Aktívismi er kölluð hver sú viðleitni fólks sem viðhöfð er til að stuðla að félagslegum, pólitískum, efnahagslegum eða umhverfislegum breytingum á samfélaginu. Aktívismi getur falið í sér undirskriftir á undirskriftalista, framsending efnis af samfélagsmiðlum, „like“ smellir, blaðaskrif, bréfaskrif til stjórnmálamanna, þátttaka í stjórnmálastarfi, undirskriftasöfnun, áróðursherferðir, kröfugöngur, mótmæli, verkföll, hungurverkföll og hópaðgerðir sem miða að því að hefta aðgengi að stofnunum eða fyrirtækjum sem og efnahagslegur umbætur sem fela í sér aðgerðir á borð við sniðgöngu eða eða stuðning við fyrirtæki sem dæmi. Dæmi um undirgerðir aktívisma má telja neytendaaktívisma og sófa-aktívisma

Samfélagsleg mörk aktívisma

breyta

Í grein í tímaritinu Law & Society Review árið 2001 segir Frank Munger að hann geri sér grein fyrir því að fræðimenn komi til með að finna fyrir togstreitu milli aktívisma og fyrirspurna. Aktívismi sé byggður á innsæi gagnvart skuldbindingu að styðja pólitískar breytingar. En ef innsæið sé heiðarlegt geti það hæglega afvegaleitt fræðimenn. Munger segir enn fremur að þær spurningar sem samfélagið leggi til og geti leitt til ábendinga eða fyrirspurna til stjórnmálamanna eigi sér sjaldnast einfalt eða fyrirsjáanlegt svar. Hann segir að þar af leiði að okkar eigið innsæi, ímyndunarafl og hvati til rannsókna lendi ekki alltaf á þeirri stjórnmálafræðilegu línu sem við gerðum ráð fyrir í upphafi. Síðar í grein sinni segir Munger að aktívismi og fyrirspurnir geti átt í einhvers konar togstreitusambandi en hann trúi því að aktívismi geti styrkt rannsóknir miklu frekar en að grafa undan gildi þeirra. Hann heldur því enn fremur fram að fyrirspurnir eða vangaveltur geti styrkt aktívismann frekar en að flækja hann. Togstreitan milli þessara hugtaka sé því líklega rangtúlkun.[1]

Sumir telja þó aktívisma vera að viðurkenna forréttindi og ofríki í daglegu lífi. Rannsóknir hafa farið fram á því í Bandaríkjunum[2] og Kanada[3], hvernig hópar aktívista beita samfélagsmiðlum með því augnamiði að auðvelda almenna þáttöku og samræma aðgerðir.[4]

Merking orðsins Aktívismi

breyta

Aktívismi er til undir rithættinum Aktífismi í íslenskri orðabók er útskýrt sem aðgerðastefna og aðgerðasinni. Ekki eru allir á eitt sáttir um þýðingu á Activism og Activist þar sem hugtakið aðgerðastefna þykir ekki ná um það svið sem aktívismi spannar. Í greininni Hómó sófus? sem birtist í Stúdentablaðinu í október 2006 er rætt um merkingu orðsins.

Orðið aktivismi og aktivistar er ekki mikið notað á íslandi. Góð þýðing á hugtakinu er vandfundin. Mótmælendur eða aðgerðarsinnar er það sem helst hefur heyrst en bæði þessi orð eru tengd ákveðinni staðalímynd aktivisma sem varð til á 7. og 8. áratugnum. Aktivistar vilja skilgreina sig öðruvísi og losna þar með undan hinni lífsseigu ímynd um vinstrisinnaða hippann sem fer í kröfugöngu með skilti. Vissulega eru vinstri hipparnir í kröfugöngunni aktivistar en það er aðeins ein birtingarmynd aktivisma og alls ekki birtingarform sem hugtakið er skilgreint út frá.[5]

Í íslensk-enskri / ensk-íslenskri orðabók á [snara.is| www.snara.is] er Activist þýtt sem Aktívisti og er það skýrt á eftirfarandi hátt: n. aðgerðastefnusinni, maður hlynntur hverskyns virkum aðgerðum til framdráttar stefnumálum sínum. margir vilja meina að aðgerðastefnusinni sé hins vegar bara ein gerð af aktívista. Sófa-aktívismi er ein gerð aktívisma sem ekki telst til aðgerðastefnu. Í orðabók Merriam Webster er activism skilgreint á eftirfarandi hátt:

  • 1. Heimspeki.
    • a. Kenning sem fjallar um að kjarni tilverunnar sé virkni á einhvern hátt.
    • b. Kenning um að tengsl hugar og raunveruleikans utan hugarins leiði af sé sífellda virkni hugans.
  • 2. Kenning eða hefð fyrir mikilli virkni eða íhlutun sem leiðir af sér árangur í pólitískum markmiðum.[6]

Birtingamyndir aktívisma

breyta

Aktívistar geta starfað á öllum sviðum þjóðfélagsins. Sem dæmi geta þeir verið virkir innan dómskerfisins og var það Arthur Sclesinger jr. sem kynnti til leiks hugtakið dómstóla-aktívismi í grein sem birtist í Fortune Magazine í janúar 1943, í grein sem hét „The supreme court 1947“[7]. Aktívistar geta líka verið varðhundar og boðberar sem reyna að skilja aðgerðir og framkvæmdir allra handa ríkisstjórna undir því yfirskyni að það sé í þágu fjöldans.

Sumir aktívistar reyna að hafa bein áhrif á aðgerðir fólks en aðrir reyna að hafa áhrif á ríkisstjórnir með að hvetja til lagasetninga eða benda á að slíkt sé óþarft, allt eftir því sem við á. Aðrir aktívistar hvetja fólk til að breyta ekki framferði sínu eða daglegum athöfnum með það að markmiði að hamla gegn yfirvofandi breytingum. Þeir einstaklingar gætu flokkast sem aðgerðaandstæðingar.

Í bókinni „Liberating Voices: A Pattern Language for Communication Revolution“,[8] frá 2008, stingur Douglas Schuler upp á því sem kalla mætti hringferð aktívista. Slík hringferð gengi út á samspil aktívisma og ferðalaga sem gæti leitt af sér ákveðna vegferð sem tæki mið af landfræðilegum viðmiðum, allt frá hverfaskiptum hugmyndum yfir í alþjóðlegar aðgerðir[9].

Hugtakið aktívismi er mjög víðfeðmt og getur það átt við um fólk sem syngur, syndir og hleypur fyrir málstaðinn. En tenging framkvæmdarinnar við málstaðinn þarf ekki að vera mjög sterk þar sem sumir hlauparar finna sér eitthvert gott málefni til að hlaupa fyrir, tónlistarmenn spila á tónleikum til að kynna eigið efni um leið og góðan málstað og svo mætti lengi telja. Þrengri skilgreining á hugtakinu á einnig við um aðgerðasinna og aðgerðastefnu á borð við náttúruverndarsinna sem hlekkja sig við vinnuvélar eða andstæðinga veglagningar á borð við hópinn sem reyndi að hindra lagningu nýs Álftanesvegar. Viðari skilgreiningu á aktívisma mætti telja umræðuna um flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Í flugvallarmálinu hefur baráttan á báða bóga falist í allt frá greinarskrifum yfir í lobbýisma. Í stuttu máli þá má segja að aktívismi sé ekki alltaf stundaður af aktívistum[10]. í þrengri skilgreiningu má þannig segja að aktivismi séu þær aðgerðir sem eru ekki innan hefðbundinna stofnanna í samfélaginu. Aktivismi birtist í mörgum formum, aktivistar mæta ekki eingöngu í mótmælagöngur heldur halda einnig t.d styrktartónleika, skrá sig í Amnesty International, útvega Bobby Fisher íslenskt ríkisfang eða gefa 10 kr. í Rauðakrossbauk á aðventunni. [11]

Ungliða aktívismi

breyta

Ungliða aktívismi er stór þáttur í mótun samfélaga. Ungliðarnir eru yfirleitt skilgreindir sem grasrótin og samfélags-aktívismi, sjálfboðaliðastarf og virkni á samfélagsmiðlum í þágu málstaðar geta talist til grasrótaraktívisima. Aðkoma ungliða í grasrótarstarfinu tengist í seinni tíð mest skilaboðasendingum á samfélagsmiðlum og hefur verið kallað nútíma ungliða aktívismi. Þar fá raddir þeirra, skoðanir og viðhorf að heyrast. Leiðir ungliða til að hafa áhrif liggja víða, meðal annars í starfsnámi og hjá stofnunum sem fá ungmennin til sjálfboðaliðastarfa í þeim tilgangi að gera heiminn að betri stað.[12]

Internetið

breyta

Frá því um aldamótin 2000 hafa hópar sem tengst hafa aktívistum verið virkir á netinu í þeim tilgangi að ná sínum helstu skipulögðu markmiðum. Því hefur verið haldið fram að internetið auki útbreiðslu, hraða dreifingar og áhrifamátt samskipta aktívista og um leið hvetur aðgerða.[3][13][14][15].

Aktívismi 2.0

breyta

Aktívismi 2.0 er hugtak sem á rætur sínar að rekja til kvikmyndar Justin Dillon Call + Response. Myndin fjallar um þrælaverslun 21. aldarinnar og áætlanir um að ná athygli almennings til að réttlæta samfélagsaktívisma í því augnamiði að afnema þrælahald.

Skilgreining

breyta

Aktívismi 2.0 er notað um virkni sem að mestu leiti er tengd netnotkun. Gjarnan hefur verið vísað til þessa hugtaks sem eins konar sófa-aktívisma. Það byggir á því að lítill hópur aðgerðasinna setur upp til dæmis vefsíður með undirskriftalistum eða fésöfnun sem miða að því að koma málstað sínum á framfæri. Þeir sem undirrita eða leggja fram fé telja oft sínum þætti lokið og að þeir hafi lagt ákveðnum málstað lið. Dæmi um þetta eru ýmiskonar undirskriftarsafnanir til dæmis á vefum eins og change.org og endurreisn.is, góðgerðarverkefni á borð við SOS Barnaþorp, Unicef og fleira.

Gagnrýni og andsvar

breyta

Líkt og með Aktívisma hefur skilgreining á Aktívisma 2.0 og sófa-aktívisma hlotið talsverða gagnrýni á sig að vera gagnslítil tól sem fari fram frekar hugsunarlítið á samfélagsmiðlum. Malcolm Gladwell ritar í grein sinni í New Yorker, þann 4. október 2010 [16], harða gagnrýni á þá sem bera saman „samfélagsmiðlabyltingar“ við raunverulegan aktívisma sem ögrar gildi óbreytts ástands. Hann veltir því upp að aðferðir samfélagsmiðla séu ekki sambærilegar við aðferðir sjáanlegs aktívisma á borð við setuverkföll aðgerðasinna og að byltingin fari ekki fram á samfélagsmiðlinum X.

Sem svar við grein Gladwell á skrifar Leo Mirani í The Guardian að Gladwell gæti haft rétt fyrir sér ef aktívismi skoðast eingöngu sem aðgerðir á borð við setuverkföll og mótmæli á götum úti. Ef aktívismi á hins vegar að vekja fólk til vitundar, hafa áhrif á skoðun þess og dreifa skoðunum um alla heimsbyggð þá fer hún líka fram á Twitter og streymt á Youtube[17]

Aktívista iðnaður

breyta

Aktívista iðnaðurinn er kallaður þær um ær stofnunanir og einstaklingar sem hafa helgað sig aktívisma. Aktívismi getur verið fullt starf innan stofnunar sem hefur hann að megin starfsemi. Margar stofnanir í aktívista iðnaðinum eru annað hvort góðgerðarfélög eða félög ótengd stjórnvöldum. Fæstar af þessum stofnunum standa í framleiðslu varnings.

Oft hefur verið vísað til hugtaksins Aktívista iðnaður í tengslum við einhvers konar fjáraflanir sem framkvæmdar eru að utan að komandi aðilum. En aktívista stofnanir taka einnig þátt í ýmis konar málarekstri [18]. Lobbýismi eins að reyna að hafa áhrif á ákvarðanatöku stjórnvalda er einnig skilgreind sem ein gerð aktívisma. Margir hagsmunaaðilar, til dæmis lögmannsstofur, eru með eigin teymi af starfsmönnum sem sjá sérstaklega um lobbýisma. Í Bandaríkjunum er lobbýisma stýrt af ríkisstjórninni[19].

Innan stjórnkerfisins eru almennt stofnanir sem hvetja til fjárframlaga til góðgerðastofnana í skiptum fyrir skattafslátt. Í mörgumm ríkjum er stjórnvöldum þó heimilt að afturkalla slík leyfir gerist góðgerðastofnanirnar sekar um pólitískan áróður.

Frekara fræðsluefni um aktívisma

breyta

Sófakynslóðin - fræðslumynd um aktívisma á Íslandi

Sjá einnig

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. Munger, Frank. (2001). Inquiry and Activism in Law and Society. Law & Society Review, Vol. 35, nr 1. Sótt á ProQuest
  2. Obar, Jonathan; og fleiri (2012). „Advocacy 2.0: An Analysis of How Advocacy Groups in the United States Perceive and Use Social Media as Tools for Facilitating Civic Engagement and Collective Action“. Journal of Information Policy.
  3. 3,0 3,1 Obar, Jonathan (2014). „Canadian Advocacy 2.0: A Study of Social Media Use by Social Movement Groups and Activists in Canada“. Canadian Journal of Communication. Sótt 4. febrúar 2016.
  4. „Inspired Voices: 5 Unconventional forms of Activism“. Elephant Journal. Sótt 4. febrúar 2016.
  5. Hafdís Erla, Hafsteinsdóttir (2006). „Hómó Sófus“ (PDF). Stúdentablaðið. 4: 29. Sótt 4. febrúar 2016.[óvirkur tengill]
  6. Webster's Encyclopedic Unabridged Dictionary of the English Language (1989). útg:Portland House, New York.
  7. Keenan Kmiec in a 2004 California Law Review article
  8. Schuler, Douglas (2008). Liberating Voices: A Pattern Language for Communicaton Revolution. Cambridge, Massachusetts: MIT Press. ISBN 9780262693660.
  9. „Activist Road Trip“. Public Sphere Project. 2008. Sótt 4. febrúar 2016.
  10. „Introduction to Activism“. Permanent Culture Now. Permanent Culture Now. Sótt 3. febrúar 2016.
  11. Hafdís Erla, Hafsteinsdóttir (2006). „Hómó Sófus“ (PDF). Stúdentablaðið. 4: 29. Sótt 4. febrúar 2016.[óvirkur tengill]
  12. „Youth and Social Movements: Key Lessons for Allies“.
  13. Ope;, J. A. M. (1999). „From the Streets to the Internet: The Cyber-Diffusion of Contention“. Annals of the American Academy of Political and Social Science. 566: 132–143. doi:10.1177/000271629956600111.
  14. Eaton, M. (2010). „Manufacturing Community in an Online Activity Organization: The Rhetoric of MoveOn.org's E-mails“. Information, Communication and Society. 13 (2): 174–192. doi:10.1080/13691180902890125.
  15. Obar, J. A.; Zube, P.; Lampe, C. (2012). „Advocacy 2.0: An analysis of how advocacy groups in the United States perceive and use social media as tools for facilitating civic engagement and collective action“. Journal of Information Policy. 2: 1–25. doi:10.2139/ssrn.1956352.
  16. Small Change - Why the revolution will not be tweeted http://www.newyorker.com/magazine/2010/10/04/small-change-malcolm-gladwell
  17. Sorry, Malcom Gladwell, the revolution may well be tweeted http://www.theguardian.com/commentisfree/cifamerica/2010/oct/02/malcolm-gladwell-social-networking-kashmir.
  18. Dana R. Fisher, "The Activism Industry: The Problem with the Left's Model of Outsourced Grassroots Canvassing Geymt 5 desember 2010 í Wayback Machine", The American Prospect, 14 September 2006
  19. „New Federal Lobbying Law Reporting Periods Begin“. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. júlí 2011. Sótt 5. febrúar 2016.

Heimildir

breyta