Albert Guðmundsson
Albert Sigurður Guðmundsson (fæddur 5. október 1923, lést 7. apríl 1994) var fyrsti íslenski atvinnumaðurinn í knattspyrnu og lék meðal annars með Val, Glasgow Rangers, Arsenal og AC Milan. Að íþróttaferlinum loknum fór hann út í stjórnmál og var þingmaður á Alþingi í 15 ár og gegndi embætti fjármálaráðherra og iðnaðarráðherra. Hann bauð sig fram í forsetakosningunum 1980 en tapaði fyrir Vigdísi Finnbogadóttur.
Íþróttaferill
breytaÁrið 1944 hélt Albert til Skotlands til að læra viðskiptafræði við Skerry's College í Glasgow. Hann hóf knattspyrnuferilinn með Rangers. Eftir stutt stopp þar fór hann til Englands þar sem hann lék nokkra vináttuleiki og tvo deildarleiki með Arsenal í október 1946 sem áhugamaður. Hann var annar leikmaður Arsenal sem var ekki frá Bretlandi, Gerard Keyser hafði verið sá fyrsti.
Albert gat ekki fengið atvinnuleyfi í Englandi og fór því að svipast um eftir tækifærum annar staðar. Í leik með Arsenal gegn Racing Club de Paris vakti hann athygli franska liðsins sem vildi nú semja við hann. Það fór þó ekki svo heldur skrifaði Albert undir samning við Nancy í lok árs 1946. Albert lauk fyrstu leiktíð sinni með Nancy sem markahrókur liðsins og skoraði tvö mörk í hverjum bikarleik.
1948 skrifaði Albert undir samning við AC Milan. Hann hnébrotnaði í leik gegn Lazio og virtist ekki eiga góðar batahorfur. Liðslæknir Inter Milan taldi annað og vildi gera aðgerð á því. AC Milan leist ekki á áhættuna og neitaði og keypti Albert sig því undan samningi og fór í aðgerðina sem reyndist takast vel.
Eftir að hann náði fullum styrk að nýju fór hann aftur til Frakklands þar sem hann lék fyrir ýmis lið áður en hann lagði skóna á hilluna sem atvinnumaður árið 1954. Eftir heimkomuna tók hann við stjórn liðs Íþróttabandalags Hafnarfjarðar, sem þá lék í 2. deild. Albert leiddi Hafnfirðinga upp í 1. deild sumarið 1956 í fyrstu tilraun og var spilandi þjálfari þeirra í efstu deild sumrin 1957 og 1958.
1967 fékk Albert Silfurmerki KSÍ fyrir starf sitt í knattspyrnuheiminum. Hann var formaður KSÍ frá 1968 til 1973. Þegar hann vék úr embætti var honum veitt Gullmerki KSÍ fyrir langvarandi og þýðingarmikil störf hans að knattspyrnu. Albert var jafnframt formaður Íþróttafélags Reykjavíkur á árunum 1959 til 1961.
Albert var fyrsti íslenski atvinnumaðurinn í knattspyrnu. Þann 13. febrúar 2010 var afhjúpuð stytta af honum við höfuðstöðvar KSÍ í Laugardal. Styttan er eftir Helga Gíslason.
Albert var tekinn inn í heiðurshöll ÍSÍ árið 2013.
Stjórnmálaferill
breytaEftir að hann sneri heim frá Frakklandi hóf Albert feril sem heildsali 1956 og seldi einkum frönsk kvenföt og vín, auk þess sem hann var með umboð fyrir Renault bifreiðar um tíma. Hann gekk síðan í Sjálfstæðisflokkinn og var kosinn í borgarstjórn Reykjavíkur 1970 og var borgarfulltrúi allt til 1986. Árið 1974 var hann kosinn til Alþingis. Albert varð fjármálaráðherra 1983 og 1985 fór hann yfir í iðnaðarráðuneytið og var þar ráðherra til 1987.
1987 gekk hann úr Sjálfstæðisflokknum og stofnaði Borgaraflokkinn þar sem hann var formaður til 1989, en var þá skipaður sendiherra Íslands í Frakklandi og gegndi því embætti til 1993. Áður hafði hann verið ræðismaður Frakklands á Íslandi frá 1962.
Albert var umdeildur stjórnmálamaður og viðurkenndi að vera einleikari í pólitíkinni. Hann naut mikilla vinsælda eins og sést á því að í Alþingiskosningunum 1987 tókst nýstofnuðum flokki hans að ná inn 7 þingmönnum.
Lucy
breytaÁrið 1984 kærði Rafn Jónsson fréttamaður Albert fyrir ólöglegt hundahald. Hundurinn, sem var tík að nafni Lucy, varð um leið landsþekkt. Albert sagði þegar honum varð kæran ljós að hann byggi ekki í lögregluríki og að hann gerði sér engan veginn grein fyrir því hvað byggi að baki kærunni. Albert gaf sig ekki og hótaði að flytja úr landi.[1] Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti að lokum hundahald með skilyrðum ekki síst vegna þrautseigju Alberts. Albert þurfti þó að greiða 6.500 krónur í sekt áður en að Borgarstjórnin samþykkti hundahald en Albert neitaði að borga sektina þar sem honum fannst hart að Íslendingar byggju ekki við sömu réttindi alls staðar á lanidnu. Hann sagði einnig það vera mikla mannvonsku að taka gæludýr frá mönnum, ekki síst frá börnum. Hundurinn væri hluti af fjölskyldunni og ekki væri hægt að skipa honum að drepa einn úr fjölskyldunni.[2]
Tengill
breyta
Fyrirrennari: Ragnar Arnalds |
|
Eftirmaður: Þorsteinn Pálsson |
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 2. desember 2024.
- ↑ „Þekktustu dýr Íslandssögunnar – manst þú eftir þeim?“. DV. 2. september 2018. Sótt 2. desember 2024.