta skipti kosningarétt á Íslandi. Þessi kosningaréttur var þó afar takmarkaður og hljóðaði upp á að ekkjur og aðrar ógiftar konur sem sátu fyrir búi eða áttu með sig sjálfar fengu kosningarétt í sýslunefnd, hreppsnefnd, bæjarstjórn og á safnaðarfundum. Þessi réttur gilti fyrir konur sem voru eldri en 25 ára og honum fylgdi ekki kjörgengi. Það skal tekið fram að vinnukonur áttu sig ekki sjálfar og voru því mjög fáar konur sem gátu nýtt sér þennan kosningarétt.