Alísa af Frakklandi

Alísa af Frakklandi, greifynja af Vexin (4. október 1160 – um 1220) var frönsk konungsdóttir og lengi heitmey Ríkharðs ljónshjarta, þótt þau giftust aldrei.

Alísa var dóttir Loðvíks 7. Frakkakonungs og annarrar konu hans, Konstönsu af Kastilíu, en fyrsta kona Loðvíks var Elinóra af Akvitaníu, sem síðar giftist Hinriki 2. Englandskonungi og varð móðir Ríkharðs. Dætur hennar og Loðvíks, María og Alix, voru því hálfsystur bæði Alísu og Ríkharðs. Konstansa dó af barnsförum þegar hún fæddi Alísu en fimm vikum síðar gekk faðir hennar að eiga Adelu af Champagne.

Í janúar 1169 gerðu Loðvík og Hinrik 2. samkomulag um að Alísa og Ríkharður skyldu giftast. Þau voru þá átta og ellefu ára. Alísa var send til Englands og ólst upp við hirð Hinriks. Þau Ríkharður hefðu mátt giftast þegar hún varð tólf ára en af því varð ekki, ef til vill vegna þess að Ríkharður var þá farinn til Akvitaníu og var þar með móður sinni. Árið 1177 hótaði Alexander 3. páfi að setja lendur Englandskonungs á meginlandinu í bann ef ekki yrði af brúðkaupinu en til þess kom þó ekki.

Miklar sögur voru á kreiki um að Hinrik hefði sjálfur gert Alísu að ástkonu sinni og hún hefði jafnvel alið honum barn. Um það er ekkert vitað með vissu en hvernig sem á því stóð var Ríkharður aldrei fáanlegur til að kvænast Alísu. Hinrik dó 1189 og 12. maí 1191 giftist Ríkharður Berengaríu af Navarra þótt trúlofun þeirra Alís hefði aldrei verið slitið formlega.

Filippus 2., bróðir Alísu, bauð Jóhanni landlausa hana fyrir eiginkonu en Elinóra móðir Jóhanns er sögð hafa komið í veg fyrir að af því hjónabandi yrði. Alísa giftist að lokum Vilhjálmi 3. Talvas, greifa af Ponthieu, 20. ágúst 1195 og áttu þau tvær dætur sem komust upp. Önnur þeirra var amma Elinóru af Kastilíu, konu Játvarðar 1. Englandskonungs, svo að afkomendur Alísu sátu eftir allt saman á konungsstóli í Englandi.

Heimild

breyta

Flokkur:Franskar konungsdætur Flokkur:Konur í Frakklandi á miðöldum