Hideki Tojo

Japanskur hershöfðingi og forsætisráðherra (1884-1948)

Hideki Tōjō (東條 英機 á japönsku) (30. desember 188423. desember 1948) var hershöfðingi í her japanska keisaradæmisins. Hann var 27. forsætisráðherra Japans á meðan á seinni heimsstyrjöldinni stóð, frá 17. október 1941 til 22. júlí 1944. Sem forsætisráðherra fyrirskipaði hann árásina á Perluhöfn, en undirbúningur fyrir hana hafði hafist í apríl 1941, áður en Tojo tók við embætti. Eftir að stríðinu lauk var Tojo handtekinn og dæmdur til dauða fyrir stríðsglæpi Japana. Hann var hengdur þann 23. desember 1948.[1]

Hideki Tōjō
東條 英機
Forsætisráðherra Japans
Í embætti
17. október 1941 – 22. júlí 1944
ÞjóðhöfðingiShōwa
ForveriFumimaro Konoe
EftirmaðurKuniaki Koiso
Persónulegar upplýsingar
Fæddur30. desember 1884
Tókýó, Japan
Látinn23. desember 1948 (63 ára) Tókýó, Japan
DánarorsökHengdur
MakiKatsuko Ito (1890–1982)
Börn3 synir, 4 dætur
HáskóliJapanski keisaraherháskólinn
StarfHerforingi
Undirskrift

Æviágrip

breyta

Hideki Tojo fæddist í Tókýó í Japan árið 1884. Hann var þriðji sonur Hideroni Tojo, liðsforingja í japanska keisarahernum. Eldri bræður Tojo dóu áður en hann fæddist. Árið 1909 giftist hann Katsuko Ito og eignaðist með henni þrjá syni og fjórar dætur.

Árið 1905 útskrifaðist Tojo úr keisaralega herháskólanum í Tókýó og gekk í herinn sem undirliðsforingi í fótgönguliði. Tojo var sendur til Evrópu á vegum japönsku utanríkisþjónustunnar frá 1919 til 1922 og dvaldi í Sviss og Þýskalandi.[2] Þegar hann sneri heim til Japans gerðist hann kennari í herskóla.[2] Hann klifraði hratt upp metorðastigann í hernum. Á þriðja áratugnum gekk Tojo í Tōseiha-hópinn innan hersins; samtök hófsamra íhaldsmanna sem stóðu gegn hinum róttæka Kōdōha-hóp. Fylkingarnar tvær voru báðar hluti af leynifélaginu Tvílaufareglunni, sem aðhylltist öfgaþjóðernishyggju.

Árið 1935 var Tojo gerður að ofursta og að höfði herlögreglunnar í Mansjúríu. Þegar japanskir hermenn Kōdōha-hópsins gerðu tilraun til valdaráns þann 26. febrúar árið 1936 stóð Tojo með keisarastjórninni. Eftir atvikið fékk Tōseiha-hópurinn umboð til að hreinsa róttæklinga úr röðum hermannanna og taka af lífi alla sem höfðu stutt uppreisnarseggina.

Stjórnmálaferill

breyta

Árið 1938 var Tojo gerður að vararáðherra hersins. Frá desember 1938 til 1940 varð hann aðalumsjónarmaður japanska keisaraflughersins. Hann bar jafnframt ábyrgð á japönsku leyniþjónustunni í aðdraganda heimsstyrjaldarinnar og á meðan henni stóð. Líkt og margir herforingjar og aðalsmenn studdi Tojo aðild Japans að Öxulveldunum ásamt Þýskalandi og Ítalíu.

 
Tojo á bandarísku áróðursplakati frá stríðsárunum. Tojo var notaður sem „andlit óvinarins“ í bandarískum áróðri og var oft teiknaður á máta sem bar vott um andjapanska kynþáttahyggju.

Á meðan Tojo gegndi embætti innanríkisráðherra stýrði hann lögreglunni í Tókýó. Hann varð hermálaráðherra árið 1940 og gegndi þeirri stöðu til ársins 1941 en þá gerði Hirohito keisari hann að forsætisráðherra. Tojo varð þó áfram hermálaráðherra og gegndi öðrum ráðherraembættum samhliða því að vera forsætisráðherra.[2] Á stríðsárunum útmálaði bandarískur áróður Tojo sem eins konar japanska hliðstæðu Adolfs Hitler.[2] Tojo var þó aldrei eins valdamikill í Japan og Hitler í Þýskalandi og var aldrei eiginlegur einræðisherra.

Eftir fjölda ósigra gegn Bandaríkjunum, sér í lagi í orrustunni við Saípan[3], glataði Tojo smám saman trausti bandamanna sinna og fékk lausn úr embætti frá keisaranum þann 18. júlí 1944.

Handtaka, réttarhöld og aftaka

breyta

Eftir uppgjöf Japana fyrir Bandamönnum árið 1945 skipaði bandaríski hershöfðinginn Douglas MacArthur handtöku fjörutíu grunaðra stríðsglæpamanna, þar á meðal Tojo. Tojo var því handtekinn þann 11. september 1945 í húsi sínu í Setagaya af herlögreglumönnum í fylgd með blaðamönnum og ljósmyndurum. Stuttu áður en lögreglan handsamaði hann reyndi Tojo að fremja sjálfsmorð með því að skjóta sig í brjóstkassann en missti marks á hjartanu. Á meðan Tojo blæddi mælti hann þessi orð við tvo japanska blaðamenn: „Mér þykir mjög fyrir því að það taki mig svona langan tíma að deyja. Stríðið í Austur-Asíu var réttsýnt og réttlátt. Ég er afar hryggur fyrir hönd þjóðarinnar og allra kynþátta hinnar miklu Asíu. Ég bíð réttláts dóms sögunnar. Ég vildi fremja sjálfsmorð en stundum tekst það ekki.“[4]

Við stríðsglæparéttarhöldin í Tókýó lýsti Tojo því yfir í fyrstu yfirheyrslunni að „enginn [hefði getað] óhlýðnast keisaranum“ og gaf þannig í skyn að aðeins Hirohito hefði getað tekið ákvarðanir eins og þær að ráðast á Perluhöfn eða um að binda enda á stríðið. Eftir þrýsting frá saksóknaranum Joseph B. Keenan breytti Tojo málflutningi sínum í seinni yfirheyrslum og lýsti því yfir að keisarinn hefði alltaf verið málsvari friðar.

Meðferð MacArthurs og starfsmanna hans á Tojo hefur mikið verið gagnrýnd í seinni tíð og deilt um hvort Tojo hafi verið gerður að blóraböggli fyrir stríðsglæpi sem Hirohito keisari bar í raun mesta ábyrgð á.[5][6] Samkvæmt greinagerð eftir japanska túlkinn Shūichi Mizota um fund á milli bandaríska hershöfðingjans Bonner Fellers og Mitsumasa Yonai flotaforingja þann 6. mars 1946 sagði Fellers: „Það væri heppilegast ef Japanir gætu sannað fyrir okkur að keisarinn sé með öllu saklaus. Ég held að yfirvofandi réttarhöld séu tilvalin til þess. Sérstaklega ætti að gera Tojo ábyrgan fyrir öllu í réttarhöldunum.“[7]

Tojo var sakfelldur fyrir stríðsglæpi árið 1948 og hengdur þann 23. desember sama ár.[8] Eftir aftöku Tojo var hann brenndur og öskum hans dreift yfir Kyrrahafið til að koma í veg fyrir að hvíldarstaður hans yrði að helgireit fyrir japanska þjóðernissinna.[9]

Tilvísanir

breyta
  1. Yenne, Bill (2014). The Imperial Japanese Army: The Invincible Years 1941–42. Oxford, United Kingdom: Osprey Publishing. Bls. 337.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 „Hvað gerði Japaninn Hideki Tojo í seinni heimsstyrjöldinni?“. Vísindavefurinn.
  3. „Hvað gerðist í orrustunni um Saipan í síðari heimsstyrjöldinni?“. Vísindavefurinn.
  4. Toland, John (1970). The Rising Sun: The Decline and Fall of the Japanese Empire, 1936–1945. New York: Random House. Bls. 871–872.
  5. Bix, Herbert P. (2001-09-04). Hirohito and the making of modern Japan. HarperCollins. Skoðað 2. desember 2017.
  6. Dower, John W. (2000-06-29). Embracing defeat: Japan in the wake of World War II. W. W. Norton & Company. Skoðað 2. desember 2017.
  7. Toyoda, Kumao (1986). Sensō saiban yoroku. Taiseisha Kabushiki Kaisha. bls. 170–172.
  8. Document detailing war criminal execution procedures found[óvirkur tengill], Kyodo (The Mainichi). 8/6/2013.
  9. Hólmfríður Gísladóttir (17. júní 2021). „Sjötíu ára ráðgáta leyst um endanlegan hvíldarstað Tojo“. Vísir. Sótt 18. júní 2021.


Fyrirrennari:
Fumimaro Konoe
Forsætisráðherra Japans
(17. október 194122. júlí 1944)
Eftirmaður:
Kuniaki Koiso