Lífselixír
Lífselixír er vökvi sem ætlað er að tryggja eilíft líf og/eða eilífa æsku. Gullgerðarmenn reyndu að búa til slíkan drykk og margar sagnir eru um að leitað hafi verið að slíkum drykkjum. Orðið er einnig haft um lyf við öllum sjúkdómum, ódáinsveig hinna jarðnesku. Iðnjöfrar í hinum vestræna heimi settu á markað ýmis smyrsl, jurtir, bakstra og töflur sem áttu að bæta heilsu og lækna. Í kringum 1880 rann upp blómaskeið lífselixíranna. Þetta voru oft dropar sem áttu að vera allra meina bót, vera fjörgunarlyf og lífsvekjarar.
Englendingurinn Thomas Holloway auðgaðist mjög af slíkri sölu og varð á sinni tíð einn auðugasti maður Bretlands en síðar kom í ljós að undralyf hans voru gagnlaus. Þjóðverjinn Samuel Hahnemann var upphafsmaður þess sem kallað er hómópatía eða smáskammtalækningar en innan þeirra var það viðhorf að hægt væri að lækna krankleika með að gefa þeim sem átti að lækna útþynnt eiturefni sem framkölluðu sömu einkenni og sjúkdómur.
Grassía
breytaÝmis meðöl voru auglýst seld á Íslandi og auglýst mikið bæði með meðmælabréfum og leiðarvísum þar sem verkan lyfjanna var lofuð og þau sögð allra meina bót. Eitt slík meðal var grassía eða harlemolía sem var brennisteinsblanda og áttu grassíudropar að lækna mörg mein en framleiðandi fullyrti: „Gratia probatum læknar allan skjálfta og máttleysi i útlimum, alla blóðólgu, maga- og lifrarsjúkdóma, lungnaveiki, síðustingi, brjóstþyngsli, bæði innri og ytri meiðsli, kýli, móðursýki og tíðateppu. Það bætir og hægðir til baks og kviðar, hreinsar blóðið fyrir skaðlegum vessum og veitir andlitum heilbrigðislit. Þeir, sem veikir eru af skyrbjúg, vatnssýki eða beinkröm, skulu taka annan hvern dag fimmtán dropa, en börnum skal gefa það eftir aldri." Ennfremur var fullyrt að grassían læknaði gigt, hjartslátt, höfuðverk og beinskaða og augnveiki, linaði tannþrautir og læknaði eyrnaverk og læknaði steinsótt algjörlega á níu mánuðum.
Undrakrónessensinn
breytaÁ eftir grassíu kom undrakrónessensinn (wunder-kronessens) sem átti að taka í dropatali og var meðal sem sagt var verja fyrir öllu eitri, illu lofti og drepsótt og lækna fransós, hamla æxlum og auka náttúru karla og auðvelda konum að fæða og gera hvítvoðunga væra ef dropum af því væri blandað í móðurmjólkina.
Brama-lífs-elixír og bramalífsessens
breytaDanirnir Mansfeld-Bullner og Lassen hófu framleiðslu á vökva í kringum 1870. Það var fyrst meltingarbætandi, svonefndur matarbitter sem átti að bæta meltinguna og auka matarlyst. Síðar fóru þeir að auglýsa að vökvinn ynni á mörgum meinum og markaðsettu undir nafninu brama-lífs-elixír. Vökvinn var seldur í flöskum og á þær var límdur merkimiði með gullnum hana og bláu ljóni. Stúturinn var innsiglaður með grænu lakki. Mansfeld-Bullner eignaðist síðan einn fyrirtækið og auðgaðist á vökvasölunni. Iðjuhöldur að nafni C.A. Nissen setti upp efnavinnslu og hóf að framleiða sams konar bitter sem hann nefndi bramalífsessens. Nissen seldi sinn vökva einnig í litlum flöskum sem voru mjög líkar brama-lífs-elixír-flöskum Mansfeld-Bullner. Nissen límdi miða á sínar flöskur og var á þeim mynd af fjórum verðlaunapeningum og tveimur grískum goðum þeim Herkúlesi og Hygeiu. Nissen innsiglaði sínar flöskur líka með grænu lakki. Samkeppni þessara tveggja söluaðila lífselixíra var töluverð og rataði í íslensk blöð og auglýsingar.
Íslendingurinn Björn Bjarnarson hafði um þetta leyti stofnað bókmenntatímaritið Heimdall. Hann gerði samkomulag við Mansfeld-Bullner og birtust ýmsar auglýsingar um brama-lífs-elixír. Þær fyrstu birtust í Heimdalli vorið 1884 og birti tímaritið einnig skjallgrein um Mansfeld-Bullner. Í auglýsingum sem birtust á Íslandi frá Bullner er varað við bramalífsessens Nissens því Bullner einn selji hinn ekta verðlaunaða brama-lífs-elixír og fullyrt að heiðurspeningarnir á flöskum Nissens séu falspeningar og Nissen vökvinn falsvökvi og leiðarvísir Nissens sé afrit af brama-lífs-elixírs leiðarvísinum.[1] Nissen birti svargreinar í íslenskum tímaritum og bar þar á Bullner að hann okraði á Íslendingum og seldi lífselixírinn fimmtán aurum dýrari á Íslandi en í Danmörku. Bullner svaraði með að draga vísindi inn. Hann hampaði umsögn frá lækni að nafni Melchior sem hefði rannsakað bramalífsessensinn og fundið hann léttvægan, óekta og ólíkan elixír en brama-lífs-elixír frá Bullner væri kostabestur. Einnig birti Bullner árið 1885 yfirlýsingu undirritaða af fjölda Dana sem mæla með brama-lífs-elexírnum en vara við öðrum lífsvekjurum. Bullner lét líka litskrúðuga bæklinga fylgja sínum elixír og var þar vitnað í læknisvísindi og nefndur til Dr. med. Alex Groyen sem hældi brama-lífs-elixírnum mjög og nefndi meðal annars að hann komi í veg fyrir jómfrúgulu og gagnleysi á karlmönnum og við nautn þess ykist líkamanum styrkur og stinnleik, sálargáfur verði fjörlegri og n��mari og fylgi því glaðværð, hugdirfð og starfsfýsn. Bullner vitnaði í ýmsa lærða menn sem voru sagðir gefa lífselixír hans læknisfræðilegt vottorð og var þar meðal annars vitnað í dr. Jóhannes Muller heilbrigðisráðherrra í Berlín, riddara af hinni hertogalegu saxnesku Ernestínuorðu, sæmdur medalíum fyrir vísindalegan dugnað af kóngunum í Wurtenberg og Hannóver og hertoganum af Anhalt-Sonderrhausen.
Heimildir
breyta- Den diætetiske Sundheds Taffelbitter Brama-Livs-Elixir fra Firmaet Mansfeld-Bullner & Lassen 1892
- Kynjalyf 19. aldar 1. grein, Tíminn Sunnudagsblað, 14. tölublað (11.04.1965),Bls.324
- Gullni haninn og bláa ljónið, 2. grein, Tíminn Sunnudagsblað, 15. tölublað (25.04.1965), Bls. 348
- Brahmalífselexír 3. grein, Tíminn Sunnudagsblað, 16. tölublað (02.05.1965), Bls. 372
- Um lífselexíra. 4. grein, Tíminn Sunnudagsblað, 17. tölublað (09.05.1965), bls. 396
- Lífselixír - Er hann til ? Geymt 27 september 2021 í Wayback Machine
- Meðalinu aldrei kennt um þó ekki batni, Tíminn, 219. Tölublað - Blað 2 (26.09.1982), Bls.6
- H.V. Mansfeld-Büllner(grein á dönsku Wikipedia)
- Auglýsing um Kína lífs elixír, Norðurland, 20. tölublað (19.12.1908), bls. 76