Heraklíus (gríska: Ἡράκλειος Herakleios; latína: Heraclius; um 575 – 11. febrúar 641) var keisari Austrómverska ríkisins frá 610 til 641. Leið hans til valda hófst árið 608 þegar faðir hans, Heraklíus eldri, skattlandsstjóri Afríku, leiddi uppreisn gegn Fókasi keisara.[1]

Solidus með mynd Heraklíusar sleginn í Konstantínópel milli 610 og 613.

Þegar Heraklíus komst til valda stóðu margar ógnir að ríkinu. Stríð Býsantíum og Sassanída stóð yfir og Grikkir höfðu beðið ósigra í fyrstu orrustunum. Persneski herinn náði alla leið að Bospórus, en Konstantínópel var varin af sterkum varnarmúrum og öflugum sjóher. Skömmu eftir það hófst Heraklíus handa við að endurreisa og endurskipuleggja herinn. Síðar náði hann að hrekja Persa frá Anatólíu og vann afgerandi sigur í orrustunni um Níneve 627. Persakeisara, Kosróes 2., var steypt af stóli. Sonur hans, Kavad 2., lét taka föður sinn af lífi og hóf friðarviðræður þar sem hann samþykkti að draga her sinn frá öllum hernumdum svæðum.[2] Eftir það komst friður á milli ríkjanna.

Friðurinn stóð þó ekki lengi og brátt missti Heraklíus lönd sín aftur, í þetta sinn í hendur Rasídúna í landvinningum múslima. Arabar lögðu Sassanídaríkið undir sig og réðust inn í Rómverska Sýrland árið 636. Þar sigruðu þeir bróður Heraklíusar, Theodór. Á skömmum tíma lögðu Arabar undir sig Mesópótamíu, Armeníu og Egyptaland.[3] Heraklíus brást við með frekari umbótum sem nýttust eftirmönnum hans til að forðast algjöra eyðingu ríkisins.

Heraklíus hóf viðræður við Serba og Króata á Balkanskaga. Hann reyndi að taka á klofningi innan kirkjunnar út af deilum um eðli Jesú með hugmyndinni um mónóþelítísma („einn vilji“) í staðinn fyrir mónófýsítisma („eitt eðli“). Þeirri málamiðlun var að lokum hafnað af öllum deiluaðilum.[4]

Tilvísanir

breyta
  1. Mitchell, Stephen (2007). A history of the later Roman Empire, AD 284–641: the transformation of the ancient world. Wiley-Blackwell. ISBN 1-4051-0857-6.
  2. Baynes, Norman H. (1912). „The restoration of the Cross at Jerusalem“. The English Historical Review. 27 (106): 287–299. doi:10.1093/ehr/XXVII.CVI.287. ISSN 0013-8266.
  3. Franzius, Enno. „Heraclius“. Encyclopædia Britannica. Sótt 11 febrúar 2018.
  4. Bury, John Bagnell (1889). A history of the later Roman empire from Arcadius to Irene. Adamant Media Corporation. ISBN 1-4021-8368-2.


Fyrirrennari:
Fókas
Keisari Austrómverska ríkisins
(610 – 641)
Eftirmaður:
Konstantínus 3. og Heraklónas


   Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.